Efnahagsmál - 

12. Apríl 2012

Tíu þúsund starfa reikningur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tíu þúsund starfa reikningur

Nú stefnir í að landsframleiðsla á næsta ári verði um 100 milljörðum króna lægri en gert var ráð fyrir þegar efnahagsáætlun þáverandi ríkisstjórnar og AGS var samþykkt haustið 2008. Þetta þýðir að störf á Íslandi verða líklega um 10 þúsundum færri en ella. Fólk hefði ekki þurft að flytja úr landi eins og raun hefur verið og atvinnuleysi hefði getað verið komið undir 3% í stað þess að verða um og yfir 6% á næsta ári eins og áætlað er.

Nú stefnir í að landsframleiðsla á næsta ári verði um 100 milljörðum króna lægri en gert var ráð fyrir þegar efnahagsáætlun þáverandi ríkisstjórnar og AGS var samþykkt haustið 2008. Þetta þýðir að störf á Íslandi verða líklega um 10 þúsundum færri en ella. Fólk hefði ekki þurft að flytja úr landi eins og raun hefur verið og atvinnuleysi hefði getað verið komið undir 3% í stað þess að verða um og yfir 6% á næsta ári eins og áætlað er.

Í þessum tölum birtist einfaldasta mynd reikningsins sem þjóðin greiðir fyrir hugmyndafræðilega baráttu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna gegn fjárfestingum í atvinnulífinu og framgangi þess.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum tókst ágætt samstarf milli hennar og aðila vinnumarkaðarins sem skilaði sér í stöðugleikasáttmálanum í júní 2009. Hann byggði á því að ríkisstjórnin beitti sér fyrir raunhæfum lausnum á viðfangsefnum en ekki tilraunum til hugmyndafræðilegra sigra.

Það helsta sem hefur tekist vel hjá ríkisstjórninni er að hallarekstur ríkissjóðs hefur minnkað mikið, vissulega með miklum niðurskurði og skattahækkunum. Ekki er útilokað að ríkissjóður verði rekinn með afgangi á árinu 2014 sem er nauðsynlegt til þess að treysta efnahag þjóðarinnar. Skattahækkanirnar hafa því miður fyrst og fremst tekið mið af neikvæðum viðhorfum til atvinnulífsins og hafa valdið mun meiri skaða en þurft hefði. Skatta hefði ekki þurft að hækka í sama mæli ef atvinnulífinu hefði verið leyft að vaxa og auka verðmætasköpun.

Ennfremur var það rétt ákvörðun hjá ríkisstjórninni að tryggja eins og kostur var samkeppni í atvinnulífinu og afstýra pólitískri miðstýringu með því að flytja Arion banka og Íslandsbanka úr ríkiseigu til búa gömlu bankanna. Það var einnig rétt að láta aldrei koma til framkvæmda lög sem gerðu ráð fyrir því að 10 til 20 stærstu fyrirtæki landsins yrðu færð undir eignarhaldsfélag í eigu ríkisins. Allt þetta gerði ríkisstjórnin að eindreginni áeggjan Samtaka atvinnulífsins en með því var afstýrt því stórkostlega efnahagslega slysi að nánast allt bankakerfið og stór hluti atvinnulífsins yrði sett á pólitískan klafa. Þarna réði vilji til praktískra lausna ferðinni hjá ríkisstjórninni.

Í flestum öðrum málum hefur þörfin fyrir hugmyndafræðilega sigra heltekið ríkisstjórnina og það hefur leitt til þessa háa reiknings sem samfélagið allt þarf að greiða, með því að það vantar um 10 þúsund störf á vinnumarkaðinn á næsta ári. Barátta ríkisstjórnarinnar gegn tveimur helstu útflutningsgreinum Íslendinga, orkufrekum iðnaði og sjávarútvegi tekur sinn toll. Eina umtalsverða verkefnið sem gengið hefur eftir í uppbyggingu orkufreks iðnaðar eru endurbæturnar á álverinu í Straumsvík og Búðarhálsvirkjun. Önnur stór fjárfestingarverkefni eru stopp. Rammaáætlun ríkisstjórnarinnar er enn ein tilraunin til hugmyndafræðilegs sigurs yfir faglegum vinnubrögðum og tryggir, ef samþykkt verður, áframhaldandi hægagang í uppbyggingu í orkuframleiðslu og orkufrekum iðnaði.

Baráttan gegn heilbrigðum rekstri í sjávarútvegi er sorgarsaga. Eftir góð samskipti við aðila vinnumarkaðarins og í kjölfar stöðugleikasáttmálans í júní 2009 hóf sérstök endurskoðunarnefnd með aðild allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila störf og náði sögulegri sátt um málefni sjávarútvegsins. En þegar kom að útfærslu sáttarinnar kom í ljós djúpstæður hugmyndafræðilegur ágreiningur við of marga stjórnarþingmenn og sjálfan þáverandi sjávarútvegsráðherra. Þessi hópur tók málið í sínar hendur og það hefur síðan verið unnið án afskipta flestra þeirra sem hafa þekkingu eða reynslu í sjávarútvegi. Niðurstaðan er eftir því og birtist nú síðast í nýjum frumvörpum sjávarútvegsráðherra þar sem stórlega er dregið úr arðsköpun í sjávarútvegi á sama tíma og áformuð er hrein hagnaðarupptaka með hækkun veiðigjalds.

Enn má nefna mál eins og vandræðaganginn við stórar og mikilvægar samgönguframkvæmdir. Gjaldeyrishöftin verða sífellt skaðlegri fyrir atvinnulífið eftir því sem þeim er viðhaldið lengur. Þegar upp er staðið virðast praktískar lausnir verða ríkisstjórninni sífellt fjarlægari en hugmyndafræðin þvælast sífellt meira fyrir. Það er engin tilviljun að útflutningur hefur vaxið ótrúlega lítið síðustu ár þrátt fyrir hagstætt gengi krónunnar fyrir útflutningsfyrirtæki. Vöruútflutningur hefur lítið sem ekkert vaxið en ferðaþjónustan hefur borið uppi aukninguna í þjónustuútflutningi. Þessi ár hefðu einmitt þurft að nýtast til fjárfestinga í útflutningsgreinum til þess að stækka útflutningsgrunninn sem er nauðsynlegt til að tryggja framfarir og betri lífskjör í landinu.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við var stundum um það rætt að atvinnulífið myndi örugglega lifa lengur en hún. Þess vegna væri rétt fyrir atvinnulífið og samtök þess að vinna með ríkisstjórninni. Nú þegar þrá eftir hugmyndafræðilegum sigrum í stað praktískra lausna hefur heltekið ríkisstjórnina og stjórnarflokkana er margur maðurinn í atvinnulífinu farinn að velta því fyrir sér hvort ýmis fyrirtæki muni lifa ríkisstjórnina af. Því miður hafa allt of margir í atvinnulífinu pakkað í vörn þegar sóknarfærin gætu blasað alls staðar við ef rétt væri á málum haldið. Þetta er hin stóra þversögn í atvinnumálum þjóðarinnar. En ríkisstjórnin virðist ekki tilbúin að draga 10 þúsund starfa reikning sinn á þjóðina til baka.

Vilhjálmur Egilsson

Af vettvangi í apríl 2012

Samtök atvinnulífsins