Útflutningur á orku frá Íslandi meiri en innflutningur

Þorkell Helgason, orkumálastjóri, flutti inngangserindi á Orkuþingi sem fram fór í Reykjavík. Þar fjallaði hann um orkumál í víðu samhengi en auk þess að fjalla um olíuverð, þróun þess og áhrif verðhækkana, þá ræddi hann um hlut orku í þjóðarbúskap Íslendinga. Hann benti á að óbeinn útflutningur á orku, í formi áls og kísiljárns, er þegar verulegur og sagði jafnframt ljóst að innan tíðar myndu Íslendingar flytja út meira af orku í formi áls en flutt er inn til landsins í formi eldsneytis.

Nýting orkulinda eðlileg

Í erindi sínu benti Þorkell á að eðlilegt væri að nýta orkulindir þjóðarinnar sem mest, innan þess ramma sem náttúran og umhverfið leyfir. Hann benti á að samsetning orkugjafa Íslendinga væri með allt öðrum hætti en umheimsins almennt. Hjá Íslendingum standi t.d. innlendir vistvænir orkugjafar (jarðhiti og vatnsorka) undir ríflega 70% þarfanna. Það hlutfall fari hækkandi en í hinum stóra heimi sé þessu þveröfugt farið. Í heiminum sem heild sé jarðefnaeldsneyti ráðandi (olía, gas og kol) sem nemi um 80% af frumorkugjöfunum. Útlit sé jafnframt fyrir að heimseftirspurn eftir orku í heild sinni muni aukast um nær 50% fram til ársins 2030 nema gripið verði til sérstaks átaks í orkusparnaði.

Til að benda á mikilvægi orku fyrir þjóðarbúskapinn áætlaði Þorkell að smásöluverðmæti orku á íslenskum markaði hafi numið nær 70 milljörðum króna árið 2003, um 8% af vergri þjóðarframleiðslu. Þorkell sagði hlutfallið trúlega með því hæsta sem gerðist hjá vestrænum þjóðum. Óhætt væri síðan að bæta um 10 milljörðum króna við orkureikning Íslendinga vegna hlutdeildar orku í aðföngum innfluttrar vöru og þjónustu.

Nýting á hagrænum grunni

Orkumálastjóri ræddi einnig um möguleikann á framleiðslu á tilbúnu eldsneyti á Íslandi og benti á að leiðir til að nýta innlendar orkulindir yrðu að byggjast á traustum hagrænum grunni til lengdar litið "en ekki aðeins réttlættar með því einu að hollur sé heimafenginn baggi".  

Á vef Samorku er hægt að nálgast þá fjölmörgu fyrirlestra sem fluttir voru á Orkuþingi, en þá er að finna í Orkuþingsbókinni.

Orkuþing fór fram í Reykjavík 12.-13. október.