Efnahagsmál - 

30. apríl 2019

Um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins

Fjármálaáfallið 2008 leiddi í ljós að áhersla á verðstöðugleika er ekki nægjanleg til að tryggja þjóðhagslegan stöðugleika. Síðasta áratug hefur áhersla því einnig verið lögð á fjármálastöðugleika og viðnámsþrótt fjármálakerfisins í heild, svokallaða þjóðhagsvarúð. Innleiðing og markviss beiting tækja sem taka á útlánaþenslu og veikleika fjármálakerfisins er vitnisburður um það.

Fjármálaáfallið 2008 leiddi í ljós að áhersla á verðstöðugleika er ekki nægjanleg til að tryggja þjóðhagslegan stöðugleika. Síðasta áratug hefur áhersla því einnig verið lögð á fjármálastöðugleika og viðnámsþrótt fjármálakerfisins í heild, svokallaða þjóðhagsvarúð. Innleiðing og markviss beiting tækja sem taka á útlánaþenslu og veikleika fjármálakerfisins er vitnisburður um það.

Vegna smæðar íslenska hagkerfisins er þjóðhagsvarúð sérstaklega mikilvæg þar sem beiting slíkra varúðartækja styrkir peningastefnuna og hefur áhrif á skuldsetningu heimila og fyrirtækja. Við aðstæður frjálsra fjármagnsflutninga er hefðbundinni peningastefnu, einvörðungu með beitingu stýrivaxta, skorður settar þar sem aukinn vaxtamunur við útlönd getur ógnað efnahagslegum stöðugleika. Atburðarás sem okkur Íslendingum er enn í fresku minni áratugi síðar.

Í ljósi þess að þjóðhagsvarúð getur bæði stutt við og styrkt virkni peningastefnu Seðlabankans er rökrétt skref að gera hann einn ábyrgan fyrir fjármálastöðugleika. Fyrirhuguð sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins (FME) er því nauðsynleg og mikilvægur liður í því að festa fjármálastöðugleika í sessi sem eina af grunnstoðum efnahagslegs stöðugleika á Íslandi.

Að mati SA eru þrjár athugasemdir við fyrirhugaða sameiningu sem mikilvægt er að draga fram,

  • Í fyrsta lagi telja SA mikilvægt að öll stjórntæki þjóðhags- og eindarvarúðar eiga að vera í höndum fjármálastöðugleikanefndar. Það er í línu við tillögur Kristin Forbes í tengslum við endurskoðun á ramma íslenskrar peningastefnu, ásamt því að vera til þess fallið að styrkja umgjörð fjármálastöðugleika hér á landi. Þá heyra fjárstreymistæki (innflæðishöft) undir þjóðhagsvarúð og eiga þess vegna að vera á forræði fjármálastöðugleikanefndar en ekki hjá fjölskipaðri bankastjórn líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Með þeim hætti er gagnsæi aukið og tryggt að ytri meðlimir geti veitt viðeigandi aðhald við ákvörðun um beitingu íþyngjandi aðgerða á borð við takmarkanir á flæði fjármagns.

  • Í öðru lagi telja SA mikilvægt að tryggja sjálfstæði Seðlabankans, og getu hans til þess að ná markmiðum sínum á sviði fjármálastöðugleika. Í frumvarpinu er kveðið á um að Seðlabankanum sé heimilt að ákveða reglur sem hafa áhrif á aðgengi einstaklinga og fyrirtækja að lánsfé, að fengnu samþykki ráðherra. Sem dæmi á hér við um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána. Reglusetning af þessu tagi kann að vera nauðsynleg við ákveðin skilyrði til að viðhalda fjármálastöðugleika en getur reynst óvinsæl meðal almennings og þannig sett ráðherra í afar erfiða stöðu sem lýðræðislega kjörnum embættismanni. Mikilvægt er að ákvörðun um setningu þessara reglna sé ekki háð pólitísku samþykki.

  • Í þriðja lagi telja SA áhættu fólgna í fullri sameiningu FME við SÍ. Mikilvægt er að ekki verði dregið úr getu Seðlabankans til að sinna hlutverki sínu varðandi verðstöðugleika í fyrirhugaðri sameiningu. Trúverðugleiki opinbers verðbólgumarkmiðs ræður öllu um árangur peningastefnunnar en markmiðið er akkeri sem bindur niður verðbólguvæntingar. SA telja ekki æskilegt að Seðlabankinn fari með viðskiptaháttaeftirlit á fjármálamarkaði af þeirri ástæðu og ætti að undanskilja það við sameiningu stofnananna tveggja og hafa því svokallað „tveggja turna“ fyrirkomulag. Nægir að líta til þeirra atburða sem leitt hafa af gjaldeyriseftirliti Seðlabankans og þeirrar umfjöllunar sem hefur skapast. Slíkir orðsporshnekkir geta orðið til þess að grafa undan Seðlabankanum og þar með trúverðugleika og virkni peningastefnunnar.

„Tveggja turna“ fyrirkomulag fjármálaeftirlits hefur t.a.m. reynst vel í Bretlandi en einnig hefur reynsla annarra ríkja sýnt að framkvæmd markaðs- og neytendaverndar fari illa saman við framkvæmd þjóðhagsvarúðar.

Þá er einnig óeðlilegt að Seðlabankinn, sem virkur þátttakandi á verðbréfa- og gjaldeyrismarkaði, fari með eftirlit á sömu mörkuðum. Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsaðilum?


Að lokum hvetja SA stjórnvöld til þess að horfa til þeirra tækifæra sem skapast til hagræðingar af sameiningu stofnananna tveggja en ein af ástæðunum fyrir sameiningunni er það óhagræði sem skapast við núverandi fyrirkomulag. Skýr tækifæri eru til samnýtingar krafta beggja stofnana og tækifæri til hagræðingar án þess að það bitni á gæðum. Þá hefur sagan sýnt að útgjöld ríkisins hafa tilhneigingu til að aukast við sameiningu stofnana.[1] Brýnt er að koma í veg fyrir það, en hagræðingu verður aðeins náð fram með fækkun starfsmanna.

Umsögn SA í heild sinni má finna hér

[1] Sjá Viðskiptaráð Íslands (2006, febrúar). Ísland 2015. Sótt frá: www.vi.is/útgáfa/skýrslur/2006_02_08%20Island_2015.pdf

Samtök atvinnulífsins