Verktakar mikilvægir litlum fyrirtækjum

Það er brýnt að bæta umhverfi verktaka á Íslandi og gera það jákvæðara til að smærri fyrirtæki geti treyst á að hafa aðgang að góðu starfsfólki þegar á þarf að halda. Þetta segir Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri Truenorth. Hún segir verktaka lífsnauðsynlega fyrir íslenskt atvinnulíf og með því að bæta umhverfi þeirra megi auka framlegð atvinnulífsins og draga úr svartri atvinnustarfsemi.

Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri Truenorth

Helga Margrét tók til máls á Smáþingi en Truenorth hefur mikla reynslu af verktöku á sviði kvikmyndagerðar og þjónustu við erlenda kvikmyndaframleiðendur. Helga Margrét segir að í kvikmyndagerð þrífist ekki samkeppni án þess að til staðar sé breiður hópur sérhæfðra verktaka. Á Íslandi sé frábær hópur verktaka sem búi yfir fjölhæfri þekkingu og reynslu. Það sýni sig líka að hvað eftir annað fái þetta fólk toppeinkunn hjá erlendum leikstjórum, framleiðendum og samstarfsmönnum. Helga Margrét undirstrikar að til þess að þessi góði hópur geti sérhæft sig eins og nauðsynlegt er þurfi fólk að geta unnið fyrir öll kvikmyndagerðarfyrirtæki landsins á einu og sama árinu og jafnvel nokkur innan sama mánaðar.

Helga Margrét segir fleiri en kvikmyndaframleiðendur njóta jákvæðra hliða verktöku, t.d. leikhúsin, opinbera geirann og heimilin sem nýti sér fjölbreytta þjónustu iðnaðarmanna á fjölmörgum sviðum. Regluverkið og umhverfið á Íslandi í kringum verktöku sé hins vegar stíft og erfitt og því þurfi að breyta. Í dag sé til dæmis erfitt fyrir fólk að byrja og fá VSK-númer.

Hægt er að horfa á erindi Helgu Margrétar hér að neðan og nálgast glærur en í erindinu fjallar hún m.a. um hlutverk Truenorth við upptökur á kvikmyndinni Thor - The Dark World, en um 500 manns komu að upptökunum sem fóru fram á Íslandi október 2012 á sunnanverðu miðhálendinu.

Glærur Helgu Margrétar

Fylgstu með okkur: www.facebook.com/LitlaIsland