Tillögur hagræðingarhópsins fyrsta skrefið á langri vegferð

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur sett fram lista með 111 tillögum sem lúta að hagræðingu ríkisrekstrarins. Af þessum tillögum eru 37 sem þegar eru til úrvinnslu í ráðuneytunum þannig að 74 þeirra eru enn á hugmyndastigi. Tillögunum má skipta í nokkra flokka eftir efni þeirra. Flestar tillögurnar, eða 32, fjalla um almenna stefnumörkum þar sem áhersla er lögð á fagleg vinnubrögð, aukinn aga og fjárhagslega ábyrgð.

Þá eru gerðar 23 tillögur um að gerðar verði úttektir á tilteknum möguleikum og 19 tillögur um að núverandi fyrirkomulag verði endurskoðað. Samtals eru því gerðar 74 tillögur sem eru almenns eðlis eða um frekari úttektir.

Eftir standa þá 37 beinar tillögur um breytingar en þar af eru fjórar um að hætt verði við þegar ákveðna hækkun fjárveitinga og ein um tekjuöflun, þ.e. náttúrupassa. Að þeim frátöldum gerir hópurinn 32 beinar hagræðingartillögur og þar af eru 25 um sameiningu eða niðurlagningu stofnana, 4 um sameiningu stoðþjónustu eða eftirlits og þrjár um niðurskurð útgjalda.

Hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar

Þótt hagræðingarhópurinn hafi lagt megináherslu á kerfisbreytingar sem beinast að áherslum, aðferðum og skipulagi, en síður á tillögur um beinan niðurskurð, þá er að finna tvær slíkar tillögur á lista hópsins.

Önnur niðurskurðartillagan er sú að lagt er til að greiðslum til Bændasamtakanna verði hætt en samkvæmt fjárlögum 2014 nema greiðslur úr ríkissjóði vegna rekstrar og þjónustusamninga við samtökin 579 m.kr. og þar af renna 491 m.kr. til ráðgjafarþjónustu og þróunarverkefna á þeirra vegum. Sá niðurskurður er löngu tímabær. Óljóst er þó hversu mikill niðurskurður felst í því að hætta greiðslum til samtakanna því tekið er fram að stuðningur við ákveðin verkefni samkvæmt búnaðarlagasamningi haldi áfram, s.s. kornrækt og verndun búfjárstofna.

Hin niðurskurðartillagan er almenns eðlis og lýtur að fjárlagaliðum sem hafa tekið til sín aukna fjármuni undanfarin ár. Tillagan leynir á sér því hún gæti haft mikil áhrif í þeim málaflokkum þar sem henni yrði framfylgt. Í 5. lið tillagnanna er lagt til að "fyrirliggjandi áætlanir um ný útgjöld og fjárveitingar sem hafa hækkað að raungildi frá 2008 verði endurmetnar og fjárlagaliðir færðir til þess sem þeir voru að nafnverði árið 2008 nema hægt sé að sýna fram á að brýn nauðsyn hafi verið fyrir hækkun." Óljóst er hvað í þessari tillögu felst nema að fyrir liggi yfirlit yfir hvernig einstakir fjárlagaliðir hafa þróast síðan 2008 en markmið um að færa útgjöld tiltekinna málaflokka til þess nafnvirðis sem var árið 2008 er ótrúlega metnaðarfullt í ljósi þess að verðlag opinberrar þjónustu (samneysluvísitala) hefur hækkað um 35% frá árinu 2008 til áætlaðs verðlags ársins 2014.