Tillögur að uppfærslu Íslands

Samtök atvinnulífsins gefa í dag út nýtt rit þar sem er að finna tillögur samtakanna að uppfærslu Íslands. Tillögurnar miða að því að styrkja menntakerfið og efla atvinnulífið með aukinni samvinnu skóla og fyrirtækja. Ritið byggir á umræðu um 100 stjórnenda úr íslensku atvinnulífi en fyrirtæki og samtök í atvinnulífinu kalla eftir sameiginlegri stefnumótun með stjórnvöldum um framtíð og þróun menntakerfisins. Rafrænt eintak má nálgast nú þegar á vef SA en fyrstu eintökum ritsins verður dreift á aðalfundi SA sem fer fram síðar í dag.

Samtök atvinnulífsins hafa á undanförnum árum gefið út nokkur rit þar sem lagðar eru fram tillögur um hvernig unnt er að koma atvinnulífinu á skrið á nýjan leik eftir mikinn efnahagssamdrátt, stóraukið atvinnuleysi, minni vinnutíma fólks og minni tekjur. Endurreisninni hefur miðað hægt en lausn vandans er í sjálfu sér einföld þegar menn hafa áttað sig á samhenginu. Með auknum fjárfestingum, aukinni framleiðni og verðmætasköpun atvinnulífsins skapast svigrúm til að hækka laun og auka kaupmátt. Þar með eykst eftirspurn eftir vörum og þjónustu, störfum fjölgar og dregur úr atvinnuleysi. Með bættum hag fyrirtækja og fólks aukast skatttekjur ríkis og sveitarfélaga.

Smelltu til að sækja (PDF)Í riti SA, UPPFÆRUM ÍSLAND er horft til framtíðar og skoðaðar undir nýju sjónarhorni, hugmyndir og tillögur sem geta stutt við jákvæða þróun atvinnulífsins, breytt viðmóti og sýn fólks og opnað á nýja möguleika til atvinnusköpunar. Lífskjör hér verða að vera sambærileg við það sem best gerist til að hæfustu og best menntuðu einstaklingarnir velji ekki að flytjast annað. Menntakerfið verður að vera í stakk búið til að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir fólk með fjölbreytta og góða menntun til að skapa verðmæti í samkeppnishæfu umhverfi.

Núverandi ástand er gagnrýnt þar sem árangur er ófullnægjandi og bent er á nýjar leiðir og samspil fyrirtækja milli greina. Viðræður milli atvinnulífs og stjórnvalda verða að eiga sér stað til að ná fram meiri samstöðu um hvert skuli stefna. Kallaður var til hópur fólks 10-12 manna til að fjalla um tengdar greinar og haldnir umræðufundir um hvert viðfangsefni. Þar tjáðu fundarmenn sig um helstu tækifæri sem við blasa og hvernig þróunin gæti orðið á næstu 5 - 10 árum ef helstu möguleikar eru nýttir. Fjallað var um framtíðarsýn og fólk beðið um að segja hver væru helstu viðfangsefnin.

Samtök atvinnulífsins þakka öllum þeim sem komu að verkefninu kærlega fyrir þátttökuna og vonast til að niðurstöðurnar muni nýtast við að uppfæra starfsumhverfi atvinnulífsins og um leið hag alls almennings í landinu.

SMELLTU HÉR TIL AÐ SÆKJA TILLÖGUR SA