Veikleikar í fjárlagafrumvarpinu 2011

Ríkisstjórnin hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til fjárlaga 2011. Heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári eru áætlaðar 477,4 ma.kr., þar af skatttekjur 445,5 m.kr. Heildargjöld eru áætluð 513,8 ma.kr., þar af eru vaxtagjöld ríkissjóðs 75,1 ma.kr.

Halli á ríkissjóði er því áætlaður 36,4 ma.kr., eða 2,1% af VLF. Frumjöfnuður er áætlaður jákvæður um 17,1 ma.kr., eða 1% af VLF. Fjármagnsjöfnuður er neikvæður um 53,5 ma.kr., eða 3,1% af VLF.

Gert er ráð fyrir að jöfnuður náist í ríkisfjármálum árið 2012 og að afgangur verði á ríkissjóði 2013 sem nemur 2,5% af VLF. Það ár er gert ráð fyrir að frumjöfnuður verði kominn í 5,4% af VLF og að það hlutfall haldist næstu árin þar á eftir.

Nokkra augljósa veikleika er að finna í fjárlagafrumvarpinu eins og fram kemur í eftirfarandi upptalningu:

1. Spáð er 3,2% hagvexti árið 2011 líkt og gert er ráð fyrir í þjóðhagsspá Hagstofunnar frá í júní sl. Í ágúst spáði Seðlabankinn um 2,4% hagvexti. Frá þeim tíma hefur orðið ennfrekari seinkun á fjárfrekum framkvæmdum. Samdráttur í opinberum framkvæmdum dregur enn úr hagvexti. Því eru líkur á óverulegum hagvexti næsta ári. Gangi það eftir leiðir það beint til 10-15 ma.kr. minni tekna ríkissjóðs.

2. Það vekur undrun að skatti á fjármagnstekjur og tekjuskatti fyrirtækja er ætlað að skila 7 ma.kr. eða 17% hærri fjárhæð á næsta ári þrátt fyrir lækkandi verðbólgu og mikið uppsafnað tap fyrirtækja.

3. Í frumvarpinu er talið til sparnaðar að engar hækkanir verði á launum og bótum almannatrygginga. Sú forsenda er ekki raunhæf. Miðað við 2,5% almenna hækkun launa og bóta munu útgjöld ríkissjóðs hækka um 4,5-5 ma.kr., brúttó , eða um 3 ma.kr. nettó.

4. Fyrirhugaður sparnaður í rekstri skólakerfisins og heilbrigðiskerfisins er lítt eða ekkert útfærður og hefur m.a. komið stjórnendum heilbrigðisstofnana úti á landi í opna skjöldu. Sparnaður í skólakerfinu næst ekki fyrr en við upphaf næsta skólaárs sem hefst 1. ágúst nk. Lauslega má áætla að veikleiki í sparnaði stofnana þessara ráðuneyta sé á bilinu 2,5-3 ma.kr.

5. Af öðrum stórum útgjaldaliðum sem erfitt hefur reynst að lækka sem einhverju nemur má nefna vaxtabætur, barnabætur og framlag til fæðingarorlofs. Samtals er gert ráð fyrir um 4 ma.kr. sparnaði á þessum liðum sem óvíst er að náist.

6. Veikleikar frumvarpsins skv. framangreindu eru því a.m.k. á bilinu 20 - 30 ma.kr. sem færa frumjöfnuð niður fyrir núllið og gera markmið áætlunar ríkisstjórnar og AGS að engu.

Þessu til viðbótar er sá veikleiki í fjárlagafrumvarpi 2011 að engir fjármunir eru ætlaðir til að draga úr eða sporna við áframhaldandi hallarekstri lífeyrissjóða opinberra starfsmanna. Í árslok 2009 var hlutdeild ríkissjóðs í heildarskuldbindingum B-deildar LSR og LH metin á 361 ma.kr. og samkvæmt niðurstöðu tryggingafræðilegrar úttektar á stöðu A-deildar LSR var heildarstaða deildarinnar neikvæð um 13,2% í árslok 2009. Þessar skuldbindingar ríkissjóðs eru ávísun á skattahækkanir í framtíðinni.

Loks er vakin athygli á því að ekki er gert ráð fyrir neinni aukningu ríkisútgjalda fram til ársins 2014. Eigi það að standast þarf að auka afköst ríkisrekstursins með endurskipulagn­ingu, þ.m.t. mennta-, heilbrigðis-, félagsmála- og dómskerfið. Af frumvarpinu má ráða að lítið sé farið af stað í þeirri vinnu.

Í nýlegu riti Samtaka atvinnulífsins Nauðsynlegar umbætur í fjármálum hins opinbera eru hins vegar lagðar fram greinagóðar tillögur til lausnar sem eiga að geta nýst stjórnvöldum.