Verzló verði þriggja ára skóli

Á fundi skólanefndar Verzlunarskóla Íslands í vor var samþykkt að hefja vinnu við endurskipulagningu skólans með það að markmiði að stytta skólann um eitt ár. "Þessi vinna fer á fullt í ágúst og er miðað við að Verzlunarskólinn verði tilbúinn að innrita fyrstu nemendurna í þriggja ára nám vorið 2015," segir Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskóla Íslands í samtali við Morgunblaðið sem greindi frá málinu.

"Þetta hefur mikið verið rætt bæði af Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði, þar er kallað eftir að árum til stúdentsprófs sé fækkað. Auðvitað eru skiptar skoðanir á þessu, en við höfum mikið rætt þetta í skólanefndinni, þar er fólk sem hefur mikil tengsl við atvinnulífið. Niðurstaðan var sú að unnið verður að því að Verzlunarskólinn verði þriggja ára skóli," segir Ingi, en ekki er útilokað að boðið verði einnig uppá fjögurra ára nám í einhvern tíma.

Samtök atvinnulífsins gáfu út ritið Uppfærum Ísland vorið 2012 þar sem lagðar voru fram tillögur að því að styrkja menntakerfið og efla atvinnulífið með aukinni samvinnu skóla og fyrirtækja. Tillögurnar byggja á umræðu um 100 stjórnenda úr íslensku atvinnulífi en fyrirtæki og samtök í atvinnulífinu hafa kallað eftir sameiginlegri stefnumótun með stjórnvöldum um framtíð og þróun menntakerfisins.  Ein af tillögum SA felst í að nemendur útskrifist úr framhaldsskóla tveimur árum fyrr en nú með því að gera kennslu í grunn- og framhaldsskóla markvissari. Það verði þó gert án þess draga úr þeim kröfum sem liggi til grundvallar náminu. Tækifæri til þessara breytinga eru fyrir hendi í nýlegum framhaldsskólalögum en tengja verður nám í grunn- og framhaldsskólum þannig að námslok gætu orðið við 18 ára aldur.

Á meðfylgjandi gröfum úr riti SA kemur fram að Íslendingar byrja háskólanámið seint í alþjóðlegum samanburði ...

Smelltu til að stækka!  

og eru lengi að læra ...

 Smelltu til að stækka! 

Í umfjöllun Morgunblaðsins 9. júlí sl. um fyrirhugaðar breytingar í Verzló segir að undirbúningur að styttingu námsins hefjist strax í haust.

"Það er ýmislegt utanaðkomandi sem þarf að ganga upp, en við treystum því að það gangi eftir og við förum í þessa vinnu strax í haust," segir Ingi sem bætir við að þau treysti því að lögum frá 2008 verði hrint í framkvæmd, sem kveða á um að lengja skólaárið um fimm virka daga. Einnig segir Ingi mikilvægt að ná samningum við Kennarasambandið um endurskipulagningu kennarastarfsins.

"Nú er skólaárið 175 dagar og þar af 145 kennsludagar og 30 prófdagar. Við getum ekki fækkað prófdögum og fjölgað kennsludögum nema það náist um það samningar," segir Ingi. Kvennaskólinn í Reykjavík var fyrstur til að bjóða uppá þriggja ára nám. "Við munum klárlega reyna að læra af þeim í þessum málum."

Tengt efni:

Útgáfa SA 2012: Uppfærum Ísland (PDF)

Smelltu til að sækja!