Verulegt svigrúm til að bæta rekstur sveitarfélaga: 20 milljarðar á ári

Sveitarfélög verða að setja sér haldgóðar fjármálareglur sem tryggja eftir föngum hallalausan rekstur þeirra. Fjárhagur flestra sveitarfélaga þolir ekki lausatök og mikilvægt er að sveitarfélög sæki leiðir til hagræðingar í reynslu hjá hverju öðru. Breytileiki í kostnaði sveitarfélaga á hvern íbúa er mikill sem sýnir að verulegt svigrúm er fyrir bættan rekstrarárangur sem nauðsynlegt er að nýta. Í tillögum Samtaka atvinnulífsins að nauðsynlegum umbótum í fjármálum hins opinbera kemur fram að hægt sé að hagræða á vettvangi sveitarfélaganna fyrir um 20 milljarða króna á ári.

Ríki og sveitarfélög hafa náð samkomulagi um flutning málefna fatlaðra yfir til sveitarfélaga um næstu áramót þó svo að staða og stærð sveitarfélaga á Íslandi gefi ekki tilefni til þess að flytja veruleg og viðkvæm verkefnasvið til þeirra frá ríkinu.

Of mörg sveitarfélög

Sveitarfélög á landinu eru 77 talsins, þar af eru 68 þeirra með færri en 5.000 íbúa og 44 með færri en 1.000 íbúa. Það hefur lengi verið talið að sveitarfélögin á Íslandi væru of mörg og fámenn sem leiði til óhagræðis og óhagkvæmni í rekstri og þar með óþarflega hárra skatta. Gagnstæð rök hafa komið fram um að aðstæður væru svo breytilegar að nauðsynlegt væri að taka á málum á mismunandi hátt sem réttlæti tilveru minni sveitarfélaga. Jafnframt væru minni sveitarfélög ekki endilega verr rekin eða stæðu fjárhagslega verr en þau stærri.

Nauðsynlegt að endurskoða reksturinn

Þegar kreppir að fær umræða um sameiningu sveitarfélaga og aukna hagkvæmni byr undir báða vængi. Sveitarfélögin þurfa ekki síður en ríkið að endurskoða sín fjármál og draga úr útgjöldum ef yfirlýst markmið stjórnvalda og samkomulagið við AGS eiga að ganga eftir. Umsvif sveitarfélaganna hafa aukist mjög á undanförnum árum vegna flutnings verkefna frá ríkinu og nýrra verkefna. Fleira kemur þó til því útgjöld sveitarfélaganna hafa aukist sem hlutfall af landsframleiðslu umfram þann flutning á verkefnum sem orðið hefur. Það er hins vegar vandasamt verk að draga úr útgjöldum þeirra því nálægð við íbúana er mikil og í mörgum tilfellum meiri en þegar ríkisvaldið á í hlut. Engu að síður er það nauðsynlegt.

Þungur róður

Fjárhagur sveitarfélaga er afar þröngur. Tíu sveitarfélög hafa verið til sérstakrar skoðunar af hálfu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga að undanförnu. Þá voru 37 sveitarsjóðir (A hluti) reknir með halla á árinu 2008, 41 sveitarsjóður árið 2009 og 29 sveitarfélög lögðu fram fjárhagsáætlun ársins 2010 með halla.

Samkvæmt rekstrarreikningum sveitarfélaga nam heildarframlegð þeirra af rekstri 3,7% af tekjum árið 2008, 6,2% af tekjum árið 2009 og 4,9% af tekjum skv. niðurstöðum fjárhagsáætlana þeirra árið 2010. Rekstrartap sveitarfélaga að teknu tilliti til afskrifta, lífeyrisskuldbindinga og fjármagnskostnaðar nam 22,1 ma.kr. árið 2008 og 0,5 ma.kr. skv. fjárhagsáætlunum 2010. Rekstrartapið árið 2008 jafngilti fjármagnskostnaði nettó.

Sveitarstjórnarmenn verða að leita bestu leiða til að draga úr útgjöldum sveitarfélaga. Þá kemur til skoðunar hvort sveitarfélögin sinni sínum lögbundnu verkefnum á skilvirkan og hagkvæman hátt og hvort verkefnin og markmið þeirra séu nægjanlega vel skilgreind. Einnig þarf að meta hvort þau sinni verkefnum fyrir fé skattgreiðenda sem aðrir gætu eða ættu að sinna og fjármagna. Samanburður við önnur sveitarfélög er mikilvægur til að kanna hvort aðrir leysi málin með betri árangri og minni tilkostnaði.

Dýr rekstur grunnskóla

Í skýrslu OECD frá 2006 er sérstök athygli vakin á háum kostnaði á hvern nemanda í grunnskóla, sem er þriðjungi yfir meðaltali OECD í yngri árgöngum og um fimmtungi yfir meðaltali OECD í efri árgöngum. Rekstur grunnskóla er dýrasti útgjaldaliður sveitarfélaga.

Árið 2008 nam sá kostnaður alls 52,3 ma.kr. skv. upplýsingum úr Handbók sveitarfélaga. Að meðaltali var kostnaður á nemanda um 1.200 þús.kr. en 867 þús.kr. í því sveitarfélagi þar sem hann var lægstur sem sýnir að verulegt svigrúm er fyrir bættan rekstrarárangur. Takist að lækka meðaltalið t.d. niður í 1.050 þús.kr. mætti spara 6,5 ma.kr. á ári, eða um 12,5%.

Lækka má kostnað m.a. með stærri bekkjardeildum þar sem áhersla er lögð á gæði kennslu frekar en fjölda kennslustunda, fækkun skóladaga og fjölgun kennslustunda í föstum vinnutíma kennara.

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga haustið 2009 nálgaðist Birgir Finnbogason, fjármálastjóri, mögulega lækkun útgjalda sveitarfélaga á áhugaverðan hátt. Í talnagögnum yfir 80% sveitarfélaga landsins, þ.m.t. öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, bar hann saman launakostnað á hvern íbúa, annan rekstrarkostnað á íbúa og útsvarstekjur sveitarfélaganna. Markmiðið með samanburðinum var að draga fram einfalda vísbendingu um líklegt óhagræði í rekstri sveitarfélaga. Miðað er við "bestu niðurstöðu" og áhrif á heildina ef sveitarfélögin næðu að halda launakostnaði og öðrum rekstrarkostnaði eins og þar sem hann er lægstur. Álagning útsvars miðað við það sem það er lægst var einnig skoðuð. Niðurstaðan var sú að launakostnaður myndi lækka um 15,4 ma.kr. á árinu 2008, annar rekstrarkostnaður um 14,3 ma.kr. og íbúar sveitarfélaga væru ofskattaðir um 5,3 ma.kr. miðað við það sem lægst var á árinu 2008. Samtals voru því útgjöldin tæpum 30 ma.kr. hærri en þau þyrftu að vera ef miðað er við það sem best var, eða sem nemur 2% af landsframleiðslu.

Við útreikninga eins og hér að framan verður auðvitað að setja þann fyrirvara að sveitarfélögin eru í ýmsu frábrugðin hvort öðru. Ef "sannleikurinn" um meint óhagræði liggur á bilinu 50% til 70% af heildartölunni gæti ávinningurinn legið í kringum 20 ma.kr. á ári.

Fjármálareglur algengar utan Íslands

Tilfærsla verkefna frá ríkisvaldi til lægri stjórnsýslustiga hefur leitt til þess að notkun fjármálareglna hefur orðið algengari á sveitarstjórnarstiginu. Í flestum OECD-ríkjum hefur ríkisvaldið sett fjármálareglur sem gilda fyrir lægri stjórnsýslustig, eða þau hafa sjálf sett þær, til þess að koma í veg fyrir skuldasöfnun eða útgjaldavöxt hins opinbera. Yfirleitt er með setningu eða aðlögun slíkra reglna stefnt að því að tryggja markmið í hagstjórn og stöðugleika í efnahagslífinu.

Til þess að tryggja virkni reglnanna er m.a. notast við efnahagsleg viðurlög. Í nokkrum ríkjum OECD eru sveitarfélög til að mynda sektuð ef þau ná ekki settum markmiðum. Algengustu viðurlög við brotum á settum fjármálareglum eru hins vegar stjórnunarlegs eðlis, þar sem ríkisvaldið annað hvort leggur til eða fyrirskipar tilteknar aðgerðir eða takmarkar svigrúm sveitarfélaganna.

Algengasta fjármálareglan lýtur að hallalausum rekstri en flest sveitarfélög í OECD ríkjunum búa einnig við takmarkanir við lántökum. Sum ríki banna alveg lántöku sveitarfélaga til reksturs, t.d. Danmörk, og heimila langtímalán einungis til fjárfestinga. Í mörgum löndum eru einnig settar takmarkanir við lántökur fyrirtækja í eigu sveitarfélaga en algengur farvegur fyrir skuldasöfnun sveitarfélaga er í gegnum fyrirtæki í þeirra eigu. Einnig hafa verið settar takmarkanir við lánveitingum fyrirtækjanna til sveitarfélaganna sjálfra.

Ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála, fjármálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga vinna nú að gerð hagstjórnarsamnings ríkis og sveitarfélaga til eins árs í senn. Vilji aðila stendur til aukins samstarfs um stjórn opinberra fjármála. Samningnum er m.a. ætlað að tryggja að tekjur og gjöld ríkis og sveitarfélaga taki mið af markmiðum um þjóðhagslegan stöðugleika og að afkoma ríkis og sveitarfélaga verði í samræmi við markmið um jöfnuð í fjármálum hins opinbera. Þá er fyrirhugað samstarf um lánamál hins opinbera, m.a. um skuldastýringu, sem einnig taki til fyrirtækja í opinberri eigu. Mikilvægt er að þannig verði staðið að undirbúningi samningsins að markmið hans gangi eftir.

Sjá nánar:

Tillögur SA: Nauðsynlegar umbætur í fjármálum hins opinbera