Þungatakmarkanir skapa óvissu og auka kostnað

Nú eru þungatakmarkanir á flestum vegum landsins. Þær hafa í för með sér að afhending vöru tefst, vöruverð er hærra en ella og skapa alls kyns óvissu og óþægindi. Ætla má að takmarkanir geti staðið í 50 til 60 daga á ári eftir því hvaða vegi er um að ræða. Reglulega má heyra af umkvörtunum flutningafyrirtækja vegna þessara mála og eins umfjöllun einstakra bæjar- og sveitarstjórna auk þess sem þessi hluti vegamála er reglulega til umfjöllunar á Alþingi. Mikilvægt er að á þessu verði ráðin bót og taka SA undir hvatningu SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um 10 ára stórátak í vegamálum.

Anna umferð í 10 mánuði á ári

Myndin hér að neðan frá Vegagerðinni sýnir glöggt hve útbreiddar þessar takmarkanir eru. Ástæða óánægju með þungatakmarkanirnar er sú að þær valda gríðarlegum kostnaðarauka og fyrirhöfn sem leggst fyrst og fremst á fólk og fyrirtæki á landsbyggðinni. Gámar og bílar eru hlaðnir samkvæmt ákveðnum stöðlum og reynist þeir of þungir samkvæmt úttekt vegaeftirlitsins þarf að umstafla til að ná réttri öxulþyngd. Í mörgum tilvikum er verið að flytja innsiglaða gáma en flutningsaðilar hafa ekki heimild til að rjúfa innsigli. Svo virðist sem þungatakmörkunum sé nú beitt oftar og lengur en áður. Veturinn 2004-5 voru þungatakmarkanir á veginum milli Akureyrar og Reykjavíkur í 49 daga og 2005-6 voru þær í gildi 57 daga. Þetta þýðir að vegirnir anna ekki því sem búist er við nema 10 mánuði á ári.

Þungatakmarkanir hjá Vegagerð

Mikilvægt er að á þessu ástandi verði ráðin bót og í þessu sambandi er minnt á hvatningu SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um 10 ára stórátak í vegamálum frá síðasta hausti en þar segir m.a.:

"Flestar stofnbrautir landsins voru byggðar um og upp úr 1980 og miðaði hönnun burðarlags þeirra við að vegirnir myndu endast í um það bil 20 ár. Sá tími er nú víðast liðinn og umferð um vegina er mun meiri og þyngri en gert var ráð fyrir. Er nú svo komið að vegirnir þola ekki lengur umferðina sem á þeim er. Skert burðarþol og ónóg vegbreidd eru meðal þess sem skapar stöðuga hættu fyrir vegfarendur." …

 

"Ekki þarf að fjölyrða um þýðingu greiðra og öruggra samgangna fyrir þjóðfélagið í heild og mikilvægi þeirra fyrir uppbyggingu og rekstur atvinnuvega um allt land. Endurbygging stofnbrauta er því mál sem snertir alla landsmenn, bæði þær kynslóðir sem nú lifa og einnig þær sem á eftir koma."