Umsvif ríkisins í atvinnulífinu jukust – en hlutur þess minnkaði

Allt frá árinu 1991 hafa ríkisstjórnir haft á stefnuskrá sinni að selja fyrirtæki ríkisins og draga úr afskiptum þess af atvinnulífinu. Hægar hefur þó gengið að hrinda þessari stefnu í framkvæmd en vonir hafa staðið til á hverjum tíma. Það hefur haft þá þversagnarkenndu niðurstöðu í för með sér að ríkiseignir í atvinnulífinu hafa vaxið að raungildi undanfarinn áratug, bæði hvað varðar veltu og eigið fé, eins og sést í töflu 1.   Þrátt fyrir að ríkið hafi selt allmörg fyrirtæki þá hafa umsvif þeirra sem enn eru óseld vaxið til muna. Einna mestur vöxtur hefur verið í þeim greinum atvinnulífsins þar sem hlutur ríkisins er mestur, þ.e. í orku, fjarskipta- og fjármálageirunum. Ríkið hefur þó ekki haldið í við atvinnulífið í heild, hvort sem miðað er við eigið fé eða veltu.

Heimild: Samkeppnisstofnun: Gagnagrunnur skýrslna um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi 1993 og 1999; eigið fé allra fyrirtækja: Þjóðhagsstofnun; útreikningar SA.

Frá 1991 og fram á þennan dag hefur ríkið selt hlut sinn í 27 fyrirtækjum (sjá töflu 3). Samtals hefur verið selt fyrir um 30 milljarða króna (á verðlagi hvers tíma). Virðist ekki fjarri lagi að áætla að nú hafi ríkið selt nálægt 30% af því sem það átti í atvinnulífinu í upphafi tíunda áratugarins.Yfirleitt hefur allur hlutur ríkisins í fyrirtækjunum verið seldur, einstöku sinnum í tveimur áföngum. Stærst var salan á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, sem búinn var til úr fjórum fjárfestingalánasjóðum og sameinaðist síðar Íslandsbanka. Sala annarra banka hefur hins vegar gengið hægt. Á ársfundi Seðlabanka 1991 skýrði Jón Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, frá því að ætlunin væri að breyta Búnaðarbankanum í hlutafélag, en hann yrði síðan seldur smám saman. Næstu árin var mikið rætt um að selja ríkisbankana og í fjárlögum ársins 1993 var gert ráð fyrir tekjum af sölu Búnaðarbankans. En salan tafðist af ýmsum sökum og það var ekki fyrr en síðla árs1999 sem ríkið tók að selja bréf í Búnaðarbanka og Landsbanka. Árið áður hafði nýtt hlutafé í bönkunum verið selt á frjálsum markaði. Haustið 2001 mistókst ríkinu að selja 16% hlutafjár í Landssímanum hér á landi á föstu verði, en fyrir skömmu rann 20% hlutur þess í Landsbankanum út á markaðsverði. Ríkið á þar þó enn sem komið er 48% hlut. Hlutur þess í Búnaðarbankanum fór úr 64% í 55% fyrir jólin þegar hann sameinaðist Gildingu.

Hik seljenda
Sigurður B. Stefánsson hagfræðingur hélt því fram á aðalfundi VSÍ vorið 1991 að raunhæft væri að selja opinber fyrirtæki hér á landi fyrir 20-30 milljarða króna fram til aldamóta, eða fyrir 2-3 milljarða á ári að jafnaði. Í matinu hafði hann hliðsjón af sölu ríkisfyrirtækja í Bretlandi. Árangurinn er ekki fjarri þessu markmiði. Á ellefu árum hefur ríkið selt eignir í atvinnurekstri fyrir 30 milljarða króna á verðlagi hvers tíma. En eins og sést í töflu 3 fór salan mjög hægt af stað. Frá árinu 1998 hefur ríkið hins vegar selt mun meira af eignum sínum en menn töldu að gerlegt væri fyrir áratug síðan. Markaður er fyrir hendi og áhugi á íslenskum hlutabréfum hefur vaxið mikið undanfarinn áratug og auk þess nær hann nú út fyrir landsteinana. Markaðurinn á auðvelt með að taka við góðum fjárfestingarkostum eins og kom eftirminnilega  í ljós í júníbyrjun þegar fimmtungs hlutur í Landsbankanum var seldur á nokkrum mínútum. Af því virðist mega draga þá ályktun að hik seljandans virðist fremur hafa tafið fyrir sölu á ríkisfyrirtækjum en áhugaleysi kaupenda, þar sem meira en áratugur er síðan ráðamenn fóru að tala um að selja ríkisbankana tvo.

Er ríkið að draga saman seglin?
Samkvæmt könnunum Samkeppnisstofnunar á stjórnunar- og eignatengslum í íslensku viðskiptalífi fjölgaði þeim fyrirtækjum sem ríkið átti hlut í nokkuð frá 1993 til 1999 (farið er í annan lið: þau fyrirtæki talin sem eru að hluta í eigu fyrirtækja sem ríkið á beinan hlut í). Þau fyrirtæki sem ríkið átti meira en 5% hlut í eru jafnmörg árin 1993 og 1999. Á þessum árum vex eigið fé fyrirtækjanna um 12% að raungildi og veltan eykst um 15%. Í skýrslu Samkeppnisstofnunar er þetta einkum rakið til þess að velta jókst mest í þeim þremur atvinnugreinum þar sem hlutur ríkisins var mestur, þ.e. í orku-, fjarskipta- og fjármálageirunum. Ríkisfyrirtækin héldu þó ekki í við vöxt atvinnulífsins í heild á þessum árum. Árið 1993 átti ríkið um fjórðung af öllu eigin fé íslenskra fyrirtækja, en árið 1999 var hlutfallið komið niður í 17%. Velta ríkisfyrirtækjanna jókst um 30% á þessum árum, samkvæmt könnun Samkeppnisstofnunar, en verg landsframleiðsla jókst um tæp 50% á sama tíma (á verðlagi hvers árs).

Hvaða fyrirtæki eru næst?
Árið 1999 voru þrír fjórðu eigin fjár ríkisins í atvinnulífinu í sjö fyrirtækjum (í stærðarröð): Landsvirkjun, Landssímanum, Rafmagnsveitum ríkisins, Landsbankanum, Íbúðalánasjóði, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Búnaðarbankanum (sjá töflu 2.). Fjögur eru í fjármálageiranum, tvö í orkugeiranum og eitt í fjarskiptum. Þessi fyrirtæki keppa annað hvort nú þegar við önnur um hylli neytenda, eða munu gera það á næstu árum (samkeppni verður líkast til að fullu innleidd í orkuframleiðslu og -sölu í byrjun árs 2004). Ríkið hefur þegar selt hluta af þremur þessara fyrirtækja: Landsbanka, Búnaðarbanka og Landssímanum og á vorþingi lagði iðnaðarráðherra fram frumvarp til laga um að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag. Ef ríkið ætlar að halda áfram að draga sig út úr atvinnulífinu hljóta þessi sjö að vera í brennidepli.

Einkavæðingarferlinu sem hófst árið 1991 lýkur ekki fyrr en framangreind fyrirtæki og starfsemi flytjast yfir í einkageirann. Það er ljóst að um þau stóru einkavæðingarverkefni sem fram undan eru munu standa deilur en reynslan, bæði hérlendis og erlendis, kennir að þegar einkavæðing fyrirtækja í þessum atvinnugreinum er um garð gengin þá á það sér fáa ef nokkra talsmenn að snúa til baka til fyrra horfs. 

(smellið á myndina)