Verðbólguálag skuldabréfa hefur lækkað um 0,5% í janúar

Verðbólguálag skuldabréfa hefur lækkað hratt það sem af er árinu. Verðbólguálagið er mismunur vaxta á óverðtryggðum og verðtryggðum skuldabréfum með sama líftíma og endurspeglar verðbólguvæntingar aðila á skuldabréfamarkaði. Verðbólguálagið á skuldabréfum til fimm ára var 4,22% í ársbyrjun en hafði lækkað í 3,71% um miðjan mánuðinn. Skýring þessarar snörpu lækkunar liggur bersýnilega í markmiði kjarasamninganna sem gerðir voru 21. desember síðastliðinn um hjöðnun verðbólgu.

Í janúar hafa samningsaðilar, fyrirtæki og stjórnvöld efnt til kynningarátaks um ávinning stöðugs verðlags með það að markmiði að verðbólgumarkmið Seðlabankans, 2,5%, náist á næstu mánuðum. Þá hefur styrking krónunnar undanfarna mánuði haft verulega þýðingu fyrir hjöðnun verðbólguvæntinga.

Verðbólgan og verðbólguálagið er þó enn allt of hátt en ætti að geta lækkað niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans ef næstu tvær verðbólgumælingar Hagstofunnar sýna marktæka hjöðnun verðbólgunnar. Reynslan frá árinu 2010 sýnir að verðbólguálagið getur fallið niður í 2% ef verðbólgan hjaðnar eins og þá gerðist. Verðbólguvæntingarnar geta síðan vaxið hratt ef tilefni gefast til þess eins og á árunum 2011 og 2012 þegar gengi krónunnar lækkaði og laun hækkuðu mikið með þekktum áhrifum á verðbólguna.

Í nóvember 2013 var verðbólguálagið liðlega 4% en hækkaði nokkuð um mánaðamótin nóvember og desember þar sem fjárfestar virtust óttast að tillögur ríkisstjórnarinnar um lækkun höfuðstóls húsnæðislána myndu hafa verðbólguhvetjandi áhrif, en þær áhyggjur dvínuðu þegar umfang og útfærsla tillagnanna lá fyrir.

Verðbólguálag skuldabréfa - smelltu til að stækka