Vel heppnaður fundur SA um atvinnumál á Ísafirði

Það var þétt setinn bekkurinn á fundi Samtaka atvinnulífsins á Hótel Ísafirði í hádeginu í dag. Fjölbreyttur hópur fólks úr atvinnulífinu sótti fundinn sem markar upphafið að fundaröð SA um Ísland þar sem staða atvinnumála og vinnumarkaðurinn er í kastljósinu. Næstu fundir fara fram á Akureyri og Húsavík á fimmtudaginn og á Reyðarfirði á föstudaginn. Hreinskiptar umræður fóru fram á Ísafirði um atvinnumálin, stjórnmálin og mikilvægi þess að koma atvinnulífinu af stað á nýjan leik.

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA ræddu á fundinum um stöðuna í atvinnulífinu, komandi kjarasamninga og svöruðu fjölmörgum fyrirspurnum fundargesta. Vilmundur sagði m.a. að í komandi kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði verði lögð á það áhersla af hálfu SA að allir hópar fái sambærilega og hóflega launahækkun og að samningar allra aðila hafi sama gildistíma sem verði allt að þremur árum. Varðandi kjaraviðræðurnar framundan sagði Vilmundur að ríkisstjórnin verði að koma að borðinu en það sé stórt vandamál að í dag  ríkir ekki traust milli atvinnulífsins og stjórnvalda.

Frá fundi SA á Ísafirði

Það er ljóst að það eru fjölmörg mál sem hvíla á stjórendum í atvinnulífinu þessa dagana en á fundinum va m.a. rætt um að hækkun tryggingargjaldsins hafi reynst litlum og meðalstórum fyrirtækjum erfið og lögð var á það rík áhersla að tryggingagjaldið verði lækkað með minnkandi atvinnuleysi eins og stjórnvöld hafi lofað á sínum tíma. Fyrirtækin hafi lítið sem ekkert svigrúm sé til að hækka laun á meðan gjaldið sé svona hátt.

Málefni sjávarútvegsins komu nokkuð til umræðu og staða sjávarútvegsfyrirtækja í dag var sögð óþolandi. Á meðan stjórnvöld viðhaldi óvissu um framtíð greinarinnar sé fjárfestingum haldið í lágmarki og það fjari fljótt undan fyrirtækjunum og starfsfólki þeirra við slíkar aðstæður.

Þá kom fram á fundinum að svo virðist sem stjórnvöld fari alltaf ranga leið í aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi. Sama hvað gert sé þá hreyfist ekkert úr stað - kyrrstaðan sé alger og allt skrúfist niður.

Frá fundi SA á Ísafirði

Einnig komu fram á fundinum áhyggjur af viðhorfum á Íslandi til útlendinga og erlendrar fjárfestingar og bent á það sem mörgum virðist gleymt að velmegun á Íslandi og lífskjör eru beintengd góðum samskiptum og viðskiptum Íslendinga við útlönd.

Vilmundur og Vilhjálmur lögðu á það hérslu á fundinum að ef réttar ákvarðanir verða teknar á næstunni sé mögulegt að skapa hér umtalsverðan fjölda nýrra starfa og vinna til baka lífskjör sem hafa tapast á undanförnum árum.

SA munu flytja fréttir af næstu fundum samtakanna hér á vefnum.

Skráning á fundina fer fram hér að neðan:

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞÁTTTÖKU Á AKUREYRI, HÚSAVÍK OG REYÐARFIRÐI