Um tekjur og gjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs

Tekjustofn Atvinnuleysistryggingasjóðs er atvinnutryggingagjald, sem er hluti af lögbundnu tryggingagjaldi atvinnurekenda sem reiknast af greiddum launum. Í árslok 2008 var eigið fé sjóðsins um 16 milljarðar króna. Aukin greiðslubyrði sjóðsins vegna nýrra viðfangsefna og sérstakrar hækkunar bóta í janúar umfram almennar launahækkanir var talin leiða til þess að sjóðurinn myndi tæmast haustið 2009 ef ekkert yrði að gert. Með hækkun atvinnutryggingagjalds frá 1. júlí sl. úr 0,65% í 2,21% gera bjartsýnustu spár ráð fyrir að um næstu áramót verði eigið fé sjóðsins jákvætt um 2,5 milljarða en útlitið verði dökkt á árinu 2010.

Hækkun atvinnuleysisbóta umfram launataxta

Frá 1. janúar 2009 voru atvinnuleysisbætur hækkaðar sérstaklega um kr. 13.500 og urðu með því hærri en lægstu launataxtar á almennum vinnumarkaði. Getur þetta dregið úr hvata til vinnu þar sem það getur verið fjárhagslega hagkvæmara að vera á bótum þar sem það fylgir því óhjákvæmilega kostnaður að stunda vinnu. Er það áður óþekkt að atvinnuleysisbætur séu hærri en launataxtar. Áður hafa bæturnar í besta falli haldið í við lægsta taxtann.

Samkvæmt kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum áttu taxtar að hækka um kr. 13.500 þann 1. mars en niðurstaðan varð sú nýverið að taxtar hækka um kr. 6.750 frá 1. júlí og aftur um kr. 6.750 frá 1. nóvember. Það er því ekki fyrr en í nóvember sem lægsti taxtinn verður jafnhár lágmarksbótunum. Hefðu bæturnar fylgt hækkun launataxta á árinu 2009 yrðu útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs 1,5 - 2 milljörðum króna lægri á árinu 2009 en útlit er fyrir.

Endurskoðun gjalda og tekna nauðsynleg

Gagnger endurskoðun þarf að fara fram á tekjum og gjöldum sjóðsins og auka aðhald og eftirlit með útgjöldum eins og kostur er. Hægt er að draga úr útgjöldum án þess að komi niður á þeim sem eru atvinnulausir. Vinnumálastofnun og Ríkisskattstjóri hafa sýnt lofsvert framtak með herferð sinni við að leita þá uppi sem svíkja út bætur, en líta þarf einnig til annarra þátta.

Á árum áður þegar sjóðurinn var vel stæður voru ákveðin ýmis framlög úr honum til annarra mála en greiðslna vegna atvinnuleysis. Þá er einsdæmi sú nýbreytni sem var tekin upp að sjálfstætt starfandi aðilar geti talist sjálfstætt starfandi að hluta og fengið hlutabætur á móti. Um 1.500 til 2.000 sjálfstætt starfandi nýta sér nú þennan rétt og eru á hlutabótum. Ekki er vitað til þess að neitt þessu líkt tíðkist í nágrannalöndum okkar. Fram til þessa hafa sjálfstætt starfandi þurft að tilkynna stöðvun rekstrar til ríkisskattstjóra til að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta.

Þá væri ástæða til að endurskoða reglur um minnkað starfshlutfall launamanna á þann hátt að ekki væru greiddar hlutabætur fyrir innan við 25% lækkun starfshlutfalls og taka til endurskoðunar reglur um tímalengd náms á bótum.