Verslun verði sambærileg og í nágrannalöndum Íslands

Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ og framkvæmdastjóri Pfaff, flutti erindi skattafundi SA 9. nóvember þar sem hún kallaði m.a. eftir því að rekstrarumhverfi verslunarinnar verði sambærilegt og þekkist í nágrannalöndum Íslands. Mikilvægt sé að koma í veg fyrir tvítollun á fatnaði til landsins og taka þurfi til í úreltu vörugjaldakerfi. Margrét auglýsti eftir bandamönnum til að lækka vöruverð á Íslandi og ná þannig fram bættum kaupmætti.

Ræðu Margrétar er hér að neðan ásamt glærukynningu:

Eftir margra ára hagsmunagæslu - erum við í verslun og þjónustu að komast að þeirri niðurstöðu - að ástæða þess að okkur miðar ekki betur í baráttu fyrir okkar félagsmenn, er að við erum allt of lítillát.  Við erum nefnilega ekki að biðja um neitt annað, en að rekstrarumhverfi íslenskrar verslunar verði samkeppnishæft - við það sem verslun í helstu nágrannalöndum okkar býr við.  Við erum ekki að biðja um neitt annað, eingöngu að fá að sitja við sama borð og aðrir - erum ekki að biðja um neitt sér - engar sérkröfur - enga sérstaka vernd.

Margrét Kristmannsdóttir

En íslensk verslun starfar í alþjóða samkeppni - og ef umhverfi okkar er ekki samkeppnishæft - ef lögð eru á okkur gjöld sem samkeppnisaðilar okkar sleppa við - þá er heimurinn ekki orðinn flóknari en svo - að verslunin flyst einfaldlega úr landi. Og þar með störf og tekjur sem að öðrum kosti - í flestum tilfellum - hefðu orðið eftir í íslensku hagkerfi.

En hvernig stendur á því að þessi atvinnugrein hefur áratugum saman þurft að búa við ofurálögur? Búið við forneskjulega skattheimtu í formi vörugjalda, sem þekkist vart í hinum siðmenntaða heimi. Og á tímum prófkjara er kannski rétt að spyrja - af hverju enginn stjórnmálaflokkur hafi gert þessa atvinnugrein að sinni.  Og þá erum við að tala um þegar hann er við stjórnvölinn - ekki þegar hann er í stjórnarandstöðu því verslunin hefur fengið nóg af loforðum stjórnmálaflokka, sem lofa öllu í stjórnarandstöðu en breyta síðan engu þegar völdin verða þeirra. Íslensk verslun auglýsir hér með eftir talsmanni sínum í sölum Alþingis. Auglýsir eftir bandamönnum í því að flytja verslun heim - og skapa hér störf og skap hér tekjur. Auglýsir eftir bandamönnum við að lækka vöruverð hér á landi og ná þannig fram bættum kaupmætti hjá okkur öllum.  Lausnin fellst ekki alltaf í að hækka launin - heldur verðum við að tryggja að við getum fengið meira fyrir þá peninga sem koma í launaumslagið. Þar skiptir lækkun vöruverðs lykilmáli.  Því gerir íslensk verslun einfaldlega ráð fyrir að launaþegahreyfingin leggi okkur aukið lið í þessu máli - og berjist við hlið okkar fyrir lægra vöruverði.

En hver eru þá baráttumál okkar þegar kemur að skattamálum. Þau er mörg en við nefnum hér tvö:

Tvítollun á fatnaði.

Langmest af fatnaði sem fluttur er til landsins kemur frá löndum Evrópusambandsins. Íslenski markaðurinn er einfaldlega ekki það stór að hann flytji inn mikið af stórum sendingum beint frá Asíu.  ESB verndar hins vegar textíliðnaðinn í sínum löndum með því að leggja 15% toll á allar innfluttar vörur - og þegar íslensk fyrirtæki flytja síðan inn fatnað frá ESB - sem á uppruna sinn utan svæðisins - þá lendir sá fatnaður í tvítollun þ.e. fyrst inn á svæði ESB og síðan aftur hingað til lands. Það sem ætti hins vegar að gerast er að birgjar okkar í ESB ættu að fá fyrri tollinn endurgreiddan þegar þeir flytja hann út af ESB svæðinu og til Íslands en íslensk fyrirtæki eru einfaldlega það lítil - kaupa ekki nógu mikið magn í einu - að þessir birgjar nenni að standa í því skrifræði og fyrirhöfn sem þarf til að fá tollinn endurgreiddan.

Á þessum tvítolli þarf því að finnast lausn og SVÞ hefur sent formlegt erindi til fjármálaráðuneytisins - þar sem það leitar liðsinnis stjórnvalda við að finna lausn á þessum skrifræðisvanda. Við erum sannfærð um að þegar - ekki ef - lausn finnst á þessum vanda mun hluti af þeirri fataverslun sem á sér stað erlendis flytjast heim og auka þannig tekjur okkar allra.

Vörugjöld

Tekjur ríkissjóðs af almennu vörugjaldi eru áætlaðar 5,8 ma.kr. á árinu 2012 en samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2013 er áformað að auka tekjur af vörugjaldinu verulega, eða í 6,9 ma.kr., einkum af innfluttum vörum.

Það má segja að það hafi glatt okkur hjá versluninni gríðarlega - þegar eftir 2ja áratuga baráttu tókst loks að fá ríkisstjórnina til að taka vörugjaldskerfið í heild sinni til endurskoðunar fyrr á þessu ári.  Voru skipaðir tveir starfshópar - annars vegar til að fjalla um vörugjöld á matvæli og hins vegar á aðrar vörur.

Í fljótu bragði má segja að sá vinnuhópur sem fjallaði um byggingavörur - rafmagnstæki og fleiri hafi skilað eins góðum árangri eins og við var að búast. Hann náði fram ýmsum leiðréttingum sem hafa verið að plaga verslunina árum saman og voru farin að hafa skaðleg áhrif t.d. er varðaði innflutning á tölvuskjám sem vegna tækniþróunar voru oft ranglega tollaðir sem sjónvörp. Og þetta er náttúrulega frægasta dæmið!

Hins vegar lenti vörugjaldshópurinn sem fjallaði um matvæli bara í einni hringavitleysu og virðist vera brotlentur út í skurði í boði fjármálaráðuneytisins.  Í upphafi var ákveðið að leggja á auknar álögur í formi vörugjalda á matvæli upp á 800 milljónir - og voru aðalrökin þau að þjóðin væri orðin of feit - og að það þyrfti að skattleggja sérstaklega sykraðar vörur. Við í versluninni drögum ekkert í efa að þjóðin sé orðin of feit - það sjáum við öll hér inni í salnum.  - En hins vegar teljum við að það eitt að leggja auknar álögur á sykraðar vörur dugi ekki til til að snúa þeirri þróun við - hér þarf að koma til miklu fjölþættara átak. En nú er þetta vörugjaldsdæmi í raun allt of flókið til að hægt sé að fara út i það í smáatriðum - en örstuttu máli gerðu upphaflegu tillögurnar ráð fyrir að öll matvæli sem innihalda sykur fengi á sig sérstakan skatt - líka mjólkurvörurnar sem alla tíð hafa verið undanþegnar vörugjaldinu.

Um leið og þessar tillögur lágu fyrir - algjörlega óútfærðar - vissum við að í uppsiglingu væri mjög flókið og dýrt kerfi - enda hefur komið í ljós að ráðuneytið er lent í algjörum ógöngum með útfærsluna.  Og hver er þá staðan akkúrat í dag?  Eftir því sem við vitum best á einfaldlega að hækka vörugjöld á allan innflutning sem nú þegar ber vörugjöld.

Landbúnaðarvörurnar - dísætu - sleppa sem fyrr og síðan er skömmin kórónuð með því að leggja vörugjöld á vörur sem innihalda sætuefni. Og hér koma örfá dæmi um það hvernig ríkisstjórnin ætlar að grenna okkur með auknum álögum:

  • Snúðurinn í bakaríinu ber engan skatt - en innflutta súkkulaðikexið

  • Mjólkurvörurnar - dísætu bera engan skatt - en flest innflutt morgunkorn

  • Allt gos ber vörugjald - en einnig áfram kolsýrða vatnið sem er sykurlaust

  • Mjólkin ber áfram ekkert vörugjald - en hins vegar innflutta sojamjólkin sem fólk með t.d. mjólkuróþol notar

Þessi dæmi eru náttúrulega ákaflega skondin þegar haft er í huga að í erindisbréfi starfshópsins var lögð sérstök áhersla á - að vinna hans ætti að tryggja - að fyrirkomulag vörugjaldskerfisins yrði einfaldara, samræmt, skilvirkt og hlutlaust með tilliti til vöruvals.  Við í versluninni spyrjum hvernig kerfi sem svo hróplega gerir upp á milli innfluttra vara og mjólkurvara getur verið samræmt og hlutlaust. Af hverju er enn á ný viðhaldið þeim órétti að leggja álögur á eina atvinnugrein á sama tíma og önnur atvinnugrein sleppur alveg?

En eftir því sem við best vitum - og ef ekki verða gerðar breytingar á þeim tillögum sem nú liggja fyrir - er hér kominn nýr megrunarkúr í boði ríkisstjórnarinnar sem ég get lofað ykkur að ber engan árangur.

Það sem má kannski segja að lokum - að það eina jákvæða sem kom út úr vinnu starfshópsins er að nú hafa Samtök verslunar og þjónustu, Samtök iðnaðarins, Neytendasamtökin og Félag atvinnurekenda lýst því yfir að þau vilja að undið verði ofan af vörugjaldskerfinu. Samhliða verði neðra þrep virðisaukaskatts hækkað þ.a. hér væri ekki um skattahækkun að ræða - heldur tilfærslur á gjöldum frá vörugjöldum yfir í virðisaukaskatt. Þannig kæmu inn svipaðar tekjum en í gegnum miklu einfaldara skattkerfi.

Og lokaorð verslunar og þjónustu hér í dag verða - ef þið skylduð vera á leið til útlanda:

"Það borgar sig að versla á Íslandi"

Glærur Margrétar Kristmannsdóttur