Varaformaður SA: Bætum hag þjóðarinnar með því að kveða niður atvinnuleysið og skapa ný störf

 "Við gætum bætt þjóðarhag um 46 milljarða króna á ári með því að útrýma atvinnuleysinu og þá er ekki verið að tala um hin almennu jákvæðu samfélagslegu áhrif sem slíkur árangur mundi hafa í för með sér. Lausnin á efnahagsvanda Íslendinga blasir þannig við." Þetta sagði Grímur Sæmundsen, varaformaður Samtaka atvinnulífsins, m.a. á fundi SA um atvinnumál sem fram fór fyrr í dag.

Í dag eru rúmlega 11 þúsund manns án vinnu en með því að koma þeim til starfa er hægt að bæta hag ríkis og sveitarfélaga um 26 milljarða króna á ári. Atvinnuleysi 11 þúsund manna og kvenna kostar einnig launagreiðendur um 20 milljarða króna á ári en atvinnulífið fjármagnar atvinnuleysistryggingarsjóð. "Þessir fjármunir gætu nýst til nýsköpunar, vöruþróunar og fjárfestinga í fyrirtækjunum og til að bæta stöðu okkar á samkeppnismarkaði."

Grímur gagnrýndi stjórnvöld fyrir máttleysi í baráttunni gegn atvinnuleysi og úrræðaleysi í atvinnumálum auk þess að hindra nauðsynlega fjárfestingu í atvinnulífinu. Fjölda kosta hafi verið hafnað en ekkert komi í stað þess sem hafnað er.

Grímur Sæmundsen

"Það kann að virðast að hver ákvörðun fyrir sig skipti ekki máli -  að slá á frest framkvæmdum, elta lagakróka vegna umhverfismála, fresta leyfisveitingu, seinka skipulagi eða draga á langinn svör. Allt eru þetta samt ákvarðanir um að halda í atvinnuleysið, seinka efnahagsbata, viðhalda bágum kjörum, draga úr velferð og smám saman breyta þjóðfélagsgerðinni."

Grímur hvatti til þess að ný atvinnusókn verði hafin og atvinnuleysinu verði útrýmt, í því felist tækifærin. "Ég starfa í atvinnugrein, ferðaþjónustunni,  þar sem Íslendingar eru að nýta tækifærin. Það er m.a. vegna þess, að þar hafa stjórnvöld  ekki staðið í vegi okkar, eins og reyndin hefur verið í sjávarútvegi, orkuvinnslu, ýmsum iðnaði og fleiri greinum. Við höfum að mestu fengið frið og við höfum nýtt hann til góðra verka."

Varaformaður SA sagði Íslendingar eiga þess kosta að ná vopnum sínum að nýju en þjóðin megi ekki láta þröngsýni og einangrunarhyggju stjórnvalda eyðileggja það, með því að standa gegn hagvexti og uppbyggingu heilla atvinnugreina. Atvinnulífið sé uppspretta þeirrar verðmætasköpunar, sem samfélag okkar hvíli á. Stjórnvöld verði að vinna með atvinnulífinu í stað þess að vera sífellt á móti og þvælast fyrir - aðeins þannig verði hindrunum rutt úr vegi.

Erindi Gríms má lesa í heild hér að neðan:

"Frá hruni hefur atvinnulífið greitt milli 70 og 80 milljarða króna í atvinnuleysisbætur í gegnum atvinnuleysistryggingasjóð.

Þriðja hvert heimili í landinu hefur orðið beint fyrir barðinu á atvinnuleysinu.

Í ágúst s.l. voru 11.294  einstaklingar skráðir atvinnulausir hjá vinnumálastofnun eða 6,7% mannafla á vinnumarkaði.

Árlega  koma eitt þúsund og átta hundruð einstaklingar út á vinnumarkaðinn á meðan störfum á Íslandi hefur fækkað um 12 þúsund frá árinu 2008.

Það fluttust 5900 fleiri frá landinu en til þess á árunum 2008 til 2010. Þar af eru íslenskir ríkisborgarar um 3600 - flestir á besta vinnualdri.

Í  tilviki Íslendinganna erum við sérstaklega  að tala um lækna, hjúkrunarfræðinga, verkfræðinga og iðnaðarmenn t.d. rafvirkja og smiði. Þetta er vel menntað og þjálfað fólk.

Það er þegar farið að tala um í fullri alvöru að það muni vanta heila kynslóð lækna til starfa í heilbrigðisþjónustu á Íslandi á næstu árum. Engir ungir læknar eru nú að flytjast heim frá sérnámi erlendis.

Það eru því miklu færri hendur nú, en fyrir örfáum árum, sem munu til framtíðar standa undir öllum sköttunum - bæði gömlum og nýjum.

Þótt talnaþulur þyki leiðinlegar þá lýsir þetta ógnvænlegri þróun.

Ungt fólk fær ekki vinnu, fólk á besta aldri flytur úr landi og störfum fækkar.

Við leggjum mikið fé til framfærslu fólks sem vill vinna, getur unnið og bíður eftir tækifærum til að takast á við ný og spennandi störf.

Atvinnuleysið er mikið böl þeim, sem við það búa, og sár reynsla nágrannaríkja, þar sem atvinnuleysi hefur fest rætur, ætti að verða til þess, að við gerum allt sem í okkar valdi stendur, til að komast hjá því að feta þá slóð.

Stjórnvöld sem bera hag almennings fyrir brjósti hljóta að leggja megináherslu á að uppræta atvinnuleysi.

Það hefur verið hornsteinn íslensks samfélags undanfarna áratugi að allir hafi vinnu.

Skjótasta og besta leiðin til þess, er að styðja atvinnulífið,  með því að skapa skilyrði til að auka fjárfestingar og efla hagvöxt -  bæta þannig hag fólks, fyrirtækja og um leið hag hins opinbera.

Það munar um hvern einstakling sem fer af atvinnuleysisskrá út á vinnumarkaðinn.

Af bótunum greiðir hann skatta og útsvar en greiðslur til hins opinbera frá þeim sama einstaklingi,sé hann að vinna fyrir meðallaunum á vinnumarkaði eru um tveimur komma þremur milljónum króna hærri á ári.

Með því að koma fyrrgreindum ellefu þúsund einstaklingum til starfa getum við bætt hag ríkis og sveitarfélaga um 26 milljarða króna á ári.

Þess utan þarf heldur ekki að greiða viðkomandi einstaklingi atvinnuleysisbætur lengur. Þær eru nú um eitt hundrað sextíu og tvö þúsund krónur á mánuði.

Atvinnuleysi 11000 manna og kvenna kostar því okkur launagreiðendur rúmlega 20 milljarða króna á ári.

Þessir fjármunir gætu nýst til nýsköpunar, vöruþróunar og fjárfestinga í fyrirtækjunum og til að bæta stöðu okkar á samkeppnismarkaði.

Við gætum bætt þjóðarhag um 46 milljarða króna á ári með því að útrýma atvinnuleysinu og þá er ekki verið að tala um hin almennu jákvæðu  samfélagslegu áhrif sem slíkur árangur mundi hafa í för með sér.

Lausnin á efnahagsvanda Íslendinga blasir þannig við.

Það er því þyngra en tárum taki hve erfitt það er stjórnvöldum að fara þessa leið.

Þess í stað er reynt að fá fólk til að sætta sig við atvinnuleysið, það sé nú  ekki eins vont og spáð var, það sé atvinnuleysi í öðrum löndum, ríkissjóður gæti staðið verr, sveitarfélögin muni einhvern tímann rétta úr kútnum

-  það sé allt að snúast til betri vegar. Alla vega bráðum - ef ekki strax.

Það er jafnvel  látið í það skína að það sé allt í lagi að vera atvinnulaus og stjórnvöld reyna að gera þetta allt léttbærara - nú geta menn tekið sumarleyfi á atvinnuleysisbótum!

Áður var það svo að enginn vildi vera atvinnulaus. Nú vex því viðhorfi fylgi að það sé bara ekkert að því og samhliða blómstrar svarta markaðs hagkerfið - allt vegna rangra efnistaka stjórnvalda.

Góðir fundarmenn.

Við viljum ekki einkafjárfestingu til mikilvægra, arðsamra og nauðsynlegra samgöngubóta - Nei, við viljum eitthvað annað.

Við höldum sjávarútvegi og orkuvinnslu í uppnámi - Við viljum eitthvað annað.

Það er ekki unnt að greiða götu þeirra, sem mestan áhuga sýna á að fjárfesta hér og byggja upp stór og öflug fyrirtæki. Nei - við viljum eitthvað annað.

Niðurstaðan er augljós:

Fjárfestarnir fara - eitthvað annað.

Tölurnar í upphafi máls míns segja líka:

Fólkið er að fara - eitthvað annað.

Og verst af öllu:  það kemur ekkert annað í stað þess sem hafnað er.

Það kann að virðast að hver ákvörðun fyrir sig skipti ekki máli -  að slá á frest framkvæmdum, elta lagakróka vegna umhverfismála, fresta leyfisveitingu, seinka skipulagi eða draga á langinn svör.

Allt eru þetta samt ákvarðanir um að halda í atvinnuleysið, seinka efnahagsbata, viðhalda bágum kjörum, draga úr velferð og smám saman breyta þjóðfélagsgerðinni.

Enda er stöðugt verið að lækka spár um hagvöxt hér á landi, atvinnuleysi á að vera mikið áfram með tilheyrandi kostnaði fyrir atvinnulífið, og enn um hríð verður ríkissjóður rekinn með halla.

Sá tími sem það tekur Íslendinga að vinna sig út úr kreppunni lengist stöðugt.

Ágætu fundarmenn.

Ég starfa í atvinnugrein, ferðaþjónustunni,  þar sem Íslendingar eru að nýta tækifærin.

Það er m.a. vegna þess, að þar hafa stjórnvöld  ekki staðið í vegi okkar, eins og reyndin hefur verið í sjávarútvegi, orkuvinnslu, ýmsum iðnaði og fleiri greinum.

Við höfum að mestu fengið frið og við höfum nýtt hann til góðra verka.

Við Íslendingar eigum þess kost að ná vopnum okkar að nýju og getum ekki og megum ekki láta þröngsýni og einangrunarhyggju stjórnvalda eyðileggja það, með því að standa gegn hagvexti og uppbyggingu heilla atvinnugreina.

Atvinnulífið er uppspretta þeirrar verðmætasköpunar, sem samfélag okkar hvílir á.

Stjórnvöld verða að vinna með atvinnnulífinu í stað þess að vera sífellt á móti og þvælast fyrir.

Einungis þannig ryðjum við hindrunum úr vegi.

Hefjum nýja atvinnusókn og útrýmum  atvinnuleysinu - í því felast tækifærin."

Tengt efni:

Frétt Stöðvar 2

Frétt RÚV - Útvarps

Grímur Sæmundsen varaformaður SA og Margrét Kristmannsdóttir formaður SVÞ ræddu stöðuna í atvinnumálunum á Bylgjunni.