Verðlagsáhrif fyrirhugaðra skatta- og tollalækkana á matvæli

Áform ríkisstjórnarinnar um lækkun skatta og tolla á matvæli fela í sér afnám vörugjalda af öðrum matvælum en sykri og sætindum, lækkun virðisaukaskatts (VSK) á þær matvörur sem nú eru skattlagðar í hærra þrepinu niður í það lægra, lækkun lægra þreps VSK úr 14% í 7%, lækkun VSK á veitingaþjónustu niður í neðra þrepið og lækkun tolla á flestar kjötvörur um allt að 40%.

Ef áhrif hinna óljósu hugmynda um tollalækkanir eru undanskildar eru áætluð áhrif skattalækkananna þau að matvælaútgjöld meðalheimilis lækka um rúmlega 70 þús. kr. á ári, matvælaverð lækkar um 11%, vísitala neysluverðs lækkar um 1,9% og tekjutap ríkissjóðs verður rúmir sjö milljarðar króna. Er þá ekki reiknað með auknum tekjum ríkissjóðs vegna aukins kaupmáttar sem skattalækkunin veldur.

   Áætluð áhrif af skattalækkun ríkisstjórnarinnar á matvælaverð

Áætluð áhrif af skattalækkun ríkisstjórnarinnar á matvælaverð

Smellið til að sjá stærri útgáfu.

Þrátt fyrir að þessi álagning þessa skatts, sem nefnist vörugjald, sé margfalt víðtækari en í  öðrum löndum virðist ekki hafa náðst samstaða í ríkisstjórninni um afnám hans af öllum matvælum. Það eru vonbrigði að ekki skyldi vera samstaða um að fella þessa brenglandi skattheimtu alfarið niður þar sem í því hefði falist kærkomin tiltekt í úreltu skattkerfi, óbeinn ávinningur fyrir neytendur í formi lækkunar á samkeppnisvörum og niðurfelling flókins skrifræðiskerfis sem þessari skattheimtu fylgir. Hin svonefndu aflátsbréf, sem innlendir framleiðendur þurfa að hafa í fórum sínum til þess að eiga rétt á endurgreiðslu vörugjalda af aðföngum, verða t.d. enn við lýði. Áhrifin niðurfellingar vörugjalda af öðrum vörum en sykri og sælgæti á matvælaverð verða 2,9% og vísitala neysluverðs lækkar um 0,4%, ef vörugjaldslækkunin skilar sér að fullu í verðlagi. 

Lækkun VSK á matvæli sem nú eru í hærra þrepinu er útgjaldaminnsti þáttur skattalækkunarinnar, en það kostar ríkissjóð tæpan einn milljarð króna að lækka VSK á þessar vörur niður í 14%. Þetta er hins vegar mjög mikilvægt skref í átt að heilbrigðara skattkerfi þar sem með samræmingunni er dregið úr bjögunaráhrifum mishárra skatta á matvörur sem ætti að hafa óbein áhrif til lækkunar á samkeppnisvörum.

Útgjaldamesti þáttur aðgerðar ríkisstjórnarinnar er helmings lækkun VSK á matvæli og aðrar vörur í lægra VSK þrepinu. Þessi leið kostar ríkissjóð rúmlega þrjá og hálfan milljarð króna, lækkar matvælaútgjöld meðalfjölskyldu um 31 þús. kr. á ári, gæti lækkað matvælaverð um 6,5% og vísitölu neysluverðs um 0,8% ef lækkunin skilar sér að fullu í verðlagi. Með þessari ákvörðun er Ísland komið í hóp þeirra OECD-ríkja sem leggja hvað lægstan virðisaukaskatt á matvæli og hvergi verður meira bil á milli almenna þrepsins og matarþrepsins, 17,5%, nema í Bretlandi þar sem matvæli bera ekki VSK.

Fjórði þáttur skattalækkunarinnar er samræming skattlagningar á veitingahús, en sala þeirra á vöru og þjónustu er nú skattlögð í hærra VSK-þrepinu en skatturinn af vörusölunni er endurgreiddur þannig að hann á að vera 14% í raun. Breytingin er fólgin í því að þjónustuna skal nú einnig skattleggja í lægra þrepinu auk þess sem að í þessu felst mikil einföldun fyrir atvinnugreinina. Vonandi verður þessi breyting einnig til þess fallin að bæta skattskil í greininni.

Áhrif fyrirhugaðrar tollalækkunar á matvæli er óljós þar sem mikilvægar ákvarðanir um útfærslu hennar hafa ekki verið teknar. Kynning málsins gefur þó ótvírætt til kynna að lækkunin eigi að hafa raunveruleg og marktæk áhrif á verðlag. Ef gengið er út frá því að allir tollar verði lækkaðir um 40% þá má ætla að áhrifin verði mest á verð frá framleiðendum svínakjöts og kjúklinga hér innan lands. Lauslega áætlað gætu áhrifin til lækkunar verðlags orðið 1,5% og á vísitölu neysluverðs um 0,3%. Svo virðist sem forsætisráðuneytið áætli að áhrif tollalækkunarinnar á vísitölu neysluverðs verði allt að 0,4% þannig að ganga verður út frá að 40% tollalækkun taki til allra vöruflokka.

Þegar allt er talið, skatta- og tollalækkanir, má ætla að heildaráhrif aðgerða ríkisstjórnarinnar til lækkunar matvælaverðs verði um 12% og vísitala neysluverðs lækki um 2,2-2,3% ef allar lækkanir skila sér í lækkun verðlags.

Það kom skýrt fram í skýrslu formanns matvælaverðlagsnefndarinnar sl. sumar að meginástæðan fyrir háu verðlagi á matvælum á Íslandi liggur í tollvernd innlendrar kjöt- og mjólkurafurða og brenglandi áhrifum vörugjalda og mishárrar álagningar VSK á matvæli.  Aðrir þættir eins og launastig og lega landsins hafa vissulega áhrif en með afnámi tolla og vörugjalda mætti koma matarverði niður á sama stig og í Finnlandi og Svíþjóð, án þess að lækka núverandi lægra þrep VSK. Stjórnvöld hafa valið aðra og  kostnaðarsamari leið sem felur það í sér að æskilegum breytingum í íslenskum landbúnaði, m.a. að færa hann undan forsjá ríkisins, er slegið á frest um óákveðinn tíma.