Verkfalli starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum aflýst

Boðuðu verkfalli starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum sem hefjast átti í kvöld hefur verið aflýst. Samninganefndir Afls starfsgreinafélags og Drífanda stéttarfélags ákváðu þetta í dag. Þar með munu viðræður SA við þennan hóp væntanlega fara í sama farveg og viðræður við aðra viðsemjendur þar sem verið er að leggja grunn að kjarasamningi til þriggja ára. Stefnt er að því að viðræðum verði lokið á næstu vikum og á sama tíma verði rætt við ríkisstjórn og Alþingi um starfsskilyrði atvinnulífsins og áherslumál verkalýðshreyfingarinnar. Samtök atvinnulífsins telja skynsamlegt að boðuðu verkfalli hafi verið aflýst þar sem miklu tjóni hafi verið afstýrt.