Umhverfisáhrif vegna stækkunar álversins í Straumsvík

Verði af stækkun álvers Alcan í Straumsvík verða loftgæði með tilliti til heilsu fólks og mengun gróðurs og jarðvegs undir öllum mörkum sem sett eru innan sem utan lóðamarka álversins. Þetta kom fram á fundi SA um atvinnulíf og umhverfi sem fram fór í morgun. Á fundinum kom jafnframt fram að Alcan hafi tekist á undanförnum árum að draga stórlega úr útstreymi flúors en mælingar sýna að magn flúors í gróðri við álverið er nú svipað og mældist áður en álver Alcan hóf starfsemi árið 1969. Í dag er losun gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn af áli fjórðungur af því sem það var árið 1990 þegar framleiðslan var 87 þúsund tonn. Verði framleiðslugeta álversins í Straumsvík aukin í 460 þúsund tonn verður heildarlosun gróðurhúsalofttegunda litlu meiri en árið 1990.

 

Mikil framþróun

Fundurinn er hluti af fundaröð SA um umhverfi og atvinnulíf sem hófst á haustdögum 2006. Að þessu sinni kynnti Guðrún Þóra Magnúsdóttir, leiðtogi umhverfismála hjá Alcan, yfirgripsmikil gögn um umhverfisáhrif álversins frá því það tók til starfa og fram til dagsins í dag, ásamt því að sýna áætluð umhverfisáhrif vegna fyrirhugaðrar stækkunar álversins í Straumsvík. Fram kom að losun á flúor hefði verið mikil á fyrstu starfsárum álversins fram til um1980 þegar tókst að draga verulega úr losuninni. Undanfarin 15 ár hefur síðan tekist að takmarka verulega losun flúors í útblæstri. Við framleiðslu Alcan tekst t.d. að hreinsa 99,9% gaskennds flúors og 98% flúors og ryks. Með nýjum þurrhreinsistöðvum verður árangurinn enn meiri. Alcan á Íslandi hefur haft frumkvæði að því að takamarka losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni og hefur tekist að gera betur en kröfur opinberra aðila segja til um. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir álframleiðslu og heildarlosun flúors frá álveri Alcan í Straumsvík.

ALcan - flúorlosun 1

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Um svifryk og brennisteinstvíoxíð

Fundurinn var vel sóttur af fólki úr atvinnulífi og stjórnkerfi sem þekkir vel til  umhverfismála og þeirra krafna sem eru gerðar til fyrirtækja. Nokkuð var rætt um svifryk og losun á brennisteinstvíoxíði en í máli Guðrúnar Þóru kom fram að loftgæði með tilliti til heilsu fólks verði uppfyllt innan sem utan lóðamarka álversins komi til stækkunar. Hvað varðar losun á brennisteinstvíoxíði sérstaklega komi til stækkunar þá verða loftgæði með tilliti til heilsu fólks uppfyllt við lóðamörk Alcan í Straumsvík og einnig kom fram að að Alcan stefni að því að draga úr losun brennisteinstvíoxíðs og mun áætlun í þeim efnum liggja fyrir árið 2009.

Í umræðum kom fram að loftgæðamælingar á Hvaleyrarholti árið 2005 sýna engin tengsl á milli framleiðslu áls í Straumsvík og aukins magns brennisteinsdíoxíðs í lofti eða svifryks. Í meðfylgjandi glæru má sjá aukið magn þess í lofti 1. janúar sem rekja má ef til vill til flugeldanotkunar Hafnfirðinga en hvernig má þá skýra aukningu brennisteinsdíoxíðs í lofti á Hvaleyrarholti á seinni hluta ársins? Starfsmaður sem kom að þessum mælingum var á fundinum og upplýsti hann um að aukningin hefði verið rakin til krana við Hafnarfjarðarhöfn, en þegar þeir voru gangsettir á morgnana losuðu þeir brennisteinsdíoxíð sem kom fram á þeim mælingum sem sýndar eru hér í grafinu að neðan. Mælingar á Hvaleyrarholti á svifryki og brennisteinsdíoxíði sýna að styrkur efnanna í andrúmslofti er aðeins brot af heilsuverndarmörkum.

Hvaleyrarholt 3

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Hvaleyrarholt 1

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Sjá nánar glærur Guðrúnar Þóru, leiðtoga umhverfismála hjá Alcan.