Verslunarstörf henta eftirlaunaþegum vel

Í viðhorfskönnun sem Rannsóknasetur verslunarinnar lét gera meðal eldri borgara í lok febrúar kemur í ljós að um 66% þeirra sem eru á eftirlaunaaldri, eða eru að komast á þann aldur, telja að verslunarstörf henti eftirlaunaþegum mjög vel eða frekar vel. Könnunin er liður í stærri rannsókn sem Rannsóknasetur verslunarinnar vinnur að varðandi starfsmannamál í verslunum og aukna atvinnuþátttöku eldri borgara og öryrkja. Könnunin náði til 800 manna hóps fólks á aldrinum 65 - 71 árs og byggði á 400 manna tilviljanaúrtaki úr þjóðskrá og sambærilegu úrtaki úr félagaskrá Landssambands eldri borgara.

Tilgangur könnunarinnar var að leiða í ljós viðhorf fólks á aldrinum 65 - 71 árs til aukinnar atvinnuþátttöku eftirlaunaþega. Með könnuninni var sérstaklega verið að leita svara við því hvort skerðing á ellilífeyri og öðrum bótum hefði áhrif á atvinnuþátttöku eftirlaunaþega. Einnig var sjónum beint að því hvort þessi aldurshópur teldi að verslunarstörf hentuðu eftirlaunaþegum.

Rannsóknin er að mestu framkvæmd af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands undir verkefnisstjórn Rannsóknaseturs verslunarinnar. Þeir sem styrkja rannsóknina eru félagsmálaráðuneytið, VR, Samtök atvinnulífsins, heilbrigðisráðuneytið, Verkefnisstjórn 50+ og SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu.

Niðurstöðurnar má nálgast í heild á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar