Versnandi afkoma ríkissjóðs er afleiðing ofurskattastefnu ríkisstjórnarinnar

Samtök atvinnulífsins hafa undanfarin fjögur ár varað við afleiðingum ofurskattastefnu ríkisstjórnarinnar og bent á að stefnan myndi óhjákvæmilega drepa í dróma allt frumkvæði og nýsköpun í atvinnulífinu. Í riti samtakanna Skattstofnar atvinnulífsins - ræktun eða rányrkja kemur fram að skattahækkanirnar hafi numið 87 milljörðum króna sem svarar til rúmlega einnar milljónar króna  á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Hagvöxtur undanfarin ár hefur verið knúinn áfram af aukinni einkaneyslu. Aukin einkaneysla hefur að stórum hluta verið knúin með útgreiðslu séreignasparnaðar, sérstökum vaxtabótum úr ríkissjóði og endurgreiðslu banka á vöxtum. Nú er svo komið að þessar lindir eru svo til þurrausnar þannig að hægst hefur á einkaneyslu og ekki hefur tekist að örva atvinnulífið til aukinnar verðmætasköpunar. Þannig spáir Hagstofan nú einungis samanlagt 3,5% hagvexti árin 2012 og 2013 í stað allt að 5,5% áður og samanlagðar fjárfestingar eru áætlaðar aukast um 2% í stað 15-30%.

Tekjuhorfur ríkissjóðs fara því versnandi þar sem gengið hefur verið á tekjustofna ríkissjóðs í stað þess að breikka þá og tryggja sjálfbærni þeirra. Fjöldi velmenntaðra Íslendinga hefur farið til annarra landa til að sjá sér og sínum farborða og eru ekki lengur skattgreiðendur hér á landi. Upphafleg markmið um tekjujöfnuð ríkissjóðs eru að óbreyttri skattastefnu víðsfjarri.

Við afgreiðslu fjárlaga ríkissjóðs fyrir árið 2013 tilkynnti ríkisstjórnin að tímabili niðurskurðar í ríkisútgjöldum væri lokið og nú væri óhætt að auka ríkisútgjöldin að nýju. Þessari stefnu hafa stjórnvöld framfylgt af einurð og varla leið sú vika í aðdraganda kosninganna að ekki birtust tilkynningar um aukin útgjöld ríkissjóðs ýmist á þessu ári eða komandi árum. Þessi blekkingarleikur smitaðist því miður til annarra flokka í aðdraganda kosninga svo að kjósendur sáu í hillingum græn tún og bleika akra.

Forsenda hagvaxtar og aukinnar velferðar er blómlegt og heilbrigt atvinnulíf þar sem að sköpunarkraftur og hugvit fólks fær notið sín og hóflegur afrakstur þess erfiðis fari í sameiginlega sjóði.

Það hlýtur að vera sameiginlegt kappsmál atvinnurekenda, launþega og stjórnvalda að ná tökum á sveiflum í gengi krónunnar og stöðugleika í verðlagi. Það er hin ábyrga leið til að auka kaupgetu launafólks þegar fram í sækir.

Við mótun efnahagsstefnunnar þarf ný ríkisstjórn að hafa þessi sannindi að leiðarljósi. Með því að auka svigrúm atvinnulífsins til fjárfestinga, vöruþróunar og nýsköpunar mun störfum fjölga og tekjur almennings aukast. Ríkið þarf einnig að auka eigin framleiðni með því að einfalda verkferla, hagræða í sínum rekstri og nýta tekjur sínar betur en nú.

Tekjuaukning ríkissjóðs vegna aukinna umsvifa í atvinnulífinu samfara eðlilegum samdrætti í ríkisútgjöldum er vís leið til að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum. Með því móti leggja stjórnvöld sitt lóð á vogaskálar stöðugleika í gengi krónunnar og almennu verðlagi.

Tengt efni:

Ræktun eða rányrkja? (PDF)