Tillögur til umbóta á skattkerfinu

Skattkerfi atvinnulífsins - smelltu til að sækja

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa gefið út nýtt rit með ítarlegum tillögum til umbóta á skattkerfinu sem hafa það að markmiði að efla fjárfestingu, auka atvinnu og bæta lífskjör. Ritið heitir Skattkerfi atvinnulífsins. Fjárfesting - atvinna - lífskjör og var kynnt á opnum fundi í morgun á Hilton Reykjavík Nordica þar sem fullt var út úr dyrum. Á fjórða hundrað stjórnenda úr íslensku atvinnulífi mætti til fundarins.

Í inngangi ritsins kemur m.a. fram að á Íslandi eru skatttekjur hins opinbera í hlutfalli við landsframleiðslu meðal þeirra hæstu í OECD ríkjunum (m.v. 2007) þegar lögbundin iðgjöld í lífeyrissjóði eru talin með. Það er eðlilegt að telja þau með þar sem sambærileg iðgjöld eru víðast annars staðar í formi skatta. Hlutfallið þannig reiknað var 48,6% á Íslandi en hæst 48,7% í Danmörku. Skatthlutfall evru-ríkjanna var hins vegar 39,7% og OECD-ríkjanna 35,8%.

Rafrænt eintak má nú nálgast hér á vef SA - með því að smella á myndina eða hér að neðan.

Mikilvægt er að skattkerfið sé einfalt. Það auðveldar allar ákvarðanir, eykur getu skattyfirvalda til að fylgja skattareglum eftir og kostnaður af eftirfylgni verður lægri en ella. Einföldu skattkerfi fylgir aukin hagkvæmni og jákvæðara viðhorfs almennings en það dregur úr skattsvikum og lækkar kostnað skattyfirvalda og almennings. Skattkerfið þarf einnig að vera hóflegt í alþjóðlegum samanburði, hlutlaust innan skattstofna, með alla hagkvæma skattstofna í notkun og stöðugt til lengri tíma.

Það er von SA og VÍ að tillögur samtakanna verði  grundvöllur málefnalegra skoðanaskipta um skattamálin og brýnar breytingar á næstu vikum og mánuðum.

Rafrænt eintak rits SA og VÍ má nálgast hér