Tryggingagjald lækkaði um 0,5% þann 1. júlí

Á grundvelli samkomulags Samtaka atvinnulífsins við stjórnvöld um lækkun tryggingagjalds á næstu árum undirrituðu samtökin kjarasamning 21. janúar 2016 við ASÍ og aðildarfélög þess. Samkomulagið byggir á rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá 27. október 2015 og felur m.a. í sér hærri almennar launabreytingar og aukið mótframlag atvinnurekenda til lífeyrissjóða.

Samkomulaginu er ætlað að mæta að hluta stórauknum framlögum atvinnulífsins til lífeyrismála og fól í sér að tryggingagjaldið myndi lækka um 0,5% um mitt ár 2016 og um sama hlutfall árin 2017 og 2018 að gefnum forsendum um lækkun skulda ríkisins. Þannig yrði gjaldið komið í svipað horf á árinu 2018 og það var fyrir bankahrunið.

Að mati SA var lækkun tryggingagjalds nauðsynleg forsenda þess að geta mætt kröfum um enn meiri launahækkanir og jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins án þess að raska efnahagslegum stöðugleika. Lækkun tryggingagjalds um 0,5% þann 1. júlí, úr 7,35% í 6,85%, er mikilvægt fyrsta skref en jafn mikilvægt er að stjórnvöld standi við fyrirheit um frekari lækkanir.

Sjá frekari upplýsingar um tryggingagjald á vef RSK