Umsögn SA um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða

Samtök atvinnulífsins telja að tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða (727. mál) uppfylli ekki skilyrði laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun og að hún geti ekki haft þau réttaráhrif sem henni er ætlað að hafa samkvæmt lögunum. Þetta kemur fram í umsögn SA til Alþingis. Samtök atvinnulífsins telja því að hvorki landeigendur, sveitarstjórnir, orkufyrirtæki né aðrir verði bundnir af samþykkt þeirrar tillögu sem til umfjöllunar er.

Í umsögn SA segir ennfremur:

Fyrstu tvær málsgreinar bráðabirgðaákvæðis í ofangreindum lögum hljóða svo:

"Tillaga til þingsályktunar skv. 3. gr. skal fyrst lögð fram á Alþingi þegar fyrir liggja tillögur verkefnisstjórnar um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem skipuð var af iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra 24. ágúst 2007.

Áður en tillaga til þingsályktunar er lögð fram á Alþingi skal ráðherra kynna hana þeim aðilum sem greinir í 3. mgr. 10. gr. og gefa öllum kost á að koma á framfæri athugasemdum með tilgreindum hætti. Fara skal fram umhverfismat á tillögunni í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana."

Þingsályktunartillagan eins og hún liggur fyrir hefur ekki hlotið þá meðferð sem krafist er í bráðabirgðaákvæðinu. Tillagan var ekki kynnt almenningi né leitað umsagna hagsmunaaðila. Ekki hefur heldur farið fram umhverfismat á tillögunni samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana eins og áskilið er.

Eins og kunnugt er voru drög að tillögunni kynnt almenningi og óskað umsagna um þau. Einnig var kynnt mat á umhverfisáhrifum draganna samkvæmt lögum nr. 105/2006. Ekki væru í umsögn þessari gerðar athugasemdir við þingsályktunartillöguna ef hún hefði verið flutt óbreytt eins og áskilið er í lögunum.

Í allri umræðu um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða hefur verið lögð áhersla á að ferlið væri opið og gagnsætt. Tillögur um flokkun virkjanakosta væru faglegar, hlytu opna umræðu og að almenningi og hagsmunaaðilum gæfist kostur að koma með athugasemdir við þingsályktunartillöguna sjálfa. Einnig að tillagan sjálf gengist undir mat á áhrifum. Það væri síðan hlutverk Alþingis að fjalla um tillöguna, þær athugasemdir sem borist hafa og eftir atvikum samþykkja tillöguna óbreytta eða með breytingum.


Þessu er ekki svo farið með þá tillögu til þingsályktunar sem nú liggur fyrir Alþingi. Eftir að verkefnisstjórn sem undirbjó tillöguna var málið unnið á vegum ráðuneytanna og þau undirbjuggu þá tillögu sem kynnt var almenningi síðastliðið sumar. Þegar athugasemdafrestur var liðinn var málið endanlega tekið úr opnu ferli og samin ný þingsályktunartillaga sem hvorki almenningur né hagsmunaaðilar hafa átt þess kost að fjalla um og ekki heldur kynnt mat á umhverfisáhrifum tillögunnar. Í tillögunni sem hér er til umsagnar hafa verið gerðar viðamiklar breytingar á þeim drögum sem kynnt voru almenningi. Þessar breytingar hljóta að þurfa sömu umfjöllun og önnur atriði þingsályktunartillögunnar til að ákvæði laga nr. 48/2011 séu uppfyllt.

Það er mat Samtaka atvinnulífsins að lög nr. 48/2011 séu afdráttarlaus um að það sé skylda stjórnvalda að leggja sömu tillögu fyrir Alþingi og kynnt var almenningi og hagsmunaaðilum og hlaut meðferð samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana. Allar breytingar á tillögunni sem stjórnvöld kjósi að gera að loknu því ferli krefjist þess að nýtt kynningar- og umsagnarferli hefjist.

Samtök atvinnulífsins telja því að sú tillaga sem hér er til umsagnar geti ekki haft þau réttaráhrif sem henni er ætlað samkvæmt lögum nr. 48/2011 og að hvorki landeigendur, sveitarstjórnir, orkufyrirtæki né aðrir verði bundnir af samþykkt þeirrar tillögu sem til umfjöllunar er.


Umsögn SA til Alþingis, 30. 4. 2012