Viðræður um launalið hefjast í vikunni - stjórnvöld komi að málum

Samninganefndir SA og ASÍ funduðu fyrir hádegið hjá Ríkissáttasemjara um stöðu kjaraviðræðna en þær halda áfram af fullum krafti í vikunni. Undanfarið hefur verið rætt við sérsambönd ASÍ um ýmis sérmál en viðræður um sameiginleg mál SA og ASÍ eru einnig hafnar, s.s. lífeyrismál og menntamál.  Áætlað er að á fimmtudag hefjist viðræður um launalið komandi kjarasamninga en enn er stefnt að því að gerðir verði samningar til þriggja ára sem taki gildi í júní. Vonast er til að niðurstaða liggi fyrir um miðjan mars.

SA og ASÍ leggja nú áherslu á að fá stjórnvöld að viðræðunum en ljóst er að ef atvinnulífið á að geta staðið undir launahækkunum þarf að bæta starfsumhverfi fyrirtækja og ráðast í ýmsar hvetjandi aðgerðir til að skapa öflugan hagvöxt og draga úr atvinnuleysi. Meðal þess sem rætt verður er að  koma ýmsum framkvæmdum í gang, að tryggingargjald verði lækkað og ýmis mistök sem gerð hafa verið í skattkerfi landsmanna verði lagfærð.

Þá leggja SA áherslu á að ráðist verði í sérstakt átak til að fjölga erlendum ferðamönnum til Íslands yfir veturinn en hægt er að skapa 1.000 störf þegar næsta vetur með slíku átaki og auka gjaldeyristekjur um 10-15 milljarða króna.

Samninganefndir SA og ASÍ munu hittast næst mánudaginn 7. mars til að meta stöðuna í kjaraviðræðunum.