Efnahagsmál - 

28. Ágúst 2013

Verðbólga á niðurleið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Verðbólga á niðurleið

Mikilvægt er að allir, bæði hið opinbera og einkaaðilar, haldi aftur af hækkun gjaldskráa sinna og almennri verðhækkun á vöru og þjónustu. Frá því í febrúar á þessu ári hefur verðbólgan verið innan markmiða Seðlabankans. Þróunin á næstunni ræðst fyrst og fremst af því hvort gengi krónunnar helst stöðugt og hvort takist að ná skynsamlegri niðurstöðu í kjarasamningum á vinnumarkaði.

Mikilvægt er að allir, bæði hið opinbera og einkaaðilar, haldi aftur af hækkun gjaldskráa sinna og almennri verðhækkun á vöru og þjónustu. Frá því í febrúar á þessu ári hefur verðbólgan verið innan markmiða Seðlabankans. Þróunin á næstunni ræðst fyrst og fremst af því hvort gengi krónunnar helst stöðugt og hvort takist að ná skynsamlegri niðurstöðu í kjarasamningum á vinnumarkaði.

Þegar litið er til síðustu 6 mánaða er verðbólga reiknuð til árshækkunar 1,9%. Vísitala neysluverðs hefur hækkað úr 409,9 stigum í 413,3 stig frá febrúar til ágúst á þessu ári.

Frá því í ágúst 2012 hækkaði neysluverðsvísitalan mest í september 2012 (0,8%) og í febrúar 2013 (1,6%). Þessar hækkanir stöfuðu fyrst og fremst af lækkun gengis krónunnar í fyrra tilvikinu og af almennum launahækkunum og hækkun gjaldskráa í seinna tilvikinu.

Mikilvægt er að komandi kjarasamningar stefni þessari þróun ekki í voða. Verðbólguþróunin undanfarna mánuði ýtir undir nauðsyn þess að skynsamlegir kjarasamningar náist á vinnumarkaði þar sem launahækkunum er stillt í hóf.

Það er allra hagur að halda verðbólgunni í skefjum. Það leiðir til minni hækkana verðtryggðra lána fólks og fyrirtækja og eykur líkur á því að niðurstaða kjarasamninga skili almenningi auknum kaupmætti.   

Samtök atvinnulífsins