Útflutningur, hagvöxtur og fjárfestingar

Í ræðu sinni á Útflutningsþingi sem haldið var á Hótel Nordica í morgun fjallaði Grímur Sæmundsen, varaformaður SA, um þau skilyrði sem nauðsynlegt er að uppfylla til að auka útflutning og sagði m.a. nauðsynlegt að lækka vexti, afnema gjaldeyrishöft, efla alþjóðleg tengsl bankakerfisins þannig að "sköpuð verði skilyrði til að efla fjárfestingar, hvort sem er í ferðaþjónustu, orkufrekum iðnaði, sjávarútvegi eða öðrum greinum - í smáum sem stórum fyrirtækjum". "Þær fjárfestingar verða að vera á breiðu sviði með langtímasýn að leiðarljósi. Þetta felur í sér að byggja verður upp atvinnustarfsemi í útflutningsgreinum, sem geta verið samkeppnishæfar þrátt fyrir, að raungengi muni hækka og launakostnaður aukast".

Grímur sagði nauðsynlegt að setja markmið um að auka hér útflutning um 7 - 8% á ári. "Til þess að það verði unnt verður ríkisvaldið að taka höndum saman við atvinnulífið, verkalýðshreyfinguna og sveitarfélög um nauðsynlegar aðgerðir og endurreisnaráætlun sem komið getur atvinnulífinu á rétt spor. Innihaldslausar yfirlýsingar eins og gefnar voru við gerð stöðugleikasáttmálans sáluga síðastliðið sumar duga ekki".

  Að lokum sagði hann: "Með öflugu og samstilltu átaki fyrirtækjanna, stjórnvalda og annara er unnt að lyfta grettistaki. Til þess verða þó skilyrði til atvinnurekstrar að vera eins og best verður á kosið. Háir vextir, gjaldeyrishöft, Icesave deilur við nágrannaríkin, pólitísk óvissa, óstöðugt skattaumhverfi og ótti stjórnvalda við erlendar fjárfestingar eru þó ekki gott veganesti til að styrkja útflutning, auka fjárfestingar og efla þar með hagvöxt. Það er lykilatriði að stjórnvöld hafi þessi einföldu grunnatriði árangursríkrar hagstjórnar í algerum forgangi. Beri þau gæfu til þess mun okkur takast að vinna bug á efnahagsörðugleikunum á skemmri tíma en okkur órar nú fyrir".

Ræðu Gríms má lesa í heild hér