Verðtrygging lækkar fjármagnskostnað

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að verðtryggingin hafi í stórum dráttum leitt af sér að fjármagnskostnaður heimilanna sé lægri en ella. Vilhjálmur segir að ef verðtryggingin sem slík væri afnumin, myndi fólk ekki taka lán í íslenskum krónum heldur færa sig yfir í lán í erlendum gjaldmiðlum. "Það er hinn kosturinn og það ætti að vera að bera saman hvort betra er að taka lán í erlendum krónum eða verðtryggð lán. Ókostur við erlendu lánin eru gengissveiflurnar og það er nokkuð sem fólk verður að vega og meta."

Vilhjálmur segir að lífeyrissjóðirnir fjármagni sig á verðtryggðum lánum og það lækki þeirra umsýslu- og viðskiptakostnað. "Kostnaður við að festa fjármagn í verðtryggðum eignum er miklu lægri en hann mundi vera ef lífeyrissjóðirnir væru endalaust að eltast við skammtímaeignir og eignir í íslenskum krónum með óverðtryggðum vöxtum."

Aðspurður hvort eignastýring lífeyrissjóðanna yrði virkari ef verðtryggingin yrði afnumin segir Vilhjálmur spurninguna vera hversu virk eignastýringin þurfi að vera, eftir því sem hún verði virkari kosti hún meira því væntanlega þurfi fleira fólk til. Það sé því dýrara kerfi. Vilhjálmur segir þó rétt sem Hreiðar Már [Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka] segi, að verðtryggingin virki eins og annar gjaldmiðill hvað peningamálastjórnina varði og því megi halda því fram að verðtryggingin sé þáttur í þeim óstöðugleika og sveiflum sem við höfum nú séð. "En þær myndu ekki lagast þó verðtryggingin yrði afnumin því lánin myndu flytjast yfir í erlenda gjaldmiðla hvort eð er. Ég held að markaðshlutdeild lána í íslenskum krónum myndi ekki hækka við það að leggja niður verðtrygginguna," segir Vilhjálmur.