Veik fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin reynir að afla sér bandamanna í kvótamálinu með loforðum um að nýta arðinn af veiðigjöldum í ýmsar fjárfestingar. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við fréttastofu RÚV. Ríkisstjórnin hefur kynnt  fjárfestingaáætlun fyrir árin 2013 til 2015 sem gerir ráð fyrir að tekjur af fyrirhuguðu veiðigjaldi ásamt arði og eignasölu ríkissins í bönkunum fari í ýmsar fjárfestingar á þessum tíma.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segist ekki mótfallinn því að stjórnvöld fjárfesti fyrir arð og söluandvirði bankanna - það sé jákvætt og mörg af þeim verkefnum sem nefnd eru til sögunnar í áætluninni séu í sjálfu sér góðra gjalda verð. Hann gerir hinsvegar alvarlegar athugasemdir við að þegar sé farið að ráðstafa fjármunum sem komi eigi í ríkiskassann í gegn um ný kvótafrumvörp. "Mér finnst það raunar alveg forkastanleg vinnubrögð hjá ríkisstjórninni að vera að tefla saman - eða egna saman atvinnugreinum og byggðalögum með þeim hætti sem að hún gerir, að reyna að afla sér einhverra bandamanna í herferð á móti sjávarútveginum."

Í samtali við fréttavef Morgunblaðsins segist Vilhjálmur telja að ríkið eigi góða möguleika á að sækja 40 milljarða í eignarhluti sína í bönkunum ef það á annað borð vill selja. "Þá er ég ekki aðeins að tala um eignarhlutina í Arion banka og Íslandsbanka.

Ég er líka að tala um Landsbankann. Ef það er á annað borð vilji fyrir því að selja þá eignarhluti þá tel ég að það sé raunhæft. Ég vek athygli á því að Landsbankinn hefur verið að undirbúa skráningu á hlutabréfamarkað. Það hefur verið stefna bankans. Í fyrra töluðu forsvarsmenn bankans um að þeir gætu verið tilbúnir í skráningu í haust. Ég myndi telja að það væri sterkasti hlutinn af þessari fjármögnunaráætlun.

Mér finnst hugmyndirnar um ráðstöfun veiðigjaldsins hins vegar veikar. Ég tel að það sé afar slæm stefna að stilla atvinnugreinunum svona upp hverri gegn annarri, að láta einhverjar atvinnugreinar eða byggðarlög fara að hagnast á því að skattleggja eina atvinnugrein sérstaklega."

Sjá nánar:

Frétt RÚV  19. maí 2012 - smelltu til að horfa

Frétt RÚV 19. maí 2012 - smelltu til að hlusta

Frétt mbl.is - raunhæft að selja hluti ríkisins í bönkunum

Fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar