Útstreymi gróðurhúsalofttegunda hjá Alcan minnkað um 70%

Frá árinu 1990 hefur tekist að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá álveri Alcan á Íslandi um 70% fyrir hvert framleitt tonn áls. Má þennan góða árangur rekja til öflugrar umhverfisstjórnunar Alcan sem fyrirtækið leggur ríka áherslu á. Einkum hefur tekist að draga úr ústreymi á flúorkolefnum og er losun þeirra í dag langt innan við leyfileg mörk stjórnvalda. Þetta kom fram á fundi hjá Samtökum atvinnulífsins um útstreymi frá álverum á Íslandi.

Jákvæð þróun

Það var Guðrún Þóra Magnúsdóttir, leiðtogi umhverfismála hjá Alcan, sem lýsti í máli og myndum þróun mála hjá fyrirtækinu undanfarin ár. Hvernig umhverfisstjórnun hefur til dæmis verið beitt til að lágmarka áhrif á umhverfið og hámarka um leið rekstrarlegan árangur. Í meðfylgjandi mynd má sjá hvernig Alcan á Íslandi hefur tekist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í álverinu í Straumsvík.

Losun gróðurhúsalofttegunda hjá Alcan á Íslandi

Losun gróðurhúsalofttegunda

Smellið til að sjá stærri mynd

Eins og sést hér að ofan hefur náðst verulegur árangur í takmörkun á útstreymi flúorkolefna hjá Alcan á Íslandi, en það er sérstaklega mikilvægt þar sem um sterkar gróðurhúsalofttegundir er að ræða. Árið 2002 settu íslensk stjórnvöld það skilyrði að útsreymi flúorkolefna yrði ekki meira en 140 kg á hvert framleitt tonn af áli á Íslandi. Það markmið þótti metnaðarfullt en Alcan á Íslandi hefur þegar tekist að ná þessu markmiði og gott betur. Losun fyrirtækisins er í dag langt undir markmiðum stjórnvalda en algengt er að útstreymi vegna framleiðslunnar sé um 47 kg á tonn og hefur það farið allt niður í 24 kg á tonn sem þykir framúrskarandi árangur. Til að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda hjá fyrirtækinu er reynt að lágmarka notkun jarðefnaeldsneytis og eru rafmagnsbílar notaðir hjá fyrirtækinu þar sem þess er kostur.

Hvað er framundan?

Fjörlegar umræður spunnust á fundinum og var m.a. rætt um hvernig tækniframfarir gætu mögulega lágmarkað enn frekar áhrif álframleiðslu á umhverfið og skilað jafnframt álfyrirtækjum og því umhverfi sem þau starfa í meiri ávinningi. Fundurinn var hluti af fundaröð Samtaka atvinnulífsins um atvinnulíf og umhverfi.

Atvinnulíf og umvherfi - 2. fundur

Næsti fundur í fundaröðinni fer fram á Grand hótel Reykjavík, þriðjudaginn 5. desember nk. Þar verður rætt um viðhorf atvinnulífsins til loftslagsmála, bæði út frá alþjóðlegum sjónarmiðum og út frá sjónarmiðum íslensks atvinnulífs.

Kynning Guðrúnar Þóru Magnúsdóttur, Alcan (PPT-skjal).