Verðbólgan hjaðnar

Hófleg verðbólga undanfarna sjö mánuði og stöðugt gengi krónunnar vekur vonir um áframhaldandi hjöðnun hennar á næstu mánuðum og að koma megi í veg fyrir að hún fari á flug á ný. Það vekur athygli að verðbólguspár greiningadeilda viðskiptabankanna síðustu mánuði hafa verið mikið umfram raunþróun verðlags.

Greiningardeild Arionbanka er með stærsta frávikið, en deildin spáði 1,7% hækkun vísitölu neysluverðs undangengna þrjá mánuði en reyndin varð 0,7%. Spár greiningardeilda um verðlagsþróun næstu misserin hljóða upp á 4-5% verðbólgu næstu tvö árin. Meginforsenda þeirra eru launahækkanir langt umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiðum Seðlabanka og einnig langt umfram svigrúm atvinnulífsins miðað við núverandi efnahagsástand. Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað bent á að þessar væntingar um launabreytingar séu óraunhæfar.

Minnkandi verðbólga er í takt við ástand og horfur í efnahagslífinu nú. Ýmis merki kólnunar hafa komið fram á undanförnum mánuðum og líklegt að hagvöxtur verði nokkru minni í ár en ráð var fyrir gert. Því virðist sem lítil eftirspurnarspenna sé í hagkerfinu nú.

Verðhækkanir í september eru óverulegar ef frá eru taldar verðhækkanir á fatnaði þar sem sumarútsölum er lokið. Undanfarna 8 mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,3% sem samsvarar 2% verðbólgu á ársgrundvelli. Verðbólga án húsnæðis hefur einungis hækkað um 0,56% undanfarna 8 mánuði. Það samsvarar 0,84% verðbólgu á ársgrundvelli.

Á þessu tímabili hefur Seðlabankanum tekist að halda gengi krónunnar nokkuð stöðugu og það heldur styrkst. Verðlag á innfluttum vörum hefur tekið mið af þeirri þróun og lækkað um 1,3% undanfarna 8 mánuði. Innlendar vörur, að búvöru frátalinni, hafa hækkað lítillega á tímabilinu eða um tæpt 1%. Liðirnir sem vegna þyngst í verðbólgunni undanfarið er hækkun húsnæðisliðarins, landbúnaðarvara og þjónustuliða. Verðbólgan á árinu á sér því fyrst og fremst rætur í innlendum kostnaðartilefnum.


Með samstilltu átaki aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera er raunhæft að vinna bug á verðbólgunni og bæta þannig lífskjör heimilanna. Til að svo geti orðið verða bæði opinberir og einkaaðilar að haldi aftur af hækkun gjaldskráa sinna og verðhækkun á vöru og þjónustu sem byggð er á allt of háum verðbólguvæntingum.

Takist Seðlabankanum að halda gengi krónunnar stöðugu næstu mánuði og verði launahækkunum á vinnumarkaði stillt í hóf er ástæða til að ætla að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist strax á næsta ári.

Allra hagur er að halda verðbólgu í skefjum. Samtök atvinnulífsins hafa sýnt fram á að 1% hjöðnun verðbólgu skilar heimilunum að minnsta kosti fjórfalt meiri ávinningi en 1% launahækkun.