04. maí 2022

Verndun kaupmáttar er verkefnið framundan

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Verndun kaupmáttar er verkefnið framundan

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að hækka stýrivexti um eina prósentu og standa meginvextir bankans því í 3,75%. Raunvextir hafa verið verulega neikvæðir en þó er gert ráð fyrir að hagkerfið starfi nálægt fullri framleiðslugetu um þessar mundir. Þá hefur verðbólga ítrekað mælst umfram spár greiningaraðila og hafa verðbólguvæntingar aukist hratt að undanförnu. Því var einsýnt að stýrivextir yrðu hækkaðir. Höfðu greiningaraðilar spáð 50-100 punkta hækkun á þessum fundi og er hækkunin við efri mörk þess sem spáð var.

Líkur eru á áframhaldandi hækkunum á árinu ef marka má harðan tón peningastefnunefndar. Eins og tilgreint er í yfirlýsingu nefndarinnar mun það ákvarðast af framvindu í opinberum fjármálum og niðurstöðum þeirra kjarasamninga sem fram undan eru, eða með orðum nefndarinnar:

,,Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar á næstu mánuðum til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara”. 

Rammagrein 1 í Peningamálum, sem gefin voru út í morgun samhliða ákvörðun nefndarinnar, fjallar sérstaklega um áhrif viðbótarlaunahækkana á hagvaxtar- og verðbólguhorfur. Virðist af henni ljóst að hagkerfið er komið að þolmörkum hvað launaþróun varðar og að frekari nafnlaunahækkanir muni draga úr eftirspurn eftir vinnuafli, auka verðbólguþrýsting og þar með þörf fyrir frekari hækkun stýrivaxta. Heildaráhrifin af slíkri þróun væru til þess fallin að draga úr kaupmætti, ekki auka hann.

Verðbólguþrýstingur enn mikill

Verðbólga stendur í 7,2% og hefur ekki mælst meiri í 12 ár. Þó húsnæðisliðurinn drífi áfram verðbólguna um þessar mundir stendur verðbólga án húsnæðis þó í rúmlega 5%, sem er vel yfir markmiði Seðlabankans. Ólíkt því sem verið hefur undanfarin ár eru nú allir undirliðir verðbólgu að leggjast á eitt til að mynda þrýsting til hækkunar verðlags.

Þá er erlendur verðbólguþrýstingur enn mikill. Ætla má að eftirspurnaráhrif vegna stuðningsaðgerða ríkja vegna faraldurs séu enn að verki samhliða áframhaldandi framboðshnökrum vegna sóttvarnaraðgerða í Asíu og stríðsins í Úkraínu. Spáir Seðlabankinn nú að verðbólga muni ná 8% á árinu, enda séu verðbólguvæntingar að aukast á alla mælikvarða.

Framboð á íbúðarhúsnæði þarf að aukast

Verðbólga hefur nú um nokkra hríð mælst meiri en spár hafa gert ráð fyrir enda hefur sterkasti drifkraftur verðbólgunnar, húsnæðisverð, haldið áfram að hækka skarpar en talið var líklegt. Tólf mánaða hækkunartaktur húsnæðis á landsvísu mælist nú 19% og útlit er fyrir að íbúðaverð haldi áfram að hækka á meðan framboðshliðin tekur ekki hraðar við sér. Aukinn fjöldi íbúða er í pípunum en miðað við áætlanir mun hann þó ekki nægja til að vinna á fyrirséðri og uppsafnaðri þörf næstu ára að mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Umbætur á umgjörð byggingarmarkaðar eru því brýnar, hvort sem horft er til húsnæðisöryggis eða verðlags- og stýrivaxtaþróunar.

Gengisþróun mun skipta máli að vanda

Styrking krónunnar samhliða bata í ferðaþjónustu gæti dregið úr verðbólguþrýstingi en hafa ber í huga að raungengi krónunnar er hátt í samanburði við fyrri uppgangsskeið. Sú staða gæti reynst erfið fyrir útflutningsgreinar. Styrking krónunnar gæti því haft hemil á verðbólgunni um hríð en myndi einnig skerða samkeppnishæfni útflutningsgreina og gæti þannig dregið úr hagvexti.

Eins og seðlabankastjóri benti á í morgun er verkefnið fram undan að vernda kaupmátt íslenskra heimila. Allar líkur eru á áframhaldandi verðbólguþrýstingi inn í sumarið en þegar horft er til næstu missera virðist ljóst að þróttur framboðshliðar húsnæðismarkaður og niðurstöður kjarasamninga munu hafa mikið að segja um innlenda verðbólguþróun. Þá er mikilvægt að opinber fjármál styðji við peningastefnuna með aðhaldssemi á útgjaldahlið. Að öðrum kosti mun Seðlabankinn verða nauðbeygður til að bregðast við, eins og nefndin kom skýrt á framfæri í yfirlýsingu sinni.

Samtök atvinnulífsins