Efnahagsmál - 

13. desember 2012

Verðum að liði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Verðum að liði

Átak til þess að ráða fólk til starfa sem hefur verið lengi án vinnu er að hefjast. Sérstakt samkomulag þar um var undirritað í gær, 12. desember. Fyrirtækin í landinu gegna meginhlutverki í átakinu en þeim er ætlað að ráða a.m.k. 1.320 langtímaatvinnulausa á næstu mánuðum. Samtök atvinnulífsins standa að átakinu ásamt öðrum aðilum vinnumarkaðarins og opinberum aðilum. Mikið liggur við að vel takist til.

Átak til þess að ráða fólk til starfa sem hefur verið lengi án vinnu er að hefjast. Sérstakt samkomulag þar um var undirritað í gær, 12. desember. Fyrirtækin í landinu gegna meginhlutverki í átakinu en þeim er ætlað að ráða a.m.k. 1.320 langtímaatvinnulausa á næstu mánuðum. Samtök atvinnulífsins standa að átakinu ásamt öðrum aðilum vinnumarkaðarins og opinberum aðilum. Mikið liggur við að vel takist til.

Í októberlok voru 8.200 manns á atvinnuleysisskrá en reikna má með að 3.700 manns muni í árslok 2013 hafa fullnýtt þriggja ára rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Þrýst var á að framlengja bráðabirgðaákvæði um fjögurra ára bótatímabil en Samtök atvinnulífsins lögðust gegn því. Samtökin töldu átak til þess að finna störf fyrir þá sem hafa fullnýtt rétt sinn mun farsælla en að greiða þeim áfram bætur.

Afar mikilvægt er að ekki séu stórir hópar fólks atvinnulausir árum saman. Langvinnt atvinnuleysi dregur úr líkum fyrir endurkomu á vinnumarkaðinn. Eftir því sem fólk hefur verið lengur atvinnulaust er hættara við því að starfsleit beri ekki árangur. Því þarf þjónusta við atvinnuleitendur að miðast við að þeir festist ekki utan vinnumarkaðarins.

Fyrirtæki sem taka þátt í átakinu og ráða atvinnulausa til vinnu fá til þess styrk frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Hann nemur fullri grunnfjárhæð atvinnuleysisbóta, 167.176 kr. á mánuði, að viðbættu 8% mótframlagi í lífeyrissjóð, ef viðkomandi er ráðinn á tímabilinu desember 2012 til mars 2013. Styrkurinn verður 10% lægri í mars og apríl 2013 og 20% lægri frá maí til ársloka 2013. Styrkurinn frá Atvinnuleysistryggingasjóði er greiddur í 6 mánuði. Þeir sem ráðnir eru njóta hins vegar allra samningsbundinna kjara hjá viðkomandi fyrirtæki.

Fyrirtækjunum er þannig auðveldað að verða að liði í þeirri mikilvægu viðleitni að koma fólki til starfa. Vissulega leggja fyrirtæki í kostnað en á móti kemur væntanlega aukin verðmætasköpun og vonandi betri afkoma þeirra. Styrkurinn frá Atvinnuleysistryggingasjóði er fjármagnaður með atvinnutryggingagjaldi eins og önnur útgjöld sjóðsins. Mikill eðlismunur er þó á því hvort sjóðnum er beitt til þess að greiða fólki fyrir að vera í vinnu í stað þess að greiða því fyrir að sitja heima.

Samtök atvinnulífsins hvetja fyrirtæki til þess að verða að liði eins og aðstæður frekast leyfa. Atvinnulaust fólk sem ráðið er til vinnu vill verða að liði í atvinnulífinu. Fólk vill fá að vinna og vera í liðinu sem skapar verðmætin í landinu.

Samtök atvinnulífsins munu á næstu mánuðum beita sér fyrir þátttöku fyrirtækja í þessu verkefni. Þannig verða þau að liði. Samtökin munu gera sitt til að kynna stöðu átaksins undir heitinu "Vinna og virkni" og fjalla um það sem fyrirtækin í landinu gera til að vel takist til.

Atvinnulífið ber kostnaðinn af því að vinnufúst fólk fái ekki starf. Atvinnulífið stendur undir verðmætasköpun samfélagsins og þar með beint og óbeint þeim skatttekjum sem varið er til framfærslu atvinnulausra. Fyrirtæki sem verða að liði í þessu átaki leggja því mikilvægt framlag af mörkum til samfélagsins auk þess að geta bætt eigin hag.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Af vettvangi í desember 2012

Samtök atvinnulífsins