Um verkaskiptingu ráðuneyta og stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis

Samtök atvinnulífsins eru alfarið andvíg fyrirhugaðri uppstokkun verkefna milli ráðuneyta og stofnun sérstaks umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Fyrirhugaðar breytingar fela í sér að rofin eru tengsl milli atvinnuvegaráðuneyta og ákvarðana um nýtingu auðlinda, rannsókna, ráðgjöf og verndun auðlinda. Samtökin telja þvert á móti nauðsynlegt að viðhalda tengingu atvinnuvegaráðuneyta og ákvarðana um auðlindanýtingu við rannsóknastofnanir og auðlindarannsóknir.

Þetta kemur fram í bréfi Vilmundar Jósefssonar, formanns SA, og Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, sem afhent var Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra síðastliðinn föstudag.

Í bréfi SA segir ennfremur:

"Samtökin krefjast þess að áður en ákveðið verður að ráðast í þessar breytingar á stjórnsýslunni liggi fyrir hvaða markmiðum ætlunin er að ná og mat á afleiðingum þeirra. Nauðsynlegt er að hafa náið samráð við hagsmunaaðila og þeir verða að hafa beina aðkomu að allri undirbúningsvinnu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti fái auk þeirra verkefna sem fyrir eru lykilhlutverk varðandi rannsóknir, nýtingarstefnu, ráðgjöf og verndun á sviði auðlindamála. Þangað á ennfremur að flytjast umsýsla Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Þessari stefnumörkun hafa Samtök atvinnulífsins þegar mótmælt og telja náin tengsl á milli rannsóknaraðila og stjórnsýslu atvinnuveganna vera nauðsynleg til að tryggja traust og samvinnu á milli aðila. Rannsóknarstofnanir eins og Matís orf., Hafrannsóknarstofnunin, Veiðimálastofnun og Orkustofnun, svo dæmi séu tekin, byggja á náinni samvinnu við ráðuneyti sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar. Stofnanirnar hafa þannig sterka bakhjarla til að tryggja þeim aðstöðu fyrir sjálfstæðar rannsóknir. Ráðuneytin fjármagna ekki einstök verkefni þessara stofnana en fylgjast með starfsemi þeirra og það gagnast bæði stofnununum í starfsemi þeirra og stjórnsýslunni við þróun og framgang einstakra málaflokka. Áform ríkisstjórnarinnar fela í sér að slitið verður á tengsl atvinnuvegaráðuneytanna við rannsóknarstofnanir sínar. Með því er verið að slíta á samskipti milli aðila, og um leið upplýsingamiðlun, sem er lífæð framþróunar á viðkomandi fagsviði. Nauðsynlegt er að tryggja beina tengingu við rannsóknir og framkvæmd verkefna og öfugt. Án slíkrar tengingar eru miklar líkur á því að engin framþróun verði á sviði stjórnsýslu atvinnuveganna. Þessar stofnanir sinna grunnrannsóknum á sviði haf-, matvæla- og orkurannsókna. Sérfræðingar þeirra eru sumir í fremstu röð á sínu fagsviði og að auki í beinni samkeppni við erlenda starfsbræður á viðkomandi fagsviðum. Með því að fjarlægja bein tengsl við atvinnugreinina og þær kröfur sem gerðar eru í greininni, má telja líklegt að Íslendingar tapi því rannsóknarforskoti sem þeir hafa á aðrar þjóðir. Stofnanirnar hafa einnig beint samstarf við háskóla um menntun sem tengist atvinnulífinu. Með því að slíta á tengslin eru líkur til þess að áherslur atvinnulífsins komist ekki til skila inn í menntakerfið og það stuðli að minni samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs til lengri tíma.

Áhersla á rannsóknir í þágu atvinnulífsins hefur minnkað við sameiningu rannsóknarstofnana við þjónustustofnanir. Dæmi má taka af Rannsóknarstofnun Landbúnaðarins (RALA) sem var sameinuð við Landbúnaðarháskólann. Eftir sameiningu hefur bæði tími sérfræðinga og rannsóknaráherslur færst frá þörfum atvinnulífsins í átt að þörfum háskólaumhverfisins.

Íslenskar orkurannsóknir þjóna orkufyrirtækjunum á margvíslegan hátt og stunda rannsóknir á þeirra vegum og nauðsynlegt að þar á milli séu náin tengsl. Hætta er á að þau rofni verði af fyrirhugaðri breytingu. Sama má segja um samstarf Matís og atvinnulífsins. Matís er þekkingar og rannsóknafyrirtæki sem vinnur að þróun og nýsköpun í matvælaiðnaði, líftækni og sinnir matvælaöryggi. Matís veitir fyrirtækjum í sjávarútvegi, landbúnaði og almennri matvælaframleiðslu ráðgjöf og þjónustu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla. Þessi tengsl verður að vernda.

Sérstakar hafrannsóknarstofnanir heyra jafnan undir ráðuneyti sjávarútvegs, landbúnaðar eða matvæla í nálægum löndum. Hlutverk þeirra er að sinna rannsóknum og ráðgjöf til ráðuneytisins. Til viðbótar eru sérstakar rannsóknarstofnanir sem sérhæfa sig í hafrannsóknum og fleiri líffræðirannsóknum tengdum háskólastarfi og rannsóknasjóðum. Tillaga um að færa Hafrannsóknarstofnunina frá sjávarútvegs­ráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins, gengur þannig gegn meginstefnu annarra þróaðra fiskveiðiríkja um að hafa sérstaka hafrannsóknarstofnun innan vébanda fagráðuneytis fiskveiða. Íslendingar hafa verið í fararbroddi í sjávarútvegi og starfað eftir siðareglum FAO (e. Code of Conduct) þar sem settar eru fram grunnreglur og alþjóðlegir staðlar fyrir ábyrga hegðun sem tryggi virka verndun, stjórnun og þróun lifandi auðlinda í sjó og vatni með tilhlýðilegri virðingu fyrir vistkerfinu og fjölbreytileika lífríkisins. Grundvallaratriði í leiðbeiningum FAO er að til þess að sá ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál geti tekið ákvarðanir um ábyrga nýtingu fiskistofna er nauðsynlegt að hann hafi beinan og milliliðalausan aðgang að rannsóknum niðurstöðum þeirra, skipulagi og framkvæmd. Eins er lögð mikil áhersla á samráð við atvinnugreinina sjálfra en eins og kunnugt er hafa einstakir útgerðarmenn og samtök þeirra átt mikla og góða samvinnu við ráðuneytið og Hafrannsóknastofnun. Þetta samstarf hefur tekið til einstakra rannsóknarverkefna, öflunar upplýsinga og þekkingarmiðlunar. Með áformum ríkisstjórnarinnar um að slíta á milli hafrannsókna, nýtingu auðlinda og stjórn fiskveiða er gengið gegn leiðbeiningum FAO. Almennt má segja að frekar sé nauðsyn að tengja betur saman rannsóknir á Íslandi og atvinnulífið en að byggja múra til að girða af rannsóknir á auðlindum frá nýtingu þeirra.

Samtökin benda á að jafnframt verði könnuð sú hagræðing sem náðst getur með því að skipta verkefnum umhverfisráðuneytis milli iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis án þess að slaka á efnislegum kröfum í umhverfismálum."