Verðmæt framlög Reykjavíkurborgar og hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar

Borgarráð Reykjavíkurborgar ákvað í dag að hætta við áformaðar hækkanir á gjaldskrám sem taka áttu gildi um næstu áramót. Hætt verður við hækkanir á gjaldskrám vegna leikskóla, skólamáltíða, frístundaheimila, bókasafnsskírteina, sundlaugakorta og þjónustu velferðarsviðs. Áformaðar hækkanir borgarinnar, og sambærilegar hækkanir annarra sveitarfélaga, hefðu hækkað vísitölu neysluverðs um allt að 0,2% um næstu áramót.

Ákvörðunin er tekin eftir viðræður forystumanna borgarinnar og aðila vinnumarkaðarins þar sem kallað var eftir því að borgin styddi við tilraunir til þess að skapa víðtæka samstöðu samningsaðila á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um það meginmarkmið að kveða niður verðbólgu og stuðla að stöðugu verðlagi. Ákvörðun borgarinnar er eðlilega tekin með þeim fyrirvara að náist ekki sá árangur sem að er stefnt muni Reykjavíkurborg taka gjaldskrár til endurskoðunar á síðari hluta árs 2014.

Frumkvæði Reykjavíkurborgar er stórt framlag til komandi kjarasamninga og mikilvægt fordæmi fyrir önnur sveitarfélög. Næsta skref í þessu ferli er að ríkisstjórnin endurskoði áform um gjaldahækkanir í fjárlagafrumvarpi og um hækkanir ríkisstofnana á gjaldskrám sínum. Þá þarf að skapa uppbyggilega umgjörð um samskipti aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera um viðfangsefni sem tengjast kjarasamningum. Forsenda árangurs er víðtæk samstaða á vinnumarkaði um markmið og leiðir og í framhaldinu að atvinnulífið, einkum verslunar- og þjónustufyrirtæki, stilli verðákvarðanir sínar af miðað við lægri verðbólguvæntingar. Framlag Reykjavíkurborgar er mikilvægur liður í ferlinu framundan við sköpunvíðtækrar samstöðu.

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar setti í vikunni fram lista með 111 tillögum sem lúta að hagræðingu ríkisrekstrarins. Samtök atvinnulífsins fagna framlagningu þeirra. Tillögurnar í heild eru víðtæk áætlun um hagræðingu í ríkisrekstri og eru í raun dagskrá eða efnisyfirlit yfir vinnu að því marki á kjörtímabilinu því það mun taka tíma að hrinda þeim í framkvæmd. Ákvörðun forsætisráðherra um að fela formanni hagræðingarhópsins framkvæmd verkefnisins eykur líkur á því að árangur náist.

Ríkisútgjöld jukust mikið á síðasta áratug og fram hefur komið, m.a. í gögnum Samstarfsvettvangs um aukna hagsæld á Íslandi, að framleiðni er slök hjá hinu opinbera. Ríkisútgjöld, að frádregnum óreglulegum liðum s.s. vöxtum, hafa aukist um 60 milljarða króna á föstu verðlagi frá árinu 2000 sem er svipuð fjárhæð og síðasta ríkisstjórn hækkaði skatta á atvinnulífið á árunum 2009-2012. Aukin skilvirkni í ríkisrekstri er forsenda þess að ríkisskuldir verði greiddar niður og undið verði ofan af skattahækkunum síðustu ára. Samtök atvinnulífsins binda því miklar vonir við framkvæmd tillagna hagræðingarhópsins.