Vel heppnaðri fundaröð SA með framhaldsskólanemum lokið

Fundaröð SA með útskriftarnemum framhaldsskóla er nú lokið. Yfirskrift hennar var Ætlar þú að vinna úti? en að þessu sinni sóttu fulltrúar SA heim fimm skóla og ræddu við alls um 400 nemendur um framtíð lands og þjóðar og hvaða leiðir þau ætluðu sér að fara í framtíðinni, hvaða menntun  þau hygðust sækja sér, við hvað þau vildu helst starfa, hvar þau vildu helst búa, og hvernig Ísland gæti nýtt sér þau tækifæri sem eru fyrir hendi til að sækja fram á tímum aukinnar alþjóðlegrar samkeppni. Það sem upp úr stendur eftir heimsóknir SA er jákvætt viðhorf nemendanna til framtíðarinnar og þeirra áskorana sem Ísland stendur frammi fyrir.

Versló

Leikurinn hófst á Akureyri þann 17. janúar í Verkmenntaskólanum á Akureyri, en þaðan lá leiðin í Iðnskólann í Reykjavík, Menntaskólann á Ísafirði, Menntaskólann á Egilsstöðum og loks Verzlunarskólann í Reykjavík. Fjörlegar umræður spunnust á fundunum og kom þar margt til tals, s.s. skattkerfið, einkarekstur í heilbrigðis- og skólaþjónustu, fækkun ára í framhaldsskóla og mikilvægi menntunar fyrir atvinnulífið, ásamt mikilvægi nýsköpunar, frjórrar hugsunar og frumkvöðlaanda svo fátt eitt sé nefnt. Í Iðnskólanum var nemendunum ofarlega í huga hvaða áhrif tæknibreytingar og fjöldaframleiðsla úti í heimi hefðu á íslenskan iðnað og þar kom sterkt fram að svar Íslands og íslenskra fyrirtækja ætti að felast í því að einbeita sér að því að hanna verðmætar vörur sem væru eftirsóttar á alþjóðlegum mörkuðum, ásamt því að veita verðmæta þjónustu. Erfitt væri að keppa við fjöldaframleiðslu frá láglaunasvæðum - það væri heldur ekki eftirsóknarvert. Einnig var áberandi mikill áhugi á starfsumhverfi fyrirtækja á fundinum í Iðnskólanum og ljóst að þar stefna margir nemendur á sjálfstæðan atvinnurekstur.

Jákvætt viðhorf til framtíðarinnar

Það sem upp úr stendur eftir heimsóknir SA í ofangreinda fimm framhaldsskóla er jákvætt viðhorf nemendanna til framtíðarinnar og þeirra áskorana sem Ísland stendur frammi fyrir. Mikilvægt er að takast á við þær áskoranir með jákvæðum hætti og leggja áherslu á að nýta tækifærin því það eitt er víst að hlutirnir munu breytast og það hratt. Ísland hefur verið að koma vel út í ýmsum alþjóðlegum samanburði undanfarin ár, t.d. mælst hátt í samanburði á samkeppnishæfni og lífskjörum. Þá er hagvöxtur hér mikill og atvinnuleysi lítið. Þennan árangur vilja SA varðveita en til þess þarf stöðugt að vera á verði. Það hvernig Íslendingar munu bregðast við síaukinni alþjóðlegri samkeppni mun á endanum ráða lífskjörum okkar.

Starfsumhverfi fyrirtækja er til að mynda síbreytilegt og þau sjálf sem og stjórnvöld þurfa því að fylgjast vel með til að missa ekki af lestinni. Það sama á við um fólk á vinnumarkaði, það þarf stöðugt að efla sig og vera tilbúið til að tileinka sér nýja hluti. Velferð okkar hvílir á öflugu atvinnulífi en heimurinn er að breytast hratt og ef fram heldur sem horfir mun viðskiptaumhverfið eins og við þekkjum það í dag gjörbreytast á næstu áratugum. Indland og Kína eru til dæmis á hraðri siglingu með mikinn hagvöxt ár eftir ár og því er spáð að efnahagur Kína, Indlands, Rússlands og Brasilíu muni á innan við 40 árum verða stærri en efnahagur Bandaríkjanna, Þýskalands, Japan, Bretlands, Ítalíu og Frakklands - til samans.

Hver verður staða Íslands?

Stóra spurningin er þessi: Hvar verður Ísland í þeirri heimsmynd  og hvernig náum við að tryggja og bæta enn frekar þau lífskjör sem við búum við í dag? Hvernig verjum við árangur liðinna ára? Náum við að nýta þau tækifæri sem þessi þróun hefur í för með sér? Sem fyrr segir var hugur í framhaldsskólanemum á fundunum með SA og viðhorfið almennt á þá leið að við ættum að stefna ennþá hærra í hvers kyns samanburði við umheiminn - fyrsta sætið var algengt svar framhaldsskólanemanna.