Efnahagsmál - 

03. Maí 2005

Umsvif erlendis þýða sérfræðistörf á Íslandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Umsvif erlendis þýða sérfræðistörf á Íslandi

Á aðalfundi SA stýrði Páll Magnússon fréttastjóri Stöðvar 2 umræðum um áherslur atvinnulífsins og framtíðarsýnina. Þátttakendur í umræðunum voru þau Ármann Þorvaldsson framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar KB banka, Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs Group, Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsis hf., Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri FL Group og Svafa Grönfeldt framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs Actavis Group.

Á aðalfundi SA stýrði Páll Magnússon fréttastjóri Stöðvar 2 umræðum um áherslur atvinnulífsins og framtíðarsýnina. Þátttakendur í umræðunum voru þau Ármann Þorvaldsson framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar KB banka, Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs Group, Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsis hf., Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri FL Group og Svafa Grönfeldt framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs Actavis Group.

Þátttakendur voru sammála um að íslenskt atvinnulíf hefði verið að ná góðum árangri að undanförnu, um að starfs-skilyrðin hefðu verið bætt að mörgu leyti og fyrirtækin nýtt sér aukið svigrúm til athafna. Flestir lögðu þátttakendurnir jafnframt mikla áherslu á mikilvægi þess að hlúa vel að menntakerfinu og að öflugu umhverfi til nýsköpunar, upp á framtíðina að gera.

Verðum dæmd af árangri í rekstri

Yfirskrift fundarins var Áfram í úrvalsdeild? og umræðan snerist talsvert um aukin umsvif íslenskra fyrirtækja erlendis. Aðspurð sagði Svafa þetta ekki spurningu um að vera í úrvalsdeild eða einhverri annarri deild heldur að gera eitthvað nýtt. Umhverfið í dag væri mjög hliðhollt íslensku eðli, við værum ekki eins bundin af ýmiss konar aga og stærri fyrirtæki víða erlendis. Jón Ásgeir sagði Ísland vera statt neðarlega í úrvaldsdeild, við værum rétt að byrja að spila þar. Hann sagði okkur hafa sýnt að við getum keypt stór fyrirtæki erlendis, við ættum eftir að sýna að við gætum rekið þau en af þeim verkum yrðum við dæmd.

Hátt gengi krónunnar

Katrín sagði mikilvægt á tímum spennu í efnahagslífinu eins og nú að hlúa líka að útflutningsatvinnuvegunum. Hún kvartaði undan háu gengi krónunnar og sagði að m.a. yrðu stjórnvöld að sýna meira aðhald í sínum fjármálum til að stuðla gegn þenslu og háu gengi.

Hlutur bankanna

Aðspurður um mikinn hlut bankanna í íslensku atvinnulífi, sem forsætisráðherra hafði m.a. gert að umræðuefni í sinni ræðu, sagði Ármann að t.d. mætti bera hlutverk þeirra saman við það sem gerist í Þýskalandi. Þar ættu þeir stóra hluti í fyrirtækjum og væru virkir í stjórn þeirra, hér fjármögnuðu þeir aðra aðila sem tækju fyrirtæki yfir til að reka þau. Ragnhildur sagði bankana hafa með auknum umsvifum sínum skapað gríðarleg tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki en að æskilegt væri að fleiri fjárfestar tækju svo virkan þátt í atvinnulífinu. Svafa sagði bankana að sjálfsögðu mikilvæga við fjármögnun kaupa á fyrirtækjum en að sérþekking á rekstri fyrirtækja væri það sem réði úrslitum hvernig gengi, hvoru tveggja þyrfti til. Lagði hún áherslu á mikilvægi menntunar, ekki síst á sviði stjórnunar.

Erlend umsvif, sérfræðistörf á Íslandi

Loks kom fram að þessa mikla sókn íslenskra fyrirtækja á erlenda grundu hefði m.a. skilað sér í fjölgun sérfræðistarfa hér á landi. Ármann nefndi sem dæmi 50 manna áhættustýringardeild KB-banka hér á landi, þar sem starfa hámenntaðir sérfræðingar, sem ekki væri helmingur af þeirri stærð ef ekki væri fyrir hin miklu umsvif fyrirtækisins erlendis. Svafa sagði framleiðslustarfsemi Actavis í auknum mæli að færast til verksmiðja erlendis, en að sérfræðistörf á borð við þróunardeild væru meira hér á landi. Sagði hún einhverja gerjun og orku til staðar hér á landi sem ekki væri að finna annars staðar.

Samtök atvinnulífsins