Efnahagsmál - 

06. Oktober 2011

Veikleikar í fjárlagafrumvarpinu 2012

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Veikleikar í fjárlagafrumvarpinu 2012

Ríkisstjórnin hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til fjárlaga 2012. Heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári eru áætlaðar 521,5 ma.kr., þar af skatttekjur 466,8 ma.kr. Heildargjöld eru áætluð 539,2 ma.kr., þar af eru vaxtagjöld ríkissjóðs 78,4 ma.kr.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til fjárlaga 2012. Heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári eru áætlaðar 521,5 ma.kr., þar af skatttekjur 466,8 ma.kr. Heildargjöld eru áætluð 539,2 ma.kr., þar af eru vaxtagjöld ríkissjóðs 78,4 ma.kr.

Halli á ríkissjóði er því áætlaður 17,7 ma.kr., eða 1,0% af vergri landsframleiðslu (VLF). Frumjöfnuður (þ.e. án tillits til vaxtagjalda og vaxtatekna) er áætlaður verða jákvæður um 39,6 ma.kr., eða 2,2% af VLF. Markmiði um afgang á heildarjöfnuði er seinkað um eitt ár, til ársins 2014, auk þess sem hann verður minni en stefnt var að áður eða sem nemur 0,9% af VLF.

Forsendur tekjuáætlunar 2012 byggja á niðurstöðum ríkisreiknings 2010, þjóðhagsspá Hagstofunnar frá 8. júlí 2011 og upplýsingum um álagningu og innheimtu skatta og annarra tekna á fyrstu 8 mánuðum ársins 2011. Áætlað er að hagvöxtur á næsta ári verði 3,1%, einkaneysla aukist um 3,3% og fjárfesting um 14,5%. Fjárfesting atvinnuveganna er talin aukast um 18% á næsta ári, einkum vegna byggingar kísilverksmiðju í Helguvík og verulegrar aukningar almennra fjárfestinga atvinnuveganna.

Eftirfarandi augljósa veikleika er að finna í fjárlagafrumvarpinu:

1. Hagvöxtur

Gengið er út frá 3,1% hagvexti en horfur eru nú mun verri. Í ágúst sl. spáði Seðlabankinn 1,6% hagvexti og síðan hafa skipast veður í lofti í viðskiptalöndunum og hagvaxtarhorfur versnað enn. Gangi spá Seðlabankans eftir leiðir það beint til um 8 ma.kr. minni tekna ríkissjóðs en munurinn gæti orðið enn meiri þegar spá Hagstofunnar verður endurskoðuð í næsta mánuði vegna hríðversnandi horfa í heimsbúskapnum.

2. Skattar
Það vekur undrun að tveimur atvinnugreinum, þ.e. sjávarútvegi og fjármálafyrirtækjum, er ætlað að standa undir stærstum hluta aukinnar skattheimtu. Aðrir skattar fyrirtækja í þessum atvinnugreinum, s.s. af hagnaði og veltu hljóta að minnka af völdum þessara nýju álaga. Einnig munu fyrirtæki í þessum greinum mæta áhrifum aukinnar skattheimtu, s.s. með útvistun, minnkun umsvifa og uppsögnum. Því er hætt við að viðbótartekjur ríkissjóðs vegna þessara skattahækkana verði minni en áform í fjárlagafrumvarpi segja til um.

3. Bætur

Í yfirlýsingu stjórnvalda við gerð kjarasamninga sl. vor segir m.a.: "Stjórnvöld munu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum". Bætur almannatrygginga á þessu ári voru hækkaðar eins og kauptaxtar kjarasamninga en skv. frumvarpinu verður það ekki gert á næsta ári. Forseti ASÍ telur augljóst að samkvæmt samkomulagi við stjórnvöld eigi bætur almannatrygginga að hækka í samræmi við hækkun lægstu launa, eða um 11.000 kr., þann 1. febrúar 2012 en ekki um 3,5% líkt og er í forsendum fjárlagafrumvarps. Verði sú leið farin vantar 3 ma.kr. á gjaldahlið fjárlaga.

4. Heilbrigðiskerfi

Útgjöld velferðarráðuneytis lækka um 600 m.kr. vegna frestunar um eitt ár á hluta aðhaldsaðgerða í fjárlagafrumvarpi 2011 hjá heilbrigðisstofnunum. Allsendis er óvíst hvort betur takist til um þann sparnað á árinu 2012.

5. Meiri halli
Af framansögðu má ætla að veikleikar frumvarpsins skv. framangreindu séu að lágmarki á bilinu 12-15 ma.kr.

Þessu til viðbótar er sá veikleiki í fjárlagafrumvarpi 2011 að engum fjármunum eða aðgerðum er ætlað að draga úr eða sporna gegn áframhaldandi skuldasöfnun lífeyrissjóða ríkisstarfsmanna. Í árslok 2010 var ógjaldfærð hlutdeild ríkissjóðs í lífeyrisskuldbindingum ríkisstarfsmanna nær 400 ma.kr.

Samtök atvinnulífsins