Tölum um staðreyndir ...

Umræður  um efnahags- og kjaramál einkennast  oftar en ekki af röngum staðhæfingum og ályktunum. 

Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli. Því hafa Samtök atvinnulífsins opnað staðreyndasíðu á slóðinni www.sa.is/stadreyndir þar sem finna má ýmsan fróðleik um íslenskan vinnumarkað, laun og jöfnuð svo eitthvað sé nefnt í alþjóðlegu samhengi. Staðreyndirnar sem hafa birst nú þegar er að finna hér að neðan.


Staðreynd 1: Tekjujöfnuður er hvergi meiri meðal þróaðra ríkja en á Íslandi

Oft er látið í veðri vaka að á Íslandi ríki mikill ójöfnuður en það stenst ekki skoðun því samkvæmt Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) er tekjujöfnuður meiri á Íslandi en í nokkru öðru aðildarríki stofnunarinnar, en aðild að henni eiga öll þróuðustu og ríkustu lönd heims.

Algengasti mælikvarðinn á jöfnuð í tekjudreifingu er svokallaður GINI stuðull. Hann liggur á bilinu 0-100 þar sem gildið 0 merkir að allir hafi sömu tekjur og gildið 100 að einn aðili hafi allar tekjurnar í samfélaginu. Lágt gildi í samanburði við aðra merkir því mikinn jöfnuð og hátt gildi mikinn ójöfnuð.

Á meðfylgjandi grafi er GINI stuðull fyrir OECD-ríkin árið 2014 sem eru nýjustu tölur frá OECD. Hann sýnir að tekjujöfnuður er hvergi meiri meðal þróaðra ríkja en á Íslandi.

Tölfræðistofnun Evrópusambandsins, Eurostat, hefur birt tölur fyrir árið 2015 fyrir öll Evrópuríkin og samkvæmt þeim er Ísland enn með mesta tekjujöfnuðinn það ár.

Smelltu á myndina til að stækka

Staðreynd 2: Lágmarkslaun á Íslandi eru há í alþjóðlegum samanburði

Stjórnmálaflokkar í kosningabaráttu gefa jafnan fyrirheit um hækkun bóta almannatrygginga en þær ráðast að miklu leyti af umsömdum lágmarkslaunum í kjarasamningum. Hver sem lágmarkslaunin eru á hverjum tíma munu þau alltaf þykja lág og enginn getur verið andvígur því að þau hækki. En málið er ekki svo einfalt því í frjálsum kjarasamningum fjölda stéttarfélaga og viðsemjenda þeirra hækka hærri laun yfirleitt álíka mikið og þau lægstu. Fæstir vita þó að lágmarkslaun á Íslandi eru mjög há í alþjóðlegum samanburði. Umreiknað í evrur eru lágmarkslaun á Íslandi þau fjórðu hæstu meðal OECD-ríkjanna og t.a.m. hærri en í nágrannaríkjunum Svíþjóð og Finnlandi. Einungis í Lúxemborg, Danmörku og Noregi eru lágmarkslaun hærri en á Íslandi.

Smelltu á myndina til að stækka


Staðreynd 3: Meðallaun á Íslandi þau næst hæstu meðal OECD-ríkja

Launafólk á Íslandi stendur mjög vel í alþjóðlegum launasamanburði. Að meðaltali eru heildarlaun á Íslandi þau næsthæstu meðal OECD-ríkja á eftir Sviss, og hærri en í Lúxemborg, Danmörku og Noregi, mælt í þúsundum evra miðað við gengi gjaldmiðla í ágúst 2017.

Smelltu á myndina til að stækka


Staðreynd 4: Íslenskt launafólk fær hæstan hluta verðmætasköpunar atvinnulífsins

Verðmætasköpun í atvinnulífinu skiptist milli launa og fjármagns. Hvorugt getur án hins verið. Framleiðsla á vöru og þjónustu krefst starfsfólks og fjármagns, þ.e. fjárfestingar í tækjum og öðrum búnaði. Verðmæti framleiðslunnar skiptast í launagreiðslur og launatengd gjöld annars vegar og afskriftir (endurnýjun fjármuna), vaxtagreiðslur, arð og hagnað hins vegar. Hlutur launafólks í verðmætasköpun efnahagslífsins er hæstur á Íslandi í samanburði OECD-ríkja.

Smelltu á myndina til að stækka

Staðreynd 5: Íslendingar verja svipuðu hlutfalli af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði og aðrar Evrópuþjóðir

Húsnæðiskostnaður er í flestum tilvikum stærsti útgjaldaliður heimila, að sköttum frátöldum. Af umræðu mætti ætla að á Íslandi sé húsnæðiskostnaður sérstaklega íþyngjandi og að viðvarandi neyðarástand ríki á húsnæðismarkaði hér á landi. Á Íslandi er hlutfall ráðstöfunartekna sem fer í húsnæði þó nálægt meðaltali annarra Evrópuríkja og lægra en t.a.m. í Danmörku.

Smelltu á myndina til að stækka

Staðreynd 6: Opinber útgjöld eru há á Íslandi

40 krónum af hverjum 100 er ráðstafað af hinu opinbera. Í örfáum löndum ráðstafar hið opinbera hærra hlutfalli af þeim verðmætum sem til ráðstöfunar eru en á Íslandi. Þrátt fyrir þessar óyggjandi staðreyndir er oft fullyrt  að útgjöld hins opinbera á Íslandi séu minni en í samanburðaríkjum.

Ísland er með einhvern umfangsmesta ríkisrekstur sem um getur og leiðin til að veita auknum fjármunum til mikilvægra málaflokka hlýtur að felast í betri nýtingu á skattfé og forgangsröðun innan þess stóra útgjaldaramma sem  hið opinbera býr við.

Sanngjarn samanburður útgjalda á Íslandi og í öðrum löndum verður að taka mið af mismunandi aldurssamsetningu þjóða, ólíkum lífeyriskerfum og mismiklu atvinnuleysi. Í meðfylgjandi samanburði eru útgjöld hins opinbera vegna elli- og örorkulífeyris og atvinnuleysisbóta dregin frá í öllum ríkjunum. Ísland er enn tiltölulega ung þjóð með fáa ellilífeyrisþega, ellilífeyrir er víðast að stærstum hluta greiddur beint úr ríkissjóði en ekki að mestu af lífeyrissjóðum eins og hér á landi og atvinnuleysi er og hefur verið mun minna á Íslandi en í öðrum ríkjum.

Opinber útgjöld, leiðrétt fyrir lífeyris- og bótagreiðslum, eru um 40% af landsframleiðslu á Íslandi sem eru  töluvert yfir meðaltali Evrópuríkja.

Smelltu á myndina til að stækka

Staðreynd 7: Ísland er háskattaland

Hið opinbera á Íslandi þarf miklar skatttekjur til að geta staðið undir miklum útgjöldum, sem eru meðal þeirra hæstu í OECD-ríkjunum. Samanburður á skattheimtu OECD-ríkja leiðir í ljós að Ísland er með þriðju hæstu skatttekjurnar á eftir Danmörku og Svíþjóð, þegar leiðrétt er fyrir mismunandi fjármögnun almannatryggingakerfa.

Smelltu á myndina til að stækka

Staðreynd 8: Árlegur dagvinnutími er stuttur á Íslandi

Hugmyndir og tillögur um styttingu vinnutíma á Íslandi markast af röngum upplýsingum og röngum ályktunum. Flestir halda að dagvinnutími á viku sé 40 stundir og bera saman við 37 eða 37,5 stundir í Danmörku og Noregi. Þetta er ekki rétt því dagvinnutími verður lengstur 37 stundir á Íslandi. Vinnutími er sá tími sem starfsmaður er við störf og til taks fyrir vinnuveitandann. Umsamdir kaffitímar, 3 klukkustundir á viku, eiga þannig ekki að reiknast til vinnutíma þótt þeir séu greiddir. Kaffitímarnir eru eigin tími starfsmanna og ekki til ráðstöfunar fyrir vinnuveitandann.

Umsaminn ársvinnutími á Íslandi er hvergi styttri í Evrópu, að Frakklandi undanskildu, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Árlegar vinnustundir, sem standa vinnuveitendum til ráðstöfunar á dagvinnukaupi, eru 1.632 og er þá miðað við 37 stundir á viku, 28 daga meðalorlof og 11,4 sérstaka frídaga.

Smelltu á myndina til að stækka


Kjarni máls ...