Útflutningur á hátæknivörum og þjónustu 37 milljarðar 2009

Verðmæti útflutnings á hátæknivörum og þjónustu á síðasta ári nam 37 milljörðum íslenskra króna. Það jafngilti 5,5% af  heildarútflutningstekjum þjóðarinnar. Þetta kom fram í ræðu sem Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri Stika og formaður Samtaka sprotafyrirtækja, flutti á aðalfundi SA á síðasta degi vetrar. Svana segir að á síðustu 10 árum hafi þessi verðmæti nærri fimmfaldast og frekari sóknarfæri séu til staðar innan hátækni- og sprotagreina á Íslandi. Tími sé kominn til að virkja mannauð betur á Íslandi en verið hefur til verðmætasköpunar.

Svana setti fram í ræðu sinni ítarlega greiningu á því hvað þurfi til að sprotafyrirtæki geti vaxið. Ræðu hennar má lesa í heild hér að neðan:

Ísland af stað - Ræða flutt á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 21. apríl 2010

Atvinnulíf á Íslandi hefur lengst af byggt á nýtingu náttúruauðlinda og umgjörð atvinnu- og efnahagslífsins tekur ennþá mið af því. Fyrst og lengst af var það sauðfjárræktin, þar á eftir sjávarútvegurinn og nú síðast eru það orkuauðlindirnar sem velsæld þjóðarinnar hefur byggst á. Allt eru þetta atvinnugreinar sem háðar eru náttúrulegum sveiflum og sökum einhæfni atvinnulífsins hefur allt efnahagslíf þjóðarinnar sveiflast með.

Á árunum 2002 til 2008, meðan á meintu góðæri stóð, ríkti kreppa og nauð í hátæknigeiranum hér á landi. Kreppa sem stoppaði vöxt þessarar greinar í mörg ár og orsakaðist fyrst og fremst af því að bankar og fjármálastofnanir soguðu til sín tæknimenntað vinnuafl og hrifsuðu til sín starfsfólk sprotafyrirtækjanna með alls kyns gylliboðum.

Hrun íslenska fjármálamarkaðarins og íslensku krónunnar í árslok 2008 hafði í för með sér auknar útflutningstekjur þeirra fyrirtækja sem útflutning stunda og sprotafyrirtæki urðu á ný samkeppnishæf á vinnumarkaði. Svo virtist sem tími íslenskra sprotafyrirtækja væri runninn upp, en er víst að svo sé?

Hvað þarf til að íslensk sprotafyrirtæki geti vaxið?

Ég ætla að reyna að svara þeirri spurningu hér í 12 liðum.

1. Í fyrsta lagi þarf stærri vinnumarkað.

Það vantar sérmenntað tæknifólk á Íslandi og íslensk sprotafyrirtæki þurfa sem fyrr að sækja hæfa sérfræðinga til starfa frá útlöndum. Það eru einfaldlega ekki nógu margir tölvunarfræðingar, verkfræðingar og aðrir slíkir sérfræðingar hér á landi. En það er einnig skortur á sérmenntuðu fólki erlendis, þannig að samkeppnin um vinnuaflið er alþjóðleg.

Hvað hafa íslensk fyrirtæki að bjóða annað en áhugavert land, með fallegri náttúru og ævintýralegum eldgosum? Allavega ekki ódýra matvöru, samkeppnishæf laun og efnahagslegan stöðugleika fyrir borgara landsins.

2. Í öðru lagi þarf alþjóðlegan markað og öflugan útflutning.

Útflutningur er ekkert áhlaupsverk og reyndir menn segja að eftir 15 ára vöruþróun taki við önnur 15 ár við markaðs- og sölustarf áður en þeim árangri er náð sem að er keppt.

Við núverandi aðstæður þurfa sprotafyrirtæki að vera orðin mjög öflug til að útflutningstekjur nái að vega upp aukinn erlendan kostnað.

3. Í þriðja lagi þurfa sprotafyrirtækin alþjóðlega samvinnu, við kaupendur vöru og þjónustu, til að rannsóknarstarf og vöruþróun beri tilætlaðan árangur. Heimamarkaður okkar er í flestum tilvikum of lítill, einsleitur og fábreyttur til að hann einn nægi, a.m.k. fyrir hátæknivörur og -þjónustu.

4. Í fjórða lagi þurfa sprotafyrirtæki að eiga greiða leið að samstarfi við háskóla, ekki aðeins innlenda heldur einnig erlenda. Þar er uppspretta þekkingar og þaðan koma í mörgum tilvikum sérfræðingarnir sem sprotafyrirtækin þurfa svo sárlega.

5. Í fimmta lagi þarf að nýta sérhæfða innlenda þekkingu.

Íslensk hátækni- og sprotafyrirtæki starfa einkum á sex sviðum. Þessi svið eru : (1) orku- og umhverfistækni; (2) vél- og rafeindatækni fyrir sjávarútveg og matvælavinnslu; (3) líftækni; (4) heilbrigðistækni; (5) leikjaiðnaður og loks; (6) upplýsingatækni sem byggir á innlendri þekkingu af öðru tagi.

6. Í sjötta lagi þurfum við nothæfan gjaldmiðil sem tekinn er gildur af öðrum þjóðum.

7. Í sjöunda lagi þurfum við efnahagslegan stöðugleika sem gerir fyrirtækjunum kleift að gera áreiðanlegar fjárhagsáætlanir.

8. Í áttunda lagi þurfum við lægri vexti til að fyrirtækin geti tekið nauðsynleg rekstrarlán með sanngjörnum og eðlilegum vöxtum eins og eru víðast um Evrópu.

9. Í níunda lagi þurfum við að efla Tækniþróunarsjóð ennþá meira. Hann er samkeppnissjóður sem á þessu ári verða settar 720 milljón krónur í. Þetta er í mörgum tilvikum eina fjármögnunarleið frumkvöðla og sprotafyrirtækja til að hrinda hugmyndum í framkvæmd og þróa bæði nýjar vörur og þjónustu. Hluti fjármagns þessa sjóðs fer nú til markaðs- og útflutningsverkefna og er það vel, en aflétta þarf skilyrði um að velta fyrirtækis sé minni en 100 milljón krónur, því við þá veltufjárhæð eru fyrirtækin í mörgum tilvikum rétt að verða tilbúin í útflutninginn.

10. Í tíunda lagi þarf að afnema gjaldeyrishöft. Það þarf að gera til að erlendir fjárfestar vilji taka þátt í uppbyggingu fyrirtækja og atvinnulífs á Íslandi. Það getur skipt sköpum fyrir íslensk sprotafyrirtæki í útflutningi að fá erlenda fagfjárfesta til liðs við sig og um leið hæfa stjórnarmenn til aðstoðar við markaðssókn erlendis. Ef þessi lög verða ekki afnumin fljótt munu íslensk sprotafyrirtæki fara að óskum áhugasamra erlendra fjárfesta og færa starfsemi sína að hluta eða öllu leyti til útlanda, þangað sem rekstrarumhverfi er hagstæðara en hér á landi.


Íslensk hátæknifyrirtæki hafa á síðustu misserum flutt starfsemi sína í auknum mæli frá Íslandi. Hver haldið þið að ástæðan sé?

11. Í ellefta lagi er þörf á virkri samvinnu fyrirtækja, menntastofnana og opinberra aðila við þróun margs konar tæknilausna og þjónustu, helst ætti þessi samvinna að vera alþjóðleg. Það er landlægt viðhorf hér innan lands að íslenskir frumkvöðlar og sprotafyrirtæki eigi að gefa vinnu sína við slíka samvinnu. Það er mjög takmarkaður skilningur á því að frumkvöðull og sprotafyrirtæki þurfi lágmarksábata til að geta haldið rannsóknar- og þróunarstarfi sínu áfram. Það þarf einnig að ríkja velvilji í garð sprotafyrirtækja á þann veg að opinberir aðilar kaupi íslenska vöru og hugvit í stað erlends, sé val um það. Við kaup á erlendum vörum og þjónustu hafa stundum einhverjir aurar sparast, en krónunum hefur hins vegar verið kastað.

12. Í tólfta lagi þarf enn meiri hvata innan menntastofnana, ekki síst háskólanna, til að starfsmenn þeirra vilji taka þátt í hagnýtri og atvinnuskapandi nýsköpun. Hugsanlega þarf að skipuleggja markvissari þekkingaruppbyggingu í menntakerfinu, mynda þarf þekkingu sem samrýmist framtíðarsýn þjóðarinnar varðandi sjálfbærni og gætinni umgengni við náttúru landsins. Og það þarf að efla starfsmenntun hér á landi.

Hagur flestra íslenskra sprotafyrirtækja hefur ekki vænkast að neinu ráði eftir hrun bankanna. Fyrst eftir hrunið leit út fyrir að vinnumarkaðurinn hefði náð jafnvægi á ný, en þótt atvinnuleysi sé talsvert hér á landi er samt skortur á sérfræðimenntuðu fólki í tæknigreinum og það er líkast rússíbanaferð að reka sprotafyrirtæki hér á landi.

Samkvæmt upplýsingum frá Bjarna Má Gylfasyni hagfræðingi Samtaka iðnaðarins námu verðmæti útflutnings á hátæknivörum og þjónustu á síðasta ári 37 milljörðum íslenskra króna. Það jafngilti 5,5% af  heildarútflutningstekjum þjóðarinnar. Einhverjum kann að þykja þetta lítið, en þegar haft er í huga að á síðustu 10 árum hafa þessi verðmæti nærri fimmfaldast má glögglega sjá vaxtarmöguleika hátækni- og sprotagreinanna þrátt fyrir gríðarlegan mótvind á síðustu árum. Þá tel ég að framlag greinanna til hagvaxtar sé í raun mun meira, þar sem þessi fyrirtæki skapa verðmætari störf og krefjast almennt minni fjárfestinga en í hefðbundnum útflutningsfyrirtækjum.

Góðir fundargestir.

Það er kominn tími til að mannauður þessa lands sé virkjaður betur en verið hefur til verðmætasköpunar. Breyta þarf áherslum opinberra aðila í afskiptum sínum af atvinnulífinu. Ekki duga lengur tilviljanakennd viðbrögð við tímabundnum aðstæðum í einstökum atvinnugreinum. Nú þarf að huga að framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Íslandi og móta heildstæða framtíðarsýn þjóðarinnar í þeim efnum. Að breyta atvinnulífi landsins er vinna sem getur tekið mörg ár. Stefnufesta þarf að ríkja og vinnan markviss til að okkur miði í rétta átt, í þá átt sem við

sameinumst um að vilja fara.

Við Íslendingar eigum hóp af kraftmiklu fólki sem er tilbúið að leggja allt í sölurnar fyrir nýsköpunar- og sprotahugmyndir sínar. Þrátt fyrir erfiðleika undanfarinna ára búum við svo vel að eiga um 200 nýsköpunar- og sprotafyrirtæki sem öll eru að vinna að góðum, merkum og verðmætum verkefnum. Af þessum fjölda eru um 30 fyrirtæki sem eru meira en 7 ára og 10-15 sem eru 10 ára og eldri. Þessi fyrirtæki eru þrautseig og hafa lifað af bæði allt of sterka krónu og svo hrun á fjármálamörkuðum. Þau búa yfir seiglu, sveigjanleika, öflugu og góðu starfsfólki sem tilbúið er að takast á við krefjandi framtíð. Þetta eru fyrirtæki sem urðu til fyrir þrautseigju, skipulagningu, áætlanagerð, bjartsýni og trú frumkvöðlanna á framtíðina.

Til að skapa ný störf og nýta til þess þekkingu þjóðarinnar þurfum við að vinna þvert á faggreinar. Leiða þarf saman frumkvöðla úr ólíkum atvinnugeirum sem hingað til hefur verið haldið sundur í ólíkum starfsgreinafélögum. Í byrjun mars síðastliðnum tók ég þátt í fræðsluferð 13 íslenskra frumkvöðla til höfuðstöðva Evrópusambandsins í Brussel. Þetta var fjögurra daga ferð og í henni gafst tækifæri til að hitta háttsetta stjórnendur og samninganefnd sambandsins. Umræður voru opnar og heiðarlegar og margt gagnlegra upplýsinga kom fram sem mikilvægt er að miðlað sé áfram til fólks hér á landi. Einna mikilvægast voru þó kynni okkar frumkvöðlanna innbyrðis. Það er nokkuð sérstakt að það þurfi tilstuðlan Evrópusambandsins til að við frumkvöðlar á Íslandi í ólíkum starfsgreinum kynnumst og ræðum saman um möguleika á nýsköpun þvert á starfsgreinar. En þetta er eitt af því sem þarf. Við þurfum að vinna saman þvert á starfs- og faggreinar. Hluti nauðsynlegra  breytinga  hér á landi er að fólk með ólíka þekkingu sé leitt saman.

Að lokum þetta.

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu þarf að taka til heiðarlegrar og málefnalegrar umræðu. Okkur ber skylda til að vinna heimavinnu okkar af vandvirkni og láta af ómálefnalegum málflutningi sem aðeins byggir á tilfinningum, á hvorn veginn sem er. Við verðum að hafa opinn huga gagnvart þeim tækifærum sem felast í nánu samstarfi Evrópuþjóða. Við höfum ekki efni  á öðru.

Kjörorð þessa fundar eru: Ísland af stað.

Og ég segi: Áfram nú!

Svana Helen Björnsdóttir,

forstjóri Stika og formaður Samtaka sprotafyrirtækja.