Veiðigjöld hærri en hagnaður fyrirtækja

Dæmi eru um að veiðileyfagjöld sem lögð hafa verið á sjávarútvegsfyrirtæki séu hærri eða jafnhá hagnaði fyrirtækjanna. Í öðrum tilvikum eru gjöldin það há að nánast allur hagnaður þeirra er gerður upptækur af ríkissjóði. Þessi skattlagning grefur undan byggðum landsins og kemur sérstaklega illa niður á smærri fyrirtækjum í greininni. Útlit er fyrir að á næsta ári hækki gjöldin enn frekar.

Georg Gísli Andersen, framkvæmdastjóri Valafells


Þetta kom m.a. fram á aðalfundi SA 2013. Þar tók Georg Gísli Andersen, framkvæmdastjóri Valafells í Ólafsvík dæmi af þremur litlum og meðalstórum sjávarútvegsfyrirtækjum:

  • Það fyrsta var með 27 milljónir í hagnað. Því var gert að greiða jafn háa upphæð í veiðigjöld 2013.

  • Annað var með 33 milljónir í hagnað en var gert að greiða 30 milljónir í veiðigjöld, eða sem nemur 90% af hagnaði.

  • Það þriðja var með hagnað upp á 140 milljónir en var gert að greiða 160 milljónir í veiðigjald, 20 milljónir umfram hagnað. Upphaflegur reikningur frá ríkinu nam 200 milljónum króna en hann var síðar lækkaður.

Hjá Valafelli starfa um 30 manns en á Snæfellsnesi eru um 50 lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki. Georg sagði þau mörg berjast fyrir tilveru sinni þessa dagana og benti ennfremur á að þegar lögin um veiðigjöld yrðu komin að fullu til framkvæmda myndi gjaldið hækka verulega, jafnvel um helming. Til marks um óvissuna sem væri til staðar gæti enginn reiknað hækkunina út enn sem komið er. Hann segir afleiðingar svo mikillar gjaldtöku og óvissu leiða til uppsagna og minni fjárfestinga. Ekkert standi eftir til að mæta viðhaldi, vöru- og markaðsþróun eða óvæntum áföllum.

"Hvernig í ósköpunum á að vera drifkraftur til framfara ef tengsl milli áhættu og hagnaðar eru ekki til staðar."

Georg sagðist trúa því að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og stjórnvöld geti snúið bökum saman um leiðir til að tryggja samkeppnisforskot íslensks sjávarútvegs á heimsvísu á sama tíma og greinin greiði til þjóðarbúsins. Að sama skapi verði sjávarútvegurinn að vera tilbúinn til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar skynsamlega og sýna samfélagsábyrgð. Sátt sé um að greinin greiði veiðigjald, en ekki að gjaldið verði margfaldað. Gjald sem geri venjuleg fyrirtæki, sum hver áratuga gömul fjölskyldufyrirtæki, gjaldþrota. Stjórnmálamenn, hvar sem í flokki þeir standa, verði að koma sér saman um framtíðarstefnu í samvinnu við greinina til að hún geti haldið áfram að blómstra og verið grunnstoð í efnahagslífi þjóðarinnar.

Verður að endurskoða veiðileyfagjöld
Í febrúar efndu Samtök atvinnulífsins til opinnar fundaraðar um Ísland þar sem Vilmundur Jósefsson, þáverandi formaður SA, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA hittu hundruð manna á fjölda funda, forystufólk í atvinnulífinu og verkalýðshreyfingu, launafólk og sveitarstjórnarmenn. Á fundunum kom fram skýr mynd af neikvæðum áhrifum veiðileyfagjaldanna eins og þau eru hugsuð nú á fyrirtækin og byggðir landsins. Vilmundur ræddi um málið í kveðjuræðu sinni á aðalfundi SA.

Vilmundur Jósefsson á aðalfundi SA 2013

"Veiðigjald, sem sjávarútvegsfyrirtækin um allt land eru nú farin að greiða, mun soga aflið úr fyrirtækjunum og sjávarbyggðunum á undraskömmum tíma. Breytingar, sem gjaldið hefur í för með sér, eru einungis að litlu leyti komnar fram. Gjaldið mun, ásamt fyrirhuguðum breytingum á fiskveiðistjórnuninni, leiða til þess að skammtímahugsun verður ríkjandi, ríkisafskipti aukast og geðþóttaúthlutanir stjórnmálamanna munu aukast. Lagt er af það kerfi sem hefur verið grundvöllur hagræðingar og arðsemi greinarinnar í tvo áratugi.

Sem dæmi má nefna að fyrirtækin í Grundarfirði greiða nú veiðigjald sem slagar hátt upp í útsvarstekjur sveitarfélagsins. Í Skagafirði mun eitt fyrirtæki greiða á næsta ári gjald sem jafnast á við allar tekjur sveitarfélagsins af útsvari íbúanna. Á móti þessu hyggst ríkisvaldið leggja minni háttar fé til svokallaðrar sóknaráætlunar. Á sama tíma fækkar störfum við heilbrigðisþjónustu, löggæslu, menntastofnanir og eftirlit og þau eru ýmist lögð af eða flutt til höfuðborgarinnar.

Veiðigjaldið verður að endurskoða - það verður að lækka og skattstofninn verður að laga. Fyrirtækin, fólkið sem þar starfar og byggðarlögin verða að fá að njóta þeirra verðmæta sem þar eru sköpuð."

Hægt er að horfa á upptöku af erindum Georgs og Vilmundar frá opinni dagskrá aðalfundar SA 2013 hér að neðan.

SMELLTU HÉR TIL AÐ HORFA Á GEORG

SMELLTU HÉR TIL AÐ HORFA Á VILMUND