Verðbólga getur lækkað enn frekar

Vísitala neysluverðs lækkaði í janúar um 0,72% og er það meiri lækkun en búist var við. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Fréttablaðið í dag gott tækifæri vera til staðar til að ná verðbólgu niður fyrir markmið Seðlabankans og halda henni þar í framhaldinu.

"Það ætti að hjálpa okkur með þá kjarasamninga sem voru felldir þar sem þetta eykur tiltrú á þá vegferð sem við vorum á. Við getum náð því að byggja upp kaupmátt á lægri nafnhækkunum launa en áður og þannig náð verðbólgu talsvert niður. Sem og að ná vöxtum niður sem skilar mestum ávinningi fyrir bæði heimili og fyrirtæki," segir Þorsteinn.

Verðbólgan er enn minni þegar húsnæði er undanskilið, eða 1,9% á síðustu 12 mánuðum. Húsnæðiskostnaður hefur hækkað um 7,6% undangengna 12 mánuði og búvörur og grænmeti um 6%. Þessar hækkanir skýra ríflega 60% hækkunar vísitölunnar. Undanfarna 12 mánuði hefur gengi krónunnar styrkst um 12,7% gagnvart öðrum myntum. Innfluttar vörur, aðrar en áfengi og tóbak, hafa lækkað á sama tímabili um 1,5% og styrking krónunnar síðustu mánuði gefa vonir um frekari lækkun næstu mánuði.


Lækkun vísitölu neysluverðs í janúar er ánægjuleg en á undanförnum vikum hafa fjölmörg fyrirtæki og sveitarfélög lýst því yfir að þau muni halda aftur af verðhækkunum til að styðja við markmið nýrra kjarasamninga um lága verðbólgu, auka stöðugleika og kaupmátt. Þá lýsti ríkisstjórnin því yfir í tengslum við gerð samninganna að gjaldskrárhækkanir yrðu dregnar til baka og er mikilvægt að við það verði staðið.

Tengt efni:

Við hækkum ekki á Facebook