Tilboð um 23,5% hækkun dagvinnulauna á þriggja ára samningstíma

Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram tilboð um 23,5% hækkun dagvinnulauna á þriggja ára samningstíma í kjaraviðræðum við Starfsgreinasamband Íslands (SGS). Innifalið í þeirri hækkun er 8% sérstök hækkun dagvinnulauna, samhliða auknum sveigjanleika vinnutíma og lækkun yfirvinnuálags. Með þeim hætti yrðu grunnlaun hækkuð sérstaklega og vægi dagvinnulauna í heildartekjum myndi aukast. Launakerfin yrðu þannig færð nær því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, þar sem vinnutímareglur eru mun sveigjanlegri en hér tíðkast og yfirvinnugreiðslur eru hverfandi.

Í Fréttablaðinu í dag heldur Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS, því fram að tilboðið sé blekking en því fer fjarri.

Tilboðið felur í sér raunverulegar kjarabætur en samkvæmt því hækkaði lægsti taxti aðildarfélaga SGS um 47 þús.kr. á mánuði á þremur árum. Meðaldagvinnulaun félagsmanna aðildarfélaga SGS hækkuðu úr 260 þús.kr. á mánuði í 320 þús.kr. eða um 60 þús.kr. krónur og meðaldagvinnulaun fiskvinnslufólks úr 290 þús.kr. á mánuði í 360 þús. kr., eða um 70 þús. kr.

Þá hafa SA einnig boðið sérstaka hækkun lágmarkstekjutryggingar fyrir fulla dagvinnu sem næði 280 þús.kr. á mánuði í lok samningstímans.

Ástæða er til að vekja athygli á því að tilboð SA til SGS er hærra en samtökin hafa nokkru sinni lagt fram frá stofnun þeirra. Jafnframt er tilboðið hærra en allar samningsniðurstöður í kjarasamningum frá því á tímum óðaverðbólgunnar á níunda áratugnum.

Ef tilboði SA yrði tekið, og það tækist að viðhalda efnahagslegum stöðugleika, yrðu það mestu kaupmáttarsamningar síðustu áratuga.