07. september 2022

Vel heppnuð heimsókn norrænna vinnuverndarsérfræðinga til SA

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vel heppnuð heimsókn norrænna vinnuverndarsérfræðinga til SA

Samtök atvinnulífsins eiga í afar góðu samstarfi við systursamtök sín á Norðurlöndum. Í liðinni viku komu hingað til lands helstu sérfræðingar systursamtaka SA á Norðurlöndunum á sviði vinnuverndar en hópurinn hittist árlega.

Góðar umræður áttu sér stað um stöðuna á vinnumarkaði og helstu áskoranir á sviði vinnuverndar. Aðilar voru sammála um að gott samstarf milli samtaka atvinnurekanda og stéttarfélaga væri lykilatriði í að stuðla að góðri vinnuvernd.

Aðilar eru sammála um að mikilvægt sé að draga úr brotthvarfi af vinnumarkaði og veikindafjarvistum. Á hinum Norðurlöndunum er veikindarétturinn að mestu fjármagnaður með sjóðafyrirkomulagi í stað þess að einstakir atvinnurekendur standi að mestu straum af veikindafjarvistum líkt og tilvikið er hér á landi. Þar er einnig til staðar skipulögð endurkomuáætlun um leið og starfsmaður dettur af vinnumarkaði sökum veikinda. Atvinnurekendur, starfsfólk, læknar og stjórnvöld eiga með sér samstarf sem miðar af því að draga úr veikindafjarvistum og brotthvarfi af vinnumarkaði eins og kostur er. Norðmenn settu sér til að mynda það markmið að draga úr veikindafjarvistum um 10% fyrir árslok 2022 miðað við árið 2018.

Af fundinum, sem stóð yfir í þrjá daga, taka Samtök atvinnulífsins með sér ótal hugmyndir að því hvernig unnt sé að bæta vinnuumhverfið og virkni á vinnumarkaði öllum til hagsbóta. Vonandi munu einhverjar þeirra verða að veruleika á næstu misserum.

Samtök atvinnulífsins