Tugprósenta launahækkun lækna myndi valda tjóni

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 óráðlegt að semja við lækna um tugprósenta launahækkun. Slíkt myndi valda verulegum titringi á vinnumarkaði sem gæti orsakað verðbólgu og leitt til minni framleiðni. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar lætur nærri að kröfur lækna séu um 36 prósenta launahækkun.

„Það er alveg ljóst að þarna eru mjög háar kröfur á ferðinni ef þessar tölur eru réttar og langtum hærri en hefur verið samið um á almennum vinnumarkaði.“

Þorsteinn segir óhætt að reikna með því að það myndi valda ólgu á vinnumarkaði ef gengið yrði að kröfum lækna. „Til þess að tilefni sé til fyrir svo mikilla breytinga hjá launum lækna þarf að sýna fram á að þeir hafi með einhverjum hætti dregist svo mikið aftur úr öðrum stéttum hér á landi.“

Þorsteinn segir að ef gengið verði að kröfunum muni aðrar stéttir krefjast sömu launahækkana. Einungis ætti að ganga að kröfum lækna ef hægt væri að sýna fram á að þeir hafi dregist aftur úr með laun sín. Þær prósentubreytingar sem rætt hafi verið um séu langt fyrir utan þann ramma sem hægt er að réttlæta með einhverju slíku.

 Smelltu hér til að horfa á fréttina