Efnahagsmál - 

11. Janúar 2007

Tugmilljóna skattahækkun mótmælt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tugmilljóna skattahækkun mótmælt

Á fyrsta degi ársins tóku gildi breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun sem fela í sér tugmilljóna króna hækkun á gjöldum fjarskiptafélaga til stofnunarinnar. Breytingarnar voru lagðar fram í frumvarpi til Alþingis á síðustu starfsdögum þess fyrir jólafrí og var afgreitt með hraði án samráðs við atvinnulífið. Samtök atvinnulífsins mótmæltu þessu harðlega en rökstuðning fyrir þessari skattahækkun skortir og líkur eru á að breytingarnar stangist á við ákvæði Evrópuréttar. Viðbúið er að fjarskiptafyrirtækin láti reyna á lögmæti þessarar auknu skattheimtu.

Á fyrsta degi ársins tóku gildi breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun sem fela í sér tugmilljóna króna hækkun á gjöldum fjarskiptafélaga til stofnunarinnar. Breytingarnar voru lagðar fram í frumvarpi til Alþingis á síðustu starfsdögum þess fyrir jólafrí og var afgreitt með hraði án samráðs við atvinnulífið. Samtök atvinnulífsins mótmæltu þessu harðlega en rökstuðning fyrir þessari skattahækkun skortir og  líkur eru á að breytingarnar stangist á við ákvæði Evrópuréttar. Viðbúið er að fjarskiptafyrirtækin láti reyna á lögmæti þessarar auknu skattheimtu.

Undarleg vinnubrögð

Frumvarpinu sem hér um ræðir var vísað til samgöngunefndar Alþingis á síðasta degi nóvembermánaðar og það síðan afgreitt í flýti áður en Alþingi hélt í jólafrí í byrjun desember. Samtök atvinnulífsins lýsa undrun sinni á þessum vinnubrögðum og að ekkert samráð hafi verið haft við atvinnulífið.

Frumvarpið felur í sér verulega hækkun á rekstrargjaldi fjarskiptafélaga til Póst- og fjarskiptastofnunar, úr 0,20% af gjaldfærðri veltu í 0,30%. Þessi skattahækkun mun skila Póst- og fjarskiptastofnun 25 milljónum króna aukalega í tekjur á ári en rökstuðning fyrir þessari hækkun skortir. Fjarskiptafyrirtækin Vodafone og Síminn hafa mótmælt þessari auknu skattheimtu harðlega án þess að fullnægjandi skýringar á hækkuninni hafi fengist.

Reyna kann á lögmæti breytinga

Samtök atvinnulífsins telja alvarlega annmarka á fyrrgreindum lagabreytingum og í umsögn til samgöngunefndar Alþingis lögðust Samtök atvinnulífsins alfarið gegn því að þær yrðu samþykktar. Í nefndaráliti minnihluta samgöngunefndar var málsmeðferðin jafnframt gagnrýnd harðlega. Þar segir að málið hafi verið vanreifað, umsagna hafi verið leitað á elleftu stundu og fjarskiptafyrirtækjum hafi ekki verið gert ljóst með kostnaðarútreikningum á hverju fyrirhugaðar breytingar eftirlitgjalda væru grundvallaðar.

Viðbúið er að fjarskiptafyrirtækin láti reyna á lögmæti þessarar auknu skattheimtu en líkur eru á að ný lögbundin gjaldskrá fyrir tíðninotkun sem fest var í lög um áramótin brjóti í bága við ákvæði Evrópuréttar þar sem öll eftirlitsgjöld verða að byggjast á hlutlægum, gegnsæjum og málefnalegum forsendum. Greiðanda þjónustugjalds verður til dæmis að vera ljóst fyrir hvað er verið að taka gjald. Í þessu tilviki er svo ekki og telja SA að ákvæði í lagabreytingunum samræmist ekki grunnreglum stjórnarskrárinnar um þjónustugjöld og skattheimtu.

Sjá umsögn SA til samgöngunefndar.

Sjá einnig álit minnihluta samgöngunefndar.

Samtök atvinnulífsins