Efnahagsmál - 

22. Desember 2005

Tortryggni skattyfirvalda

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tortryggni skattyfirvalda

Ríkisskattstjóri telur æskilegt að setja á laggirnar sérstaka einingu hjá skattyfirvöldum til að fylgjast með skattskilum stórra fyrirtækja sem hafa flókin eignatengsl og bein eða óbein tengsl við útlönd. Hann telur engan vafa leika á að sú hækkun sem yrði á skatttekjum ríkissjóðs við þetta yrði margfalt hærri en kostnaður við slíka einingu. Fjallað er um slíka stórfyrirtækjaeiningu í nýjasta hefti Tíundar, fréttablaðs ríkisskattstjóra. Þar segir m.a. að alþjóðavæðing, samþjöppun eignarhalds, flókin eignatengsl og fleira geri það að verkum að viðfangsefni skattyfirvalda séu með allt öðrum hætti nú en fyrir fáum árum, og að mikilvægt sé fyrir stór fyrirtæki að almenningur geti treyst því að starfsemi þeirra sé í fullu samræmi við skattalög.

Ríkisskattstjóri telur æskilegt að setja á laggirnar sérstaka einingu hjá skattyfirvöldum til að fylgjast með skattskilum stórra fyrirtækja sem hafa flókin eignatengsl og bein eða óbein tengsl við útlönd. Hann telur engan vafa leika á að sú hækkun sem yrði á skatttekjum ríkissjóðs við þetta yrði margfalt hærri en kostnaður við slíka einingu. Fjallað er um slíka stórfyrirtækjaeiningu í nýjasta hefti Tíundar, fréttablaðs ríkisskattstjóra. Þar segir m.a. að alþjóðavæðing, samþjöppun eignarhalds, flókin eignatengsl og fleira geri það að verkum að viðfangsefni skattyfirvalda séu með allt öðrum hætti nú en fyrir fáum árum, og að mikilvægt sé fyrir stór fyrirtæki að almenningur geti treyst því að starfsemi þeirra sé í fullu samræmi við skattalög.

Rekstur þessara fyrirtækja mjög gegnsær

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í samtali við Morgunblaðið nauðsynlegt að skattayfirvöld löguðu sig að þeim breytingum sem orðið hefðu á íslensku atvinnulífi undanfarin ár. SA gætu á hinn bóginn ekki lagt mat á hvort ástæða sé til að setja á laggirnar sérstaka deild til að fylgjast með íslenskum alþjóðafyrirtækjum heldur hlyti það að vera innanhússmál skattayfirvalda. Hlutverk skattayfirvalda væri að hafa eftirlit með fyrirtækjum og það væri mikilvægt að þau sinntu því vel. Hannes benti einnig á að þau íslensku fyrirtæki sem hefðu haslað sér völl erlendis væru oft á tíðum skráð á hlutabréfamarkað. Rekstur þeirra væri mjög gegnsær, strangar kröfur væru gerðar til reikningsskila og upplýsingagjafar til hluthafa og eftirlitsaðila. Skattayfirvöld hefðu því þegar mjög greiðan aðgang að upplýsingum um þau fyrirtæki sem væru skráð á markað og vandi tengdur skattsvikum ætti alls ekki við um þessi fyrirtæki.

Taldi Hannes að einhverrar tortryggni gætti í garð íslenskra alþjóðafyrirtækja af hálfu skattyfirvalda en það væri á hinn bóginn misráðið að ætla að leggja stein í götu þeirra. Forðast bæri íþyngjandi eftirlit, án þess þó að slaka á kröfum um skilvirka skattframkvæmd. Hann sagðist alls ekki vera andvígur því að færir sérfræðingar yrðu ráðnir til starfa hjá skattyfirvöldum enda krefðust skattskil alþjóðafyrirtækja mikillar þekkingar.

Samtök atvinnulífsins