Tuttugu þúsund störf

Sá efnahagsskellur sem Íslendingar hafa orðið fyrir er af nánast áður óþekktri stærðargráðu í nútímasögunni. Bankakerfið hrundi nánast eins og það lagði sig á einni viku og gengi íslensku krónunnar lækkaði meira en nokkurn gat órað fyrir. Afleiðingarnar eru rekstrarerfiðleikar fyrirtækja og vaxandi atvinnuleysi. Það er í senn megin áhyggjuefnið og viðfangsefnið á næstunni. Þetta segir Þór Sigfússon, formaður SA. Skapa verði tuttugu þúsund ný störf til ársins 2015 og vinna til baka þau störf sem hafi tapast. Nauðsynlegt sé að marka leið út úr þeim ógöngum sem íslenska þjóðarbúið hafi ratað í.

Þór ritar inngangsorð í nýju riti SA þar sem er að finna stefnumörkun samtakanna um þær leiðir sem hægt er að fara til að snúa vörn í sókn. Þar segir Þór m.a.:

Með því að allir viti hvert stefnt er og hvaða leið skuli farin er von til þess að efnahagsvandinn vari skemur en ella. Þannig getum við líka sagt atvinnuleysinu stríð á hendur og skapað störf fyrir stóran hóp ungra Íslendinga sem kemur á vinnumarkaðinn á næstu árum. Það er megin verkefni atvinnulífsins á komandi misserum.

Samtök atvinnulífsins munu á næstunni freista þess að ná samkomulagi við Alþýðusamband Íslands og önnur samtök og leggja grunn að kjarasamningum og stöðugleika á vinnumarkaði til næstu ára. Þær tillögur sem hér eru settar fram eru viðleitni til þess að styrkja þetta samkomulag og til þess að hvetja stjórnvöld til dáða.

Atvinnulífið biðst ekki undan gagnrýni enda er mikilvægt að gagnrýna græðgi og óhóf þar sem slíkt hefur ráðið ferðinni. Endurmat er nauðsynlegt þegar íslenskt atvinnulíf og þjóðin öll verða fyrir áfalli eins og nú hefur gerst. Slíkt endurmat leiðir til aukins innri styrks og bætts siðferðis í atvinnulífinu og samfélaginu öllu.

Við getum snúið vörn í sókn. Með samstilltu átaki fyrirtækja, einstaklinga og hins opinbera þarf að efla framtakssemi og fjölbreytta atvinnustarfsemi hérlendis og huga að betri framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Sjá nánar:

Hagsýn, framsýn og áræðin atvinnustefna (PDF)