Tillaga SA um breytingar á kjarasamningum

Samtök atvinnulífsins lögðu fram í morgun tillögu um breytingar á kjarasamningum milli aðildarfélaga ASÍ og SA gerðum 17. febrúar 2008 og síðar. Tillöguna má nálgast hér á vef SA þar sem munu birtast reglulega fréttir af framgangi viðræðna.

Tillagan í heild er hér að neðan:

Tillaga SA um breytingar á kjarasamningum milli aðildarfélaga ASÍ og SA
 gerðum 17. febrúar 2008 og síðar

Með vísan til samkomulags aðila um frestun endurskoðunar- og framlengingarákvæða samninga dags. 25. febrúar 2009, þar sem fram kom m.a. að Samtök atvinnulífsins treystu sér ekki til þess að standa við launalið kjarasamninganna á þeim tímasetningum sem um var samið, er gerð eftirfarandi tillaga um breytingar.

1. Hækkanir kauptaxta, ákvæðisvinnu og kostnaðarliða sem áttu að koma til framkvæmda 1. mars 2009.

a. Samningar sem kveða á um sérstaka hækkun kauptaxta um 13.500 kr. hækki í stað þess um 6.750 kr. frá 1. júlí 2009 og um sömu tölu 1. nóvember 2009.

b. Samningar sem kveða á um sérstaka hækkun kauptaxta um 17.500 kr. hækki í stað þess um 8.750 kr. frá 1. júlí 2009 og um sömu tölu 1. nóvember 2009.

c. Hækkun ákvæðisvinnutaxta og kostnaðarliða kjarasamninga færist til 1. nóvember 2009.

2. Í stað ákvæðis um launaþróunartryggingu 1. mars 2009 komi eftirfarandi breyting til framkvæmda 1. nóvember 2009:

Grunnhækkun lægri fastra mánaðarlauna, að viðbættum föstum álags- eða aukagreiðslum, en 300.000 kr. er 3,5%. Frá henni dragast hækkanir á launum starfsmanns frá 1. janúar til 30. október 2009. Frádráttur getur þó ekki orðið hærri en grunnhækkun. Við samanburð launa skal miða við föst viku- eða mánaðarlaun að viðbættum föstum álags- eða aukagreiðslum hverju nafni sem þær nefnast. 

Greinargerð: Við mat á kjarasamningunum 17.2 2008 var þetta ákvæði metið til 1,1% kostnaðarauka fyrir atvinnulífið. Var þá talið að ákvæðið snerti einungis þriðjung launamanna þar sem launaskrið og hækkanir í launakerfum drægju úr áhrifum þess. Þróunin hefur orðið allt önnur en ráð var fyrir gert þar sem nánast ekkert launaskrið hefur átt sér stað frá gerð samninganna og laun víða lækkað. Samningsákvæðið er því mun kostnaðarsamara fyrir atvinnulifið en fyrirséð var. Af þeim ástæðum er gerð tillaga um að þetta samningsákvæði takmarkist við mánaðarlaun undir 300.000 kr.

3. Hækkun kauptaxta og almennar launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. janúar 2010 færist til 1. september 2010.

Forsenda tillögu þessarar er aðild stjórnvalda að samkomulagi aðila.