Verðugt verkefni ESB í loftslagsmálum

Ljóst er að atvinnulífið í Evrópu og stjórnvöld standa frammi fyrir verðugu verkefni. Þau hafa sett sér að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 20% fyrir árið 2020 ásamt því að auka orkunýtingu um 20% á sama tíma og að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa verði orðið 20% árið 2020. Í dag er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa innan ESB 8,5% og staða Íslands til samanburðar verður því að teljast afar góð enda stefnir hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi í 80%. Það er staða sem engan í Evrópu getur dreymt um að ná á næstu árum eða jafnvel áratugum. Árangur Íslands í þessum efnum er því einstakur. Þetta segir Hörður Vilberg, verkefnastjóri hjá SA, í grein í Viðskiptablaðinu í dag.

Greinina má lesa í heild hér að neðan en í henni er fjallað um stefnumót atvinnulífsins í Evrópu sem fram fór í Brussel á dögunum á vegum Evrópusamtaka atvinnulífsins (BUSINESSEUROPE) og framkvæmdastjórnar ESB. Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru aðildar að BUSINESSEUROPE.

----------------------------------------------

Efnahagslífið grænkar í Evrópu

Umhverfis- og loftslagsmál eru málefni sem eru fyrirtækjum út um allan heim hugleikin um þessar mundir og útlit fyrir að svo muni verða næstu árin ef ekki áratugina. Nýverið fór fram í Brussel stór tveggja daga ráðstefna þar sem atvinnulífið í Evrópu átti árlegt stefnumót en umfjöllunarefnið að þessu sinnu voru orku- og umhverfismál í víðu samhengi - framtíð jarðarkringlunnar þegar best lét. Yfirskrift stefnumótsins var Greening the economy: new Energy for Business en það voru Evrópusamtök atvinnulífsins (BUSINESSEUROPE) og framkvæmdastjórn ESB sem stóðu meðal annarra að ráðstefnunni. Um þrjú þúsund þátttakendur voru mættir til að taka þátt í umræðunni, forstjórar og stjórnendur fyrirtækja stórra og smárra, ráðgjafar, fjölmiðlar, fulltrúar umhverfissamtaka ásamt ráðamönnum einstakra þjóða og fulltrúa ESB. Þar fór fremstur í flokki José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB. Þá tóku fulltrúar Samtaka atvinnulífsins einnig þátt í ráðstefnunni.

José Manuel Barroso

Vandi fylgir vegsemd hverri

Ljóst er að atvinnulífið í Evrópu og stjórnvöld standa frammi fyrir verðugu verkefni. Þau hafa sett sér þau markmið að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 20% fyrir árið 2020 ásamt því að auka orkunýtingu um 20% á sama tíma og að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa verði orðið 20% árið 2020. Í dag er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa innan ESB 8,5% og staða Íslands til samanburðar verður að teljast afar góð enda stefnir hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi í 80%. Það er staða sem engan í Evrópu getur dreymt um að ná á næstu árum eða jafnvel áratugum. Árangur Íslands í þessum efnum er einstakur. Stundum er vísað til þessa árangurs sem sérstöðu Íslands og í þessu samhengi er gott að vera ekki eins og allir hinir.

ESB og atvinnulífið í Evrópu hefur sett sér það markmið að auka samkeppnishæfni landa ESB en ljóst er að það mun ekki ganga þrautalaust fyrir sig að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið á sviði loftslags- og umhverfismála. Á ráðstefnunni komu fram þungar áhyggjur frá fulltrúum orkufrekra iðnfyrirtækja, fyrirtækja úr stál- og efnaiðnaði um að metnaðarfull markmið ESB um takmörkun á útstreymi gróðurhúsalofttegunda gætu hreinlega hrakið fyrirtækin úr Evrópu til landa þar sem kröfurnar eru minni. Útstreymi gróðurhúsalofttegunda myndi þar af leiðandi ekki minnka en Evrópa glata góðum fyrirtækjum.

Fjölmenni var á stefnumóti atvinnulífsins

Í máli Barroso kom fram að leggja yrði mikla áherslu rannsóknir, nýsköpun og tækniþróun til að hægt yrði að tryggja hagvöxt í Evrópu til framtíðar sem væri byggður á grænu og vistvænu atvinnulífi. Ljóst er að Evrópubúar verða þó að hysja upp um sig buxurnar því fjárfestingar í rannsóknum á sviði orkumála hafa dregist saman um 50% síðan á 9. áratug síðustu aldar og fjárfestingar á þessu sviði hafa farið minnkandi undanfarin ár. Bæði Bandaríkin og Japan verja meiri fjármunum til þessara mála en Evrópa.

Atvinnulífið hefur brugðist við

Þrátt fyrir að lausnir á hinum margumtalaða loftslagsvanda blasi ekki við er ljóst að fyrirtæki bæði stór og smá hafa brugðist við. Fjöldi fyrirtækja kynnti á stefnumóti atvinnulífsins afrakstur rannsókna sinna sem er ætlað að draga úr orkunotkun og auka orkunýtingu. Á ráðstefnunni mátti heyra spennandi sögur af alls kyns lífrænu eldsneyti og eitt fyrirtæki O2 Diesel Corporation kynnti lausn sem felst í því að blanda etanóli út í díselolíu til að draga úr skaðlegu útstreymi. Það tók fyrirtækið 10 ár að finna þessa lausn en díselolía og etanól blandast ekki náttúrulega saman.

Stóru olíufyrirtækin og bílaframleiðendur eru þátttakendur í þessari þróun, t.a.m. Shell og BMW en á ráðstefnunni mátti sjá fjölda vetnisbíla en lögulegur BMW úr 7-línunni var þeirra vígalegastur og fullyrti skeleggur fulltrúi þýska bílaframleiðandans að innan 10-15 ára yrði slíkir bílar farnir að þeysa um göturnar.

BMW vetnisbíll á álfelgum

Ráðleggingar Lomborgs

Björn LomborgMeðal þátttakenda í umræðum var Björn nokkur Lomborg en hann er prófessor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn og gaf út síðastliðið haust bókina Cool it: The Skeptical Environmentalist's Guide to Climate Change. Lomborg fékk ráðstefnugesti til að horfa með gagnrýnum augum á þann boðskap sem dynur látlaust á heimsbyggðinni um að allt horfi til verri vegar og fólk þurfi að breyta um lífsstíl. Gaf hann lítið fyrir það og sagði bresku þjóðina t.d. geta frestað hlýnun jarðar um nokkra klukkutíma með því að lifa meinlætalífi, hjóla í stað þess að keyra og fresta um aldur og ævi ferðalögum fjölskyldunnar á fjarlægar slóðir. Sagði Lomborg að það sem öllu máli skipti væri að stórauka fjármagn til rannsókna og nýsköpunar þannig að hægt væri að leita nýrra lausna - ekki bara við loftslagsvandanum heldur á þeim ýmsu plágum sem herja á mannkynið.

Þriðja iðnbyltingin

Undir lok ráðstefnunnar tók til máls Bandaríkjamaðurinn Jeremy Rifkin en hann hefur verið mörgum ráðamönnum í Evrópu til ráðgjafar í orkumálum, m.a. Angelu Merkel kanslara Þýskalands. Rifkin sagðist hvorki meira né minna sjá fyrir þriðju iðnbyltinguna og endalok olíualdarinnar. Nýting á olíu, kolum og gasi yrði þó áfram mikilvæg í Evrópu næstu áratugina en orkunýting yrði bætt og nýrra lausna leitað. Sagðist hann sjá fyrir að á endanum yrði orkuþörf heimsins svalað á sjálfbæran hátt með jarðvarma, sólarorku, vindorku, virkjun vatnsfalla og sjávarfalla. Ennfremur yrðu farartæki jarðarbúa knúin vetni sem bæri í sér orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Á þessum sviðum eru klárlega sóknarfæri fyrir Íslendinga og íslensk fyrirtæki.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 4. mars 2008 

Sjá nánar:

Upptökur af erindum og ítarefni á http://www.ebsummit.eu/

Vefur BUSINESSEUROPE